Það geta skipst á skin og skúrir í ferðaþjónustunni eins og í öðrum geirum, jafnvel þó lítið annað en gott útlit sé um þessar mundir. Við getum látið ferðaþjónustuna blómstra, en hún getur líka hrunið eins og spilaborg. Sú sviðsmynd er raunhæfur möguleiki.
Þetta má lesa úr úr ítarlegri vinnu KPMG um ferðaþjónustuna, þar sem fjallað er um stöðu mála út frá sviðsmyndum, en niðurstöður þessarar vinnu voru kynntar í gær.
Fjallað er um nokkra þætti, sem komu til umræðu í vinnu KPMG, í nýjasta hlaðvarpsþætti Markaðsvarpsins en þar er Einar Bárðarson, hjá Reykjavík Excursions, gestur.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra opnaði kynningarfund um málið og fór meðal annars yfir áherslur ráðuneytisins í tengslum við starfsemi Stjórnstöðvar ferðamála. Einnig tóku Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) ásamt Óskari Jósefssyni framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála, einnig til máls. Fundarstjóri var Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins og formaður SAF.
Áhættugreining
Á fundinum voru kynntar tvær nýjar skýrslur um málefni ferðaþjónustunnar. Annars vegar um „Hæfni og gæði í ferðaþjónustu“ sem Dr. Guðfinna S. Bjarnadóttir kynnti og hinsvegar niðurstöður sviðsmyndavinnu og áhættugreiningar KPMG á mögulegri framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi árið 2030.
Sævar Kristinsson ráðgjafi frá KPMG fór yfir hlutverk, tilgang og verklag við sviðsmyndagerðina og áhættugreininguna. Þær Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar kynntu niðurstöður sviðsmyndagreiningarinnar og Gunnar Haraldsson hagfræðingur fór yfir niðurstöður áhættugreiningarinnar.
Viðhorfið getur skipt sköpum fyrir framhaldið
Eitt af því sem greining KPMG leiddi í ljós, er að það er sérstaklega viðkvæmur áhættuþáttur, þegar kemur að ferðaþjónustu hér á landi, að viðhorf heimamanna sé gott.
Rannsóknar sýna að ferðamenn eru sérstaklega næmir fyrir viðhorfi heimamanna og þeirra sem eru að veita þjónustu. Í einni sviðsmyndinni, Ferðamenn – nei takk, er þetta sértaklega dregið fram sem áhættuþáttur.
Sviðsmyndirnar sem skoðaðar voru
sérstaklega, skiptust í þessar fjórar:
„Niceland“ –
— Innviðir samfélagsins eru vel í stakk búnir til að taka á móti og standa undir aukningu ferðamanna
„Ferðamenn – nei takk“
— Landið er vinsæll áfangastaður en hefur sprengt af sér veikar grunnstoðir
„Laus herbergi“
— Nýjabrumið farið af Íslandi, ferðamönnum fer fækkandi og afkastageta er umfram eftirspurn
„Fram af bjargbrúninni“
— Orðspor Íslands sem áfangastaðar fer versnandi, innviðir eru að hruni komnir eftir mikla ásókn ferðamanna
Í greiningunni voru ýmsir þættir skoðaðir sem teljast til drifkrafta greinarinnar, og einni óvissuþátta. Mikilvægustu drifkraftar og óvissuþættir ferðaþjónustunnar, samkvæmt greiningunni, eru:
— Samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar ferðamanna þ.e. hversu eftirsóknarvert Ísland er heim að sækja.
— Þolmörk lands og þjóðar, en þau eru mælikvarði á það hversu vel í stakk búið samfélagið og náttúran eru til að taka á móti ferðamönnum. Þessum óvissuþætti má þannig á vissan hátt líkja við afkastagetu Íslands sem ferðamannastaðar.
Hvað getur gerst í framtíðinni?
Greiningin dregur vel fram þann mikla vöxt sem ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum að undanförnu. Árið 2010 voru 488 þúsund ferðamenn, sem heimsóttu landið, en á þessu ári verða þeir 1,7 milljónir. Þó mikil uppbygging haf átt sér stað, ekki síst þegar kemur að gisti- og veitingaþjónustu, þá hefur þessi mikli vöxtur reynt á innviði víða. Þannig hefur mikil mannmergð á vinsælum stöðum skapað vandamál, til dæmis þegar kemur að því að vernda náttúruna.
En einnig við að ná fram sem bestri rekstrarframlegð af ferðaþjónustunni. Aðgangsstýring með gjaldtöku, á fleiri stöðum, virðist þar augljós leið, en sem kunnugt er hefur ekki tekist að stilla saman strengi milli hagsmunaaðila í ferðaþjónstunni þegar kemur að stefnu í þeim efnum.
Gengi krónunnar er áhættuþáttur
Eins og fram hefur komið í umfjöllunKjarnans þá er gengisþróun stór áhættuþáttur þegar kemur að uppgangi ferðaþjónustunnar. Krónan hefur styrkst um meira en tíu prósent á einu ári, þegar meðaltalið gagnvart evru og Bandaríkjadal er skoðað, og það hefur mikil áhrif á mörg fyrirtæki. Í versta falli getur frekari styrking krónunnar leitt til þess að fyrirtæki þurfa að draga saman seglin
Gjaldeyristekjur vegna komu erlendra ferðamanna til Íslands eru áætlaðar 430 milljarðar á þessu ári en tæplega 500 milljarðar á því næsta, gangi spár um fjölgun ferðamanna eftir. Til samanburðar eru gjaldeyristekjur vegna sjávarútvegs á milli 200 og 300 milljarðar á ári.