Þáttaseríurnar Narcos, sem byggðir eru á sönnum atburðum í kringum kókaínstórveldi Pablo Escobar í Kólumbíu, hafa notið mikilla vinsælda, en sería númer tvö var aðgengileg hjá Netflix 2. september síðastliðinn og nýtur nú mikilla vinsælda um allan heim.
Stríð eiturlyfjabaróns
Í fyrstu seríunni var fjallað um uppgang kókaínveldis Escobars, pólitískan feril hans og grimmdarleg ofbeldisverk hans þegar hann barðist gegn aðgerðum yfirvalda gegn víðtækri starfsemi hans.
Í 2. seríu er síðari hlutinn rakinn, eftir að hann strauk úr fangelsisvist. Vettvangurinn er Medellín borg í Kólumbíu, ríflega tveggja milljóna borg í dag, en serían gerist á árunum 1991 til 1993, en Escobar var drepinn í áhlaupi lögreglu á fylgsni hans í borginni, 2. desember 1993. Hann var þá orðinn eingraður og valdahlutföllin í kókaínheiminum, þar sem landbúnaðarhéruð í Kólumbíu eru meginframleiðslusvæðin, höfðu færst til Cali eiturlyfjahringsins.
Kókaínhringurinn
Hann lifir góðu lífi enn í dag, og hefur sterk ítök í gegnum Mexíkó. Megininflutningssvæði kókaíns frá Kólumbíu er sem fyrr Bandaríkin.
Fréttavefurinn The Verge greindi frá því í dag, að seríur númer 3 og 4 væru leiðinni og mun Netflix sem fyrr, framleiða þættina.
Gagnrýnendur hafa lofað þá fyrir góðan leik, og mikið afþreyingargildi.
Mikilvæg saga
„Það er ennþá mikið eftir í þessari sögu, sem hefur alltaf
snúist um kókaín,“ segir Eric Newman í viðtali við Enertainment Weekly. Hann
segir samfélagið í Kólumbíu þurfa að gera þennan tíma upp, þar sem
eiturlyfjahringir náðu tökum á stjórnkerfinu á stórum svæðum, og halda þeim ennþá víða. Að því leyti séu þættirnir mikilvæg söguleg heimild um hvernig þetta gerðist, og þar er Escobar tíminn sérstaklega áhrifamikill.
Svipaða þróun hefur mátt greina í Mexíkó nú, einkum á svæðum þar sem eiturlyfjasmygl hefur veru skipulagt frá eiturlyfjahringjunum í Suður-Ameríku.
Samkvæmt skýrslu sem starfshópur Hvíta hússins birti í maí í fyrra, þá hefur framleiðsla kókaíns í Kólumbíu aukist jafnt og þétt undanfarin ár, og Kókalaufakrar stækkað til muna. Á árunum 2007 til 2012 dróst framleiðsla hins vegar umtalsvert saman í Kólumbíu, eða um 53 prósent. Mikil aukning hefur svo aftur verið á árunum 2013, 2014 og í það minnsta fram eftir ári 2015, samkvæmt skýrslu hópsins. Sé mið tekið af tölum sem starfshópurinn birti þá er Kólumbía ennþá stærsta framleiðslusvæði kókaíns í heiminum, en Perú og Bólivía eru einnig umfangsmikil.
Eiturlyfjahringirnir í Suður-Ameríku teygja anga sína um allan heim og beita miskunnarlausu ofbeldi og hótunum, til að halda stöðu sinni í þessu risavaxna svarta hagkerfi heimsins.
Þrátt fyrir áratuga stríð yfirvalda gegn fíkniefnum, og dauða Pablo Escobar, þá hefur það engin áhrif haft á kókaínveröldina þar sem eftirspurnin, ekki síst frá velstæðu fólki í Bandaríkjunum, eykst stöðugt.