Meira en helmingur kjósenda gerði endanlega upp hug sinn til forsetaframbjóðenda í forsetakosningunum í sumar þegar vika eða minna var í kosningar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
27 prósent svarenda segjast hafa gert upp hug sinn á kjördag, og 20 prósent einum til fjórum dögum fyrir kosningar. Sjö prósent gerðu upp hug sinn fimm til sjö dögum fyrir kosningar. 23 prósent gerðu upp hug sinn átta til þrjátíu dögum fyrir kosningar og 23 prósent gerðu það enn fyrr.
Félagsvísindastofnun byggði könnunina á annarri sambærilegri könnun sem gerð var fyrir tuttugu árum, þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands. Talsverður munur er á því hvenær kjósendur ákváðu sig endanlega þá og nú. Árið 1996 voru tæplega 45 prósent kjósenda búin að ákveða sig þegar meira en mánuður var enn í kosningar. Færri ákváðu sig þá þegar átta til þrjátíu dagar voru í kosningar, eða rétt rúmlega 20 prósent. Fleiri, tæplega tíu prósent, ákváðu sig þá þegar fimm til sjö dagar voru í kosningar og um 13 prósent ákváðu sig þegar einn til fjórir dagar voru í kosningar. Miklu færri ákváðu sig á kjördag árið 1996 en árið 2016. Innan við fimmtán prósent ákváðu sig á kjördag fyrir tuttugu árum, á meðan talan var 27 prósent í ár, sem fyrr segir.
Margir kjósendur Guðna ákveðnir mánuði fyrir kosningar
Yfir 35 prósent þeirra sem kusu Guðna Th. Jóhannesson sem forseta höfðu ákveðið það meira en mánuði áður en kosningarnar voru haldnar – stærsti hluti kjósenda hans. Tæplega 30 prósent til viðbótar ákváðu að kjósa hann 8-30 dögum fyrir kosningar, tæplega 15 prósent ákváðu að kjósa hann innan við viku frá kosningum og rúmlega 20 prósent ákváðu að kjósa hann á kjördag.
Ríflega 30 prósent kjósenda Davíðs Odddsonar höfðu sömuleiðis ákveðið sig þegar meira en mánuður var í kosningar. Yfir 35 prósent kjósenda hans tóku ákvörðun þegar átta til 30 dagar voru í kosningar. Innan við tíu prósent ákváðu að kjósa hann vikuna fyrir kosningar en yfir 20 prósent kjósenda hans ákváðu endanlega að velja hann á kjördag.
Fimmtán prósent kjósenda Andra Snæs Magnasonar og um sjö prósent kjósenda Höllu Tómasdóttur höfðu ákveðið sig mánuði fyrir kosningar.
Stór hluti kjósenda Höllu ákvað sig fjórum dögum fyrir kosningar eða seinna. Um 37 prósent þeirra ákváðu að kjósa Höllu þegar einn til fjórir dagar voru í kosningar, og 30 prósent þeirra ákváðu það á kjördag. Sömu sögu er að segja hjá Andra Snæ, tæplega 25 prósent af kjósendum hans ákváðu það nokkrum dögum fyrir kosningarnar og tæplega 35 prósent kjósenda hans ákváðu að kjósa hann á kjördag.
Flestir kusu Davíð vegna hæfni hans
Þá spurði Félagsvísindastofnun einnig um ástæður þess að fólk kaus sinn frambjóðanda og hvað hafi ráðið þar mestu um. 56 prósent svarenda sögðu einfaldlega að þeim hafi litist best á þann eða þá sem fyrir valinu varð. 22 prósent sögðu hæfni frambjóðanda hafa ráðið mestu og 14 prósent framkoma. Þrír af hverjum hundrað vildu ekki að einhver annar frambjóðandi kæmist að og einn af hverjum hundrað sagði að sá frambjóðandi sem viðkomandi vildi helst virtist hafa litla möguleika.
Kjósendur Davíðs Oddssonar skera sig úr í þessari spurningu, því tæplega 60 prósent þeirra segja hæfni Davíðs hafa ráðið mestu um að þeir ákváðu að kjósa hann. Þessi hlutur var um og undir 20 prósentum hjá öðrum frambjóðendum. Hjá hinum frambjóðendunum sagði stærstur hluti að þeim hafi litist best á sinn frambjóðanda, en hæfnin réði mestu hjá Davíð. Um 35 prósent kjósenda hans sögðu það hafa ráðið mestu að þeim hafi litist best á hann.
Um fjórðungur kjósenda Höllu Tómasdóttur sögðu framkomu hennar hafa ráðið mestu, en hlutfallið var mun lægra hjá öðrum frambjóðendum. Þá tekur athygli að fimm prósent kjósenda Guðna Th. Jóhannessonar segja það hafa ráðið mestu að þeir vildu ekki að einhver annar kæmist að.
Næstum allir sögðu heiðarleika mjög mikilvægan
Einnig var spurt um mikilvægi ýmissa atriða fyrir val á frambjóðenda. 89 prósent sögðu heiðarleika vera mjög mikilvægan og 11 prósent sögðu hann frekar mikilvægan.
81% sögðu hæfni í samskiptum við þjóðina vera mjög mikilvægt atriði og 80 prósent sögðu almenna framkomu vera það.
65 prósentum þykir hæfni í samskiptum við útlendinga vera mjög mikilvæg og 60 prósent almenn hæfni.
90 prósent sögðu kynferði ekki vera mikilvægt, en fimm prósentum þótti kynferði mjög mikilvægt og öðrum fimm prósentum frekar mikilvægt.