Margar konur sem nú sitja á þingi munu frá hverfa eftir næstu kosningar. Sumar hafa tekið þá ákvörðun að hætta, aðrar eru fórnarlömb fylgishruns flokka sinna. En mörgum kvennanna sem höfðu hug á því að starfa áfram í stjórnmálum hefur verið hafnað af flokkum sínum. Prófkjör helgarinnar staðfestu það.
Í dag eru 34 þingmenn karlar en 29 þeirra eru konur. Hjá nokkrum framboðum er staða kvenna ofarlega á framboðslistum sterk og fái þau framboð brautargengi verður hátt hlutfall þingmanna þeirra konur.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að fjórar af þeim sex konum í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem eiga raunhæfan möguleika á að ná þingsæti miðað við stöðu flokksins í könnunum sitji í baráttusætum í sínum kjördæmum og gætu því dottið út.
Og staða kvenna er víðar ekki í lagi.
Konur tapa á lélegu gengi
Hjá Samfylkingunni munu fjórir karlar leiða lista flokksins en tvær konur, þær Oddný Harðardóttir, formaður flokksins, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem mun leiða í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Árni Páll Árnason mun leiða í Suðvesturkjördæmi, Guðjón Brjánsson í Norðvesturkjördæmi, Össur Skarphéðinsson í öðru Reykjavíkurkjördæminu og Logi Már Einarsson, varaformaður flokksins, í Norðausturkjördæmi. Athygli vekur að þrír núverandi eða fyrrverandi formenn Samfylkingarinnar sitja í þremur af oddvitasætunum á listum flokksins.
Samfylkingin hefur í dag níu þingmenn, eftir að hafa goldið afhroð í kosningunum 2013 þegar flokkurinn fékk 12,9 prósent atkvæða. Miðað við gengi flokksins í skoðanakönnunum - hann mælist nú með 8,3 prósent- mun hann prísa sig sælan ef sami árangur næst í lok október.
Þegar er ljóst að Katrín Júlíusdóttir hverfur af þingi, en hún hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi kosningum. Þá liggur fyrir að Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, sem kom inn á þing þegar Guðbjartur Hannesson féll frá, mun ekki taka sæti á lista flokksins eftir að hafa lotið í lægra haldi í prófkjöri helgarinnar í Norðvesturkjördæmi. Valgerður Bjarnadóttir mun síðan sitja í þriðja sæti á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu sem verður að teljast afar ólíklegt til að skila henni inn á þing.
Nái Samfylkingin þeim þingsætum sem flokkurinn heldur á í dag munu tvær nýjar konur setjast á þing fyrir flokkinn. Margrét Gauja Magnúsdóttir myndi þá ná inn í Suðvesturkjördæmi og Eva Baldursdóttir í Reykjavík. Þær koma inn í stað Katrínar og Valgerðar.
Staða flokksins yrði því sú sama hvað varðar kynjaskiptingu og hún var eftir kosningarnar 2013, fimm karlar og fjórar konur. Þær Margrét Gauja og Eva eru þó í baráttusætum og því gætu þær orðið fyrstu fórnarlömb þess ef fylgi Samfylkingarinnar fer ekki að hækka.
Konum hjá Framsókn mun fækka mikið
Framsóknarflokkurinn hefur lokið flokksvali sínu í nokkrum kjördæmum. Allar líkur eru á því að fjórir karlar muni leiða lista flokksins í kjördæmunum en tvær konur.
Miklar breytingar verða á lista Framsóknar í Reykjavík. Karl Garðarsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir munu leiða flokkinn í sitthvoru höfuðborgarkjördæminu. Í næstu sætum fyrir neðan þau röðuðust fimm karlar. Eftirsókn kvenna eftir sæti á listum flokksins í kjördæmunum var svo slök að auglýst var sérstaklega eftir þeim svo hægt yrði að uppfylla settar reglur um fjölda kvenna.
Sú sem leiddi flokkinn í Reykjavík suður í kosningunum í apríl 2013, Vigdís Hauksdóttir, ákvað að gefa ekki kost á sér í komandi kosningum. Sigrún Magnúsdóttir og Frosti Sigurjónsson leiddu flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður, en þau ætla bæði að hætta eftir núverandi þing.
Þá mun Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í þingkosningunum líkt og hann gerði 2013. Annað sæti listans skipar Elsa Lára Arnardóttir þingmaður.
Enn á eftir að klára framboðsmál Framsóknarflokksins í þremur kjördæmum. Nokkuð ljóst þykir að Eygló Harðardóttir muni leiða lista flokksins áfram í Suðvesturkjördæmi og þar verður Willum Þór Þórsson væntanlega áfram í öðru sæti. Í Suðurkjördæmi mun Sigurður Ingi Jóhannsson án efa sitja í fyrsta sæti eftir að uppstillingarnefnd hefur lokið störfum og Silja Dögg Gunnarsdóttir er líkleg í annað sætið. Mesta spennan er í Norðausturkjördæmi þar sem fjórir þingmenn sækjast eftir fyrsta sætinu. Þeir eru flokksformaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Höskuldur Þórhallsson, Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.
Miklar bollaleggingar hafa verið um ástæður þess að Þórunn og Líneik bjóða sig fram í fyrsta sætið, þar sem möguleikar þeirra til að ná því þykja afar litlir. Ein kenningin sem fer mjög hátt er sú að framboð þeirra sé til að styðja við Sigmund Davíð svo að atkvæða sem annars gætu ratað til Höskuldar dreifist víðar. Mikil heift er í baráttunni milli mannanna tveggja og ljóst að staða Sigmundar Davíðs sem formanns er líka í mikilli óvissu, eftir að Sigurður Ingi tilkynnti á miðstjórnarfundi á laugardag að hann ætlaði ekki að sækjast áfram eftir varaformannsembættinu vegna samskiptaörðugleika í forystu flokksins. Duldist engum á fundinum að þar ætti hann við samskipti við Sigmund Davíð. Líkurnar á því að Sigurður Ingi bjóði sig fram til formanns á flokksþingi í byrjun október hafa því aukist verulega.
Haldi Sigmundur Davíð og Höskuldur báðir áfram eftir tvöfalt kjördæmaþing, sem fer fram næstkomandi laugardag og mun ganga frá framboðslista flokksins, þá má telja afar líklegt að þeir skipi tvö efstu sætin á listanum, líkt og þeir gerðu fyrir síðustu kosningar. Miðað við fylgi Framsóknarflokksins í dag verður að teljast ólíklegt að önnur, og hvað þá báðar, konurnar sem sækjast einnig eftir forystusætum á listanum, komist á þing.
Framsókn vann mikinn kosningasigur 2013, fékk 24,4 prósent atkvæða og 19 þingmenn. Nú mælist fylgi flokksins tíu prósent og ljóst að rúmlega helmingur þeirra þingmanna hið minnsta mun frá hverfa miðað verði það niðurstaða kosninga.
Hvernig sem fer er ljóst að þingflokkur Framsóknarflokksins mun breytast mikið. Og þingmönnum mun án efa fækka umtalsvert. Þrjár sitjandi þingkonur hafa þegar ákveðið að hætta og margar hinna sitja í baráttusætum. Fjöldi „fórnarlamba“ fylgisminnkunar Framsóknar, verði hún niðurstaða kosninganna, verða því konur.
Jafnræði í oddvitasæti og fléttulistar
Hið nýja framboð Viðreisn á eftir að kynna sína endanlegu lista en línur eru þó farnar að skýrast nokkuð mikið. Þar verður jafnræði á milli kynja í oddvitasætum á listum flokksins. En fremur stendur til að listar flokksins verði að öllu leyti fléttulistar þar sem karl og kona raðist alltaf í sæti til skiptis.
Síðasta oddvitapúslið var opinberað í síðustu viku þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því að hún muni leiða flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdarstjóri heilbrigðissviðs Icepharma, sækist eftir því að leiða annað Reykjavíkurkjördæmið, og Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, væntanlega leiða hitt. Þá ætla Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, og Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur, einnig fram fyrir Viðreisn í Reykjavík og búist er við að þau verði í næstu sætum fyrir neðan Hönnu Katrínu og Þorstein.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, mun verða í fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi. Þá hefur verið greint frá því að Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur frá Ísafirði, muni leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur tilkynnt um framboð og þykir líklegust til að vera í efsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi.
Konur í meirihluta hjá VG
Vinstri græn eru enn að ganga frá framboðslistum sínum. Í Reykjavíkurkjördæmunum er búist við því að Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir leiði sitt hvort Reykjavíkurkjördæmið og að Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir sitji í næstu sætum fyrir neðan. Lilja Rafney Magnúsdóttir sækist eftir fyrsta sætinu í Norðvesturkjördæmi en etur þar kappi við þrjá karla sem vilja það líka. Um helgina var greint frá því að forsetaframbjóðandinn fyrrverandi Ari Trausti Guðmundsson muni leiða flokkinn í Suðurkjördæmi og þegar liggur fyrir að Steingrímur J. Sigfússon verður í fyrsta sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir situr þar í öðru sæti og Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, situr í því þriðja.
Í Suðvesturkjördæmi verður flokksval hjá flokknum en þar hefur Ögmundur Jónasson ákveðið að víkja til hliðar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks VG, var í öðru sæti þar fyrir síðustu kosningar og þykir líkleg til að taka oddvitasætið. Því gæti vel farið svo að fjórar konur leiði lista Vinstri grænna í komandi kosningum en tveir karlar. Í dag samanstendur þingflokkur flokksins af fimm konum og tveimur körlum og afar ólíklegt verður að teljast að karlar verði þar í meirihluta eftir komandi kosningar.
Kannanir benda þó til þess að þingflokkur Vinstri grænna geti stækkað umtalsvert eftir næstu kosningar. Flokkurinn fékk 10,9 prósent atkvæða árið 2013 en mælist nú með 14,4 prósent.
Gott jafnvægi hjá Pírötum
Píratar, sem hafa mælst stærsti flokkur landsins mest allt þetta kjörtímabil, hafa lokið frágangi framboðslista sinna.
Í fjórum efstu sætum á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi eru sjö konur og fimm karlar. Tvær konur, þingmennirnir Birgitta Jónsdóttir og Ásta Guðrún Helgadóttir, leiða í Reykjavíkurkjördæmunum og fyrrverandi þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson í Kraganum. Í Suðurkjördæmi er Smári McCarthy í fyrsta sæti en tvær konur eru í fjórum efstu sætunum. Í Norðausturkjördæmi er Einar Aðalsteinn Brynjólfsson í oddvitasætinu en Guðrún Ágústa Þórdísardóttir í öðru. Svo koma tveir karlar.
Píratar hafa verið í stökustu vandræðum í Norðvesturkjördæmi. Þar var kosið í prófkjöri í ágúst. Úrslit prófkjörsins voru síðar kærð vegna ásakana um smölun til fylgis við ákveðna frambjóðendur. Kæran hafði hins vegar engin áhrif vegna þess að hún átti ekki við. Úrslitunum var samt sem áður hafnað í staðfestingarkosningu og nýtt prófkjör haldið. Þar endaði Eva Pandora Baldursdóttir í efsta sæti og Gunnar Ingiberg Guðmundsson í öðru sæti. Þar á eftir koma tveir karlar.
Hjá Pírötum er kynjastaðan því sú að þrjá konur munu leiða kjördæmi þeirra og þrír karlar. Af efstu fjórum frambjóðendum á öllum listum flokksins eru 11 konur og 13 karlar.
4-2 hjá Bjartri framtíð
Þá er ótalin Björt framtíð, sem er í dag með sex þingmenn. Flokkurinn hefur ekki mælst líklegur til að ná inn þingmanni í könnunum um langt skeið og í nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist fylgi þeirra 3,3 prósent. Þrír núverandi þingmenn flokksins munu leiða lista, formaðurinn Óttarr Proppé í Suðvesturkjördæmi, Björt Ólafsdóttir í Reykjavíkurkjördæmi norður og Páll Valur Björnsson í Suðvesturkjördæmi. Hinir þrír sem nú sitja á þingi fyrir Bjarta framtíð, Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir, ætla ekki fram.
Þá mun Nichole Leigh Mosty leikskólastjóri leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, G. Valdimar Valdemarsson framkvæmdastjóri verður í fyrsta sæti á lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi og Preben Pétursson mjólkurtæknifræðingur leiðir í Norðausturkjördæmi. Fjórir karlar sitja því í efstu sætum á lista flokksins en tvær konur.