Frá árinu 2010 hefur staða efnahagsmála á Íslandi batnað jafnt og þétt. Ein af meginástæðunum fyrir því er mikill og ör vöxtur í þjónustu við erlenda ferðamenn en þeim hefur fjölgað mikið á skömmum tíma. Reiknað er með því að fjöldi erlendra ferðamanna á þessu ári verði 1,7 milljónir en árið 2010 voru þeir 488 þúsund.
Flestar spár sem hafa birst til þessa, meðal annars hjá greinendum bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum, gera ráð fyrir áframhaldandi vexti á næstu árum. Á næsta ári er til að mynda gert ráð fyrir að gjaldeyristekjur vegna ferðaþjónustu verði um 500 milljarðar króna, sem er langsamlega mest af öllum gjaldeyrisskapandi atvinnugeirum landsins.
En eins og í öllum geirum, þá getur staðan breyst til hins verra á skömmum tíma. Margir áhættuþættir eru í ferðaþjónustunni. Hvaða þættir eru það helst? Kjarninn rýndi í þrjú atriði sem gætu grafið undan ferðaþjónustunni, sem nú er burðarstólpinn í kröftugu hagvaxtarskeiði hér á landi.
1. Gengi krónunnar er líklega stærsti einstaki áhættuþátturinn þegar kemur að ferðaþjónustunni á Íslandi. Í dag kostar Bandaríkjadalur 117 krónur en fyrir ári síðan var verðið um 136 krónur. Verðið á evrunni er komið í 131 krónu en það var 150 krónur fyrir ári síðan. Mesta breytingin hefur orðið á pundinu en það er nú komið í 157 krónur, en það var tæplega 210 krónur fyrir ári. Þessar styrking krónunnar gagnvart erlendum myntum hefur neikvæð áhrif á mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem verðleggja sig í erlendum myntum en eru með stóran hluta kostnaðar í krónum. Að undanförnu hefur þessi þróun því dregið úr framlegð í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja. Fari svo að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast þá gæti það farið að hafa alvarleg áhrif á fjölmörg fyrirtæki, eins og Már Guðmundsson seðlabankastjóri benti á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun.
2. Einn af þekktum áhættuþáttum í ferðaþjónustu – sem jafnframt er alveg ófyrirsjáanlegur – eru náttúruhamfarir. Eins og við Íslendingar þekkjum þá geta þær komið eldsnöggt, t.d. eldgos eða jarðskjálftar. Ísland er áhættusvæði hvað þetta varðar, og ferðaþjónustan byggir ekki síst á einstakri upplifun í íslenskri náttúru. Eins og eldgosið í Eyfjallajökli minnti alveg sérstaklega á, vorið 2010, þá getur farið svo að eldgos hafi alvarleg áhrif á ferðaþjónustu, og í ljós þess hve tíð þau hafa verið á undanförnum árum, þá gætu þau vel haft áhrif á ferðaþjónustuna, einkum með áhrifum á samgöngur í lofti og á landi. Mörg dæmi eru um að náttúruhamfarir hafi mikil áhrif á ferðaþjónustu svæði og má meðal annars nema eyjuna Madeira, úti fyrir Portúgal. Þar búa 280 þúsund manns, en árlega heimsækja um 1,5 milljóna manna eyjuna, og er ferðaþjónustan burðarstólpi atvinnusköpunar. Á þessu ári hafa skógareldar gert ferðaþjónustunni lífið leitt, og raunar valdið gífurlega miklu tjóni, ekki síst fyrir hótelrekstur. Það er kannski til of mikils mælst, að ferðaþjónustan geti reiknað með náttúruhamförum, en þetta er samt þáttur sem getur valdið miklu tjóni. Bloomberg gerði til að mynda jarðskjálfta í Kötlu í gær að umtalsefni, og fjallaði þar um mögulega hættu vegna Kötlugoss.
3. Of hraður vöxtur getur valdið því, að gengi krónunnar styrkist of hratt, og á því tapa allir. Á þetta minntist Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag. Hann sagði það grafa undan ferðaþjónustunni, að allir aðilar í greininni væru að vaxa hratt á sama tíma, þar sem það skapaði mikið gjaldeyrisinnstreymi sem síðan væri að grafa undan gengi krónunnar. Til framtíðar litið virðist því skynsamur vöxtur – ekki of hraður – vera lífsspursmál fyrir ferðaþjónustuna. En það versta er að það er enginn sem veit nákvæmlega hvað telst verða skynsamur vöxtur, og hvað óskynsamur. Kannski ætti samt þessi hraða og mikla styrking krónunnar – sem seðlabankinn hefur þó haldið niðri með miklum gjaldeyriskaupum – að vera vísbending um að hugsanlega sé vöxturinn nú þegar of mikill.