Ensku félögin hafa þegar slegið eyðslumetið - og það er tæp vika eftir

Ensku úrvalsdeildarfélögin hafa þegar eytt 880 milljónum punda í leikmenn í sumarglugganum, sem er met. Sú upphæð á líklega eftir að hækka á endaspretti ágústsmánaðar. Er eyðslan orðin algjört rugl eða er þetta eðlileg þróun?

Paul Pogba varð dýrasti leikmaður heims þegar Manchester United keypti hann frá Juventus.
Paul Pogba varð dýrasti leikmaður heims þegar Manchester United keypti hann frá Juventus.
Auglýsing

Félögin í ensku úrvals­deild­inni hafa nú þegar bætt eyðslu­met sitt í einum félaga­skipta­glugga þetta sum­ar­ið, þótt að enn sé tæp vika eftir þangað til að glugg­anum lok­ar. Á fimmtu­dag höfðu félögin sam­tals eytt 880 millj­ónum punda, tæp­lega 136 millj­örðum króna, í nýju leik­menn frá því að félaga­skipta­glugg­inn opn­aði í sumar sam­kvæmt tölum frá end­ur­skoð­un­ar­fyr­ir­tæk­inu Deloitte sem tekur reglu­lega saman upp­lýs­ingar um fjár­hags­leg mál­efni íþrótta­fé­laga. Það er 30 millj­ónum punda meira en félögin keyptu leik­menn fyrir í öllum sum­ar­glugg­anum í fyrra. Félaga­skipta­glugg­anum verður lokað næsta fimmtu­dag.

Á þessum tíma í fyrra höfðu félögin í ensku úrvals­deild­inni eytt sam­tals 685 millj­ónum punda, eða 78 pró­sent af þeirri upp­hæð sem þegar hefur verið eytt í sum­ar. Þekkt er að mestum fjár­hæðum er iðu­lega eytt á enda­sprett­in­um, rétt áður en glugg­anum er lok­að. Í fyrra­sumar eyddu félögin til að mynda 165 millj­ónum punda í nýja leik­menn í síð­ustu viku hans. Það þýðir að fimmt­ungur kaup­verða voru greidd út í henni. Ef það sama ger­ist nú, sem er talið afar lík­legt, þá mun eyðsla félag­anna í ensku úrvals­deild­inni fara vel yfir einn millj­arð punda. 

Eyða fjórð­ungi meira en fyrir ára­tug

Mikil verð­bólga hefur verið í eyðslu lið­anna í ensku úrvals­deild­inni á und­an­förnum árum. Fyrir ára­tug eyddu þau til að mynda sam­tals 260 millj­ónum punda í nýja leik­menn í sum­ar­glugg­an­um. Nú stefnir í að eyðslan verði fjórum sinnum meiri og þetta sumar er það fjórða í röð sem nýtt eyðslu­met er sett. 

Auglýsing

Stærstu við­skiptin sem átt hafa sér stað þetta sum­arið eru kaup Manchester United á Frakk­anum Paul Pogba fyrir um 89 millj­ónir punda og kaup Manchester City á varn­ar­mann­inum John Sto­nes á um 50 millj­ónir punda. Á meðal þeirra við­skipta sem búið er að semja um en eftir að ganga frá eru kaup Arsenal á varn­ar­mann­inum Shkodran Must­afi á 35 millj­ónir punda og sókn­ar­mann­inum Lucas Perez Martinez á 17 millj­ónir punda. 

John Stones var keyptur til Everton fyrir um þrjár milljónir punda í janúar 2013. Rúmum þremur árum síðar var hann seldur fyrir 50 milljónir punda til Manchester City.En það eru ekki bara stærstu liðin sem eru að punga út fárán­legum upp­hæðum fyrir ein­staka leik­menn. Hæsta verð sem t.d. Crys­tal Palace hafði greitt fyrir leik­mann fyrir þetta tíma­bil voru tíu millj­ónir punda fyrir Yohan Cabaye. Í sumar hefur félagið tví­bætt það met. Fyrst með því að borga 13 millj­ónir punda fyrir Andros Town­send, væng­mann sem komst ekki í enska lands­liðið í sum­ar, og síðar hátt í 30 millj­ónir punda fyrir Christ­ian Benteke, sókn­ar­mann sem komst ekki lengur á bekk­inn hjá Liver­pool. Chel­sea keypti miðju­mann­inn N´Golo Kanté á 32 millj­ónir punda, en Leicester hafði keypt hann ári áður á 5,6 millj­ónir punda. Everton keypti kant­mann­inn Yann­ick Bolasie, sem Crys­tal Palace keypti á klink fyrir fjórum árum, á 25 millj­ónir punda. Svona mætti lengi áfram telja.

Fjöl­mörg félög eiga enn eftir að kaupa mikið af leik­mönn­um, ef áætl­anir þeirra ganga upp. Hull City hefur til að mynda varla keypt neinn og á ein­ungis 13 aðal­liðs­leik­menn. Áform félags­ins ganga út á að kaupa allt að sjö leik­menn á næstu dög­um. West Bromwich Albion vill kaupa fimm og Chel­sea mun að öllum lík­indum kaupa tvo fok­dýra leik­menn til við­bót­ar. Svo fátt eitt sé nefn­t. 

Risa­vaxnir sjón­varps­samn­ingar

Ástæðan fyrir þess­ari miklu eyðslu er aug­ljós. Það eru rosa­legir fjár­hags­legir hags­munir undir í því að halda sæti sínu á meðal þeirra bestu í Englandi og fyrir betri liðin aukast þeir hags­munir eftir því sem þau lenda ofar á töfl­unni í lok tíma­bils. 

Ástæða ástæð­unnar er umfang ­sjón­varps­rétt­­ar­­samn­ing, sem hefur auk­ist gríð­­ar­­lega sam­hliða aukn­um vin­­sældum ensku úrvals­­deild­­ar­innar og fleiri kepp­­ast nú um að kom­­ast yfir­ rétt­inn en áður. Í byrjun síð­asta árs var gerður nýr samn­ingur sem er að mörg­um talin nærri gal­in. Þá var rétt­­ur­inn fyrir árin 2016-2019 seldur fyrir 5,2 millj­­arða punda. Það þýðir að Sky Sports og BT Sport, sem keyptu rétt­inn, borga ­meira en tíu milljón pund fyrir hvern leik sem stöðv­­­arnar sýna.

Til sam­an­­burðar má ­nefna að samn­ing­­ur­inn sem var í gildi fyrir árin 2013 til 2016 kost­aði um þrjá millj­­arða punda. Og þegar úrvals­­deildin var sett á fót árið 1992 var ­sjón­varps­rétt­­ur­inn seldur til sex ára fyrir 191 milljón punda. Til að setj­a þann vöxt á sölu­­tekjum sjón­­varps­réttar í sam­hengi þá fengu liðin í deild­inn­i ­sam­tals 32 millj­­ónir punda á með­­al­tali á árið á tíma­bil­inu 1992 til 1997. Á ár­unum 2016 til 2019 fá þau um 1,3 millj­­arða punda til skipt­anna.

Til við­­bótar segja enskir fjöl­miðlar að salan á alþjóð­­legum sýn­ing­­ar­rétti á enska bolt­­anum skili ensku úrvals­­deild­inni þremur millj­­örðum punda á samn­ings­­tím­an­­um. Sam­tals verður rétt­­ur­inn því seldur fyrir um eitt þús­und og sex­hund­ruð millj­­arða ­ís­­lenskra króna. Eina íþrótta­­deildin í heim­inum sem þénar meira vegna seldra ­sjón­varps­rétta er banda­ríska NFL-­­deild­in.

Keðju­verkun

Enska úrvals­deildin er alveg sér á báti þegar kemur að vin­sældum og pen­inga­flæði. Þetta vita önnur lið í öðrum deild­um, hvort sem um er að ræða neðri deild­irnar í Englandi eða aðrar deild­ar­keppnir í heim­in­um. 

Það eru því í gangi tvenns konar verðstrúkt­úrar á félaga­skipta­mark­aðn­um, sá sem gildir fyrir ensku félögin og felur í sér mun hærra verð, og sá sem gildir fyrir hina. Í praktík virkar þetta þannig að ef enskt félag setur inn til­boð í leik­mann hækkar verðið ósjálfrátt, vegna þess að selj­enda­fé­lagið vita að öll ensku úrvals­deild­ar­fé­lögin eiga ótrú­legt magn af pen­ing­um. Af öllum þessum inn­kaupum verður síðan keðju­verk­un, þar sem kaup­verðin sem minni lið inn­heimta nýt­ast þeim í að styrkja sig. Því má segja að hinn mikli auður ensku úrvalds­deild­ar­innar sé orð­inn helsti drif­kraft­ur­inn í við­skipta­hlið nútímaknatt­spyrn­unn­ar.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ingrid Kuhlman
Að hlakka til einhvers er næstum jafn gott og að upplifa það
Kjarninn 25. júní 2022
Niðurhal Íslendinga stóreykst milli ára
Íslendingar notuðu 25 prósent meira gagnamagn á farsímaneti í fyrra en árið áður og 21 prósent meira gagnamagn í gegnum fastanet. Tæplega 76 prósent notenda á fastaneti eru nú með ljósleiðaratengingu, en þeir voru þriðjungur 2016.
Kjarninn 25. júní 2022
Af kosningavöku Framsóknarflokksins í fyrrahaust.
Framsókn hirti kjósendur í stórum stíl frá hinum stjórnarflokkunum og Miðflokki
Fylgisaukning Framsóknar í síðustu kosningum var tekin frá samstarfsflokkunum í ríkisstjórn og klofningsflokki. Átta hverjum tíu kjósendum Sjálfstæðisflokks voru úr kjarnafylginu. Framboð Sósíalista hafði neikvæð áhrif á fylgi Vinstri græna og Pírata.
Kjarninn 25. júní 2022
Hraðtíska nær nýjum hæðum með tilkomu tískurisans Shein
Kínverska fatafyrirtækið Shein hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er í dag eitt stærsta tískuvörufyrirtæki í heimi. Umhverfissinnar benda á að fötin séu úr svo litlum gæðum að oft séu þau aðeins notuð í eitt skipti áður en þau enda í ruslinu.
Kjarninn 25. júní 2022
Auður Önnu Magnúsdóttir
Af hverju nýta Íslendingar raforkuna sína svo illa?
Kjarninn 25. júní 2022
Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
Verðbólga veldur því að vaxtalækkanir faraldursins eru að ganga til baka, víðar en hér á Íslandi. Kjarninn tók saman nokkra fróðleiksmola um þróun mála í ríkjum bæði nær og fjær.
Kjarninn 25. júní 2022
Flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar andar ofan í hálsmál flokks Bjarna Benediktssonar samkvæmt síðustu könnunum.
Framsókn mælist næstum jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn
Stjórnarflokkarnir hafa tapað umtalsverðu fylgi á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn nær mun verr til fólks undir fertugu en annarra á meðan að Framsókn nýtur mikilla vinsælda þar. Vinstri græn mælast með þriðjungi minna fylgi en í síðustu kosningum.
Kjarninn 24. júní 2022
Samkeppniseftirlitið ekki haft aðkomu að rannsókn á dótturfélagi Eimskips í Danmörku
Dönsk samkeppnisyfirvöld staðfesta að húsleit hafi farið fram hjá dótturfélagi Eimskips í Danmörku en vilja að öðru leyti ekki tjá sig um rannsókn málsins. Ekki hefur verið óskað eftir aðstoð Samkeppniseftirlitsins hér á landi við rannsóknina.
Kjarninn 24. júní 2022
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None