Óttinn við hryðjuverk hefur á síðustu árum haft mikil áhrif í ferðamennskunni. Í nýrri könnun sem fyrirtækið IPK International gerði, og 50 þúsund manns tóku þátt í, sögðu 40% þátttakenda að hryðjuverkaógnin hefði áhrif á hvert ferðast væri. Tyrkland, Egyptaland og lönd Norður-Afríku hafa orðið verst úti og af stórborgum París, Istanbúl og Kaíró.
Könnun sem evrópsk ferðamálasamtökum létu gera fyrir rúmu ári síðan leiddi í ljós að sífellt fleiri Evrópubúar ferðast. Og hjá þeim sem á annað borð ferðast til annarra landa er það ekki lengur ein utanlandsferð annað eða þriðja hvert ár, nú eru það iðulega tvö, jafnvel þrjú, ferðalög árlega. Sólarferðir, óbyggðaferðir, veiðiferðir, golfferðir, skíðaferðir,borgarferðir, sérstakar göngu- og reiðhjólaferðir, siglingar með skemmtiferðaskipum eða skútum, klettaklifur, o.s.frv, o.s.frv. Möguleikarnir eru nær óþrjótandi.
Að verða „vinsælt ferðamannaland“ er oftast árangur margra ára eða jafnvel áratuga auglýsingastarfs. Slík landkynning kostar mikið fé, og þolinmæði. Þekktur danskur ferðafrömuður sagði einhverju sinni að landkynning væri langhlaup, „margfalt maraþon“ eins og hann komst að orði. Mörg lönd verja miklum fjármunum í að kynna land og þjóð enda eftir miklu að slægjast.
Ferðamennskan skapar miklar tekjur, því hafa Íslendingar kynnst vel á allra síðustu árum. Á Íslandi hefur markvisst kynningarstarf, ásamt hagstæðu gengi (fyrir ferðamenn) ráðið mestu um mikla aukningu þeirra sem landið heimsækja. Því til viðbótar hefur Ísland notið góðs af því að ferðafólk leitar sífellt að einhverju nýju og ekki síst stöðum, sem fáir hafa heimsótt. Framandi er það stundum kallað. Þótt mörgum Íslendingum þyki nóg um ferðamannastrauminn, sem hefur margfaldast á örfáum árum, er hópurinn sem heimsækir Ísland lítill, samanborið við mörg önnur lönd. Tekjur Íslendinga af ferðamönnum hafa líka margfaldast, í hlutfalli við ferðamannafjöldann.
Frakkland fjölsóttasta ferðamannalandið
Um langt árabil hefur Frakkland verið fjölsóttasta ferðamannaland heims. Samkvæmt upplýsingum World Statistic stofnunarinnar heimsóttu 83 milljónir ferðafólks Frakkland á síðastliðnu ári. 75 milljónir lögðu leið sína til Bandaríkjanna, 65 milljónir til Spánar, 56 milljónir fóru til Kína. Í fimmta sæti yfir vinsælustu ferðamannalöndin árið 2015 var Ítalía, þangað fóru 48 milljónir, Tyrkland heimsóttu 40 milljónir, 33 milljónir fóru til Þýskalands og sami fjöldi til Bretlands. Til Rússlands lögðu 30 milljónir leið sína og í tíunda sæti yfir fjölsóttustu ferðamannalönd veraldar er Mexíkó, þangað fóru 29 milljónir. World Statistic getur þess sérstaklega varðandi Mexíkó að stór hluti þessara 29 milljóna séu Bandaríkjamenn sem fari oft í viku yfir landamærin.
Í fjölsóttustu löndunum eru það iðulega borgirnar sem draga til sín hlutfallslega flesta ferðalangana, í Frakklandi París, Nice, Le Mans, í Bandaríkjunum New York, Los Angeles, San Francisco, Las Vegas. Á Spáni, þriðja fjölsóttasta ferðamannalandinu var dreifingin meiri ef svo mætti segja: Barcelona, Madrid, Majorka, Costa del Sol, Sevilla, Valencia svo það helsta sé nefnt. Í Kína voru það stórborgirnar Beijing og Shanghai sem flestir lögðu leið sína til en á Ítalíu, fimmta fjölsóttasta landinu var dreifingin mjög mikil enda á Ítalía 51 nafn á menningarminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Í Tyrklandi skiptust milljónirnar 40 sem heimsækja landið á milli sögustaða, sólarstranda og stórborgarinnar Istanbúl. Í Þýskalandi og Bretlandi vógu Berlín og London þyngst þótt í þessum löndum færi ferðafólk víða um. Í Rússlandi voru það Moskva og St. Pétursborg sem drógu til sín flesta úr hópi þeirra 30 milljóna sem landið sóttu heim í fyrra.
Hryðjuverkaógnin og ferðamennskan
Eins og fram kom í upphafi pistilsins hefur óttinn við hryðjuverk veruleg áhrif þegar að því kemur að velja hvert skuli haldið þegar leggja á land undir fót. Margir veigra sér við að heimsækja lönd og borgir þar sem hryðjuverkamenn hafa látið til sín taka.
Matthias Fekl aðstoðarferðamálaráðherra Frakklands sagði fyrir nokkrum dögum í viðtali að ferðamönnum í París hefði fækkað um tugi prósenta að undanförnu, samanborið við síðustu ár. Hann sagði að nýting hótelherbergja í síðari hluta júlímánaðar hefði einungis verið 32%, á sama tíma í fyrra og hitteðfyrra var nýtingin yfir 70%. Það eru einkum ferðamenn frá Bandaríkjunum, Asíu, einkum Japan, og löndum við Persaflóa sem hafa hætt við ferðir til Parísar en ferðamenn frá þessum löndum búa að jafnaði á dýrari hótelum og eyða meiri peningum en ferðamenn frá öðrum löndum. Óttinn við hryðjuverk er ástæðan. Samdráttur í ferðamennsku hefur mikil áhrif, í Frakklandi hafa t.d. fleiri en tvær milljónir manna viðurværi sitt af ferðamennsku. Í Brussel í Belgíu fækkaði ferðamönnum um 40% í júlímánuði síðastliðnum miðað við sama tíma í fyrra. Hryðjuverkin á Zaventem flugvelli í mars, þar sem 32 létust, er talin helsta ástæðan þessarar miklu fækkunar. Ekki eru tiltækar tölur um fækkun ferðamanna í Tyrklandi, Egyptalandi og löndum í Norður-Afríku en í þessum löndum hefur ferðafólki fækkað mjög mikið. Evrópskar ferðaskrifstofur, og flugfélög, hafa brugðist við með því að fækka ferðum og draga úr sætaframboði.
Eftir mikla fjölgun kínverskra ferðamanna til Evrópu undanfarin ár virðist nú hafa hægt nokkuð á þeim straumi. Ferðamálasérfræðingar segja það beina afleiðingu óttans við hryðjuverk.
Mikil aukning til Spánar og Portúgals
Sérfræðingar um ferðamál segja að þrátt fyrir að dregið hafi úr straumi ferðamanna til þeirra landa sem nefnd hafa verið hér að framan sé jákvætt að almennt virðist ekki hafa dregið úr ferðalögum. Fólk velur önnur lönd. Þeim sem ferðuðust til Spánar fjölgaði um 12% á fyrri helmingi þessa árs, miðað við sama tíma í fyrra og í Portúgal er fjölgunin á sama tíma 13%. Á Spáni hefur verð á gistingu hækkað talsvert að undanförnu og danskur ferðamálafræðingur sagði að spænskir hóteleigendur megi ekki láta stjórnast af græðgi. Ef verð hækki allt of mikið sé hætta á að ferðamenn leiti annað.
Ísland öruggasta land í heimi
Nýlega birti alþjóðleg stofnun, Institute for Economics and Peace, skýrslu þar sem lagt er mat á, með mörgum og flóknum aðferðum, öryggi fólks í löndum heimsins. Á þessum lista trónir Ísland á toppnum, Danmörk er í öðru sæti, í þriðja sæti er Austurríki, Nýja-Sjáland í fjórða sæti og í fimmta sæti Portúgal. Finnland er í ellefta sæti, Svíþjóð í því fjórtánda og Noregur er neðst Norðurlandanna í 17. sæti. Þetta hlýtur að teljast ánægjuleg niðurstaða fyrir Íslendinga.