Félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa nú þegar bætt eyðslumet sitt í einum félagaskiptaglugga þetta sumarið, þótt að enn sé tæp vika eftir þangað til að glugganum lokar. Á fimmtudag höfðu félögin samtals eytt 880 milljónum punda, tæplega 136 milljörðum króna, í nýju leikmenn frá því að félagaskiptaglugginn opnaði í sumar samkvæmt tölum frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte sem tekur reglulega saman upplýsingar um fjárhagsleg málefni íþróttafélaga. Það er 30 milljónum punda meira en félögin keyptu leikmenn fyrir í öllum sumarglugganum í fyrra. Félagaskiptaglugganum verður lokað næsta fimmtudag.
Á þessum tíma í fyrra höfðu félögin í ensku úrvalsdeildinni eytt samtals 685 milljónum punda, eða 78 prósent af þeirri upphæð sem þegar hefur verið eytt í sumar. Þekkt er að mestum fjárhæðum er iðulega eytt á endasprettinum, rétt áður en glugganum er lokað. Í fyrrasumar eyddu félögin til að mynda 165 milljónum punda í nýja leikmenn í síðustu viku hans. Það þýðir að fimmtungur kaupverða voru greidd út í henni. Ef það sama gerist nú, sem er talið afar líklegt, þá mun eyðsla félaganna í ensku úrvalsdeildinni fara vel yfir einn milljarð punda.
Eyða fjórðungi meira en fyrir áratug
Mikil verðbólga hefur verið í eyðslu liðanna í ensku úrvalsdeildinni á undanförnum árum. Fyrir áratug eyddu þau til að mynda samtals 260 milljónum punda í nýja leikmenn í sumarglugganum. Nú stefnir í að eyðslan verði fjórum sinnum meiri og þetta sumar er það fjórða í röð sem nýtt eyðslumet er sett.
Stærstu viðskiptin sem átt hafa sér stað þetta sumarið eru kaup Manchester United á Frakkanum Paul Pogba fyrir um 89 milljónir punda og kaup Manchester City á varnarmanninum John Stones á um 50 milljónir punda. Á meðal þeirra viðskipta sem búið er að semja um en eftir að ganga frá eru kaup Arsenal á varnarmanninum Shkodran Mustafi á 35 milljónir punda og sóknarmanninum Lucas Perez Martinez á 17 milljónir punda.
En það eru ekki bara stærstu liðin sem eru að punga út fáránlegum upphæðum fyrir einstaka leikmenn. Hæsta verð sem t.d. Crystal Palace hafði greitt fyrir leikmann fyrir þetta tímabil voru tíu milljónir punda fyrir Yohan Cabaye. Í sumar hefur félagið tvíbætt það met. Fyrst með því að borga 13 milljónir punda fyrir Andros Townsend, vængmann sem komst ekki í enska landsliðið í sumar, og síðar hátt í 30 milljónir punda fyrir Christian Benteke, sóknarmann sem komst ekki lengur á bekkinn hjá Liverpool. Chelsea keypti miðjumanninn N´Golo Kanté á 32 milljónir punda, en Leicester hafði keypt hann ári áður á 5,6 milljónir punda. Everton keypti kantmanninn Yannick Bolasie, sem Crystal Palace keypti á klink fyrir fjórum árum, á 25 milljónir punda. Svona mætti lengi áfram telja.
Fjölmörg félög eiga enn eftir að kaupa mikið af leikmönnum, ef áætlanir þeirra ganga upp. Hull City hefur til að mynda varla keypt neinn og á einungis 13 aðalliðsleikmenn. Áform félagsins ganga út á að kaupa allt að sjö leikmenn á næstu dögum. West Bromwich Albion vill kaupa fimm og Chelsea mun að öllum líkindum kaupa tvo fokdýra leikmenn til viðbótar. Svo fátt eitt sé nefnt.
Risavaxnir sjónvarpssamningar
Ástæðan fyrir þessari miklu eyðslu er augljós. Það eru rosalegir fjárhagslegir hagsmunir undir í því að halda sæti sínu á meðal þeirra bestu í Englandi og fyrir betri liðin aukast þeir hagsmunir eftir því sem þau lenda ofar á töflunni í lok tímabils.
Ástæða ástæðunnar er umfang sjónvarpsréttarsamning, sem hefur aukist gríðarlega samhliða auknum vinsældum ensku úrvalsdeildarinnar og fleiri keppast nú um að komast yfir réttinn en áður. Í byrjun síðasta árs var gerður nýr samningur sem er að mörgum talin nærri galin. Þá var rétturinn fyrir árin 2016-2019 seldur fyrir 5,2 milljarða punda. Það þýðir að Sky Sports og BT Sport, sem keyptu réttinn, borga meira en tíu milljón pund fyrir hvern leik sem stöðvarnar sýna.
Til samanburðar má nefna að samningurinn sem var í gildi fyrir árin 2013 til 2016 kostaði um þrjá milljarða punda. Og þegar úrvalsdeildin var sett á fót árið 1992 var sjónvarpsrétturinn seldur til sex ára fyrir 191 milljón punda. Til að setja þann vöxt á sölutekjum sjónvarpsréttar í samhengi þá fengu liðin í deildinni samtals 32 milljónir punda á meðaltali á árið á tímabilinu 1992 til 1997. Á árunum 2016 til 2019 fá þau um 1,3 milljarða punda til skiptanna.
Til viðbótar segja enskir fjölmiðlar að salan á alþjóðlegum sýningarrétti á enska boltanum skili ensku úrvalsdeildinni þremur milljörðum punda á samningstímanum. Samtals verður rétturinn því seldur fyrir um eitt þúsund og sexhundruð milljarða íslenskra króna. Eina íþróttadeildin í heiminum sem þénar meira vegna seldra sjónvarpsrétta er bandaríska NFL-deildin.
Keðjuverkun
Enska úrvalsdeildin er alveg sér á báti þegar kemur að vinsældum og peningaflæði. Þetta vita önnur lið í öðrum deildum, hvort sem um er að ræða neðri deildirnar í Englandi eða aðrar deildarkeppnir í heiminum.
Það eru því í gangi tvenns konar verðstrúktúrar á félagaskiptamarkaðnum, sá sem gildir fyrir ensku félögin og felur í sér mun hærra verð, og sá sem gildir fyrir hina. Í praktík virkar þetta þannig að ef enskt félag setur inn tilboð í leikmann hækkar verðið ósjálfrátt, vegna þess að seljendafélagið vita að öll ensku úrvalsdeildarfélögin eiga ótrúlegt magn af peningum. Af öllum þessum innkaupum verður síðan keðjuverkun, þar sem kaupverðin sem minni lið innheimta nýtast þeim í að styrkja sig. Því má segja að hinn mikli auður ensku úrvaldsdeildarinnar sé orðinn helsti drifkrafturinn í viðskiptahlið nútímaknattspyrnunnar.