Eftir að jarðskjálftamælar greindu skjálfta upp á 5,3 á Richter-kvarða 8. september síðastliðinn, þar sem upptökin voru á þekktu tilraunasvæði Norður-Kóreu með kjarnorkuvopn, þá var ljóst að leiðtogi Norður-Kóreu, hinn 32 ára gamli Kim Jong-un, hafði látið framkvæma kjarnorkuspreningu. Þetta var fimmta sprengjan sem sprengd hefur verið í tilraunaskyni á undanförnum þremur árum, og hafa yfirvöld í Norður-Kóreu sagt að þau séu hvergi nærri hætt. Fleiri sprengjur verði sprengdar og herinn styrktur.
„Brjálæðingurinn“
Nágrannarnir í Suður-Kóreu hafa ekki tekið þessum tíðindum þegjandi og sagði forsætisráðherrann, Park Geun-Hye, að nú væri ekki hægt að sitja hjá. „Brjálæðingurinn“ Kim Jong-un mætti ekki fá að ögra alþjóðasamfélaginu með kjarnorkusprengjum. Það væri ekki bara of langt gengið heldur sýndi glögglega að hann væri hættulegur og til alls vís. „Núna þarf að segja stopp,“ sagði Geun-Hye meðal annars í opinberri yfirlýsingu eftir að jörð nötraði og skalf á Kóreuskaga, eftir kjarnorkusprengjuna.
Óttinn sem Kim Jong-un og her hans í Norður-Kóreu hefur skapað á Kóreuskaga er nú orðinn að stóru vandamáli fyrir Bandaríkjamenn. Ögranirnar beinast ekki síst að Bandaríkjamönnum, en herinn í Suður-Kóreu er studdur dyggilega af her Bandaríkjamanna. Í gær komu yfirvöld í Norður-Kóreu því formlega á framfæri, í gegnum ríkisfjölmiðilinn KNCA, að þau vildi fá viðurkenningu á því að Norður-Kórea væri kjarnorkuríki, og fengi á því alþjóðlega viðurkenningu. Slíkt myndi gefa þeim aukið vægi á hinu alþjóðlega sviði, en ríkið er nær alveg eingrað frá umheiminum.
Verður ekki liðið
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað sagt að Bandaríkjamenn láti ekki ögra sér, og að grannt sé fylgst með gangi mála. Raunar sýndi sameiginlegt lið Suður-Kóreu og Bandaríkjanna vald sitt í gær með því að fljúga BB-1 herþotum yfir Kóreuskaga og gefa út yfirlýsingar um að öllu því hervaldi verði beitt sem þarf til, ef Norður-Kóreumenn halda áfram að ógna með kjarnorkusprengjum.
Í dag bættist svo viði yfirlýsing frá yfirvöldum í Suður-Kóreu um að höfuðborgin í Norður-Kóreu, Pyongyang, verði jöfnuð við jörðu ef öryggi íbúa í Suður-Kóreu verði ógnað með kjarnavopnum.
Ólíkindatól
Í tímaritinu Foreign Policy segir að kjarnorkusprengingar Norður-Kóreu sýni glögglega hversu máttlitlar tilraunir Sameinuðu þjóðanna hafa verið, þegar kemur að því að þvinga Kim Jong-un til samstarfs við alþjóðasamfélagið.
Svo virðist sem aðgerðirnar, sem meðal annars fólust í almennum efnahagsþvingunum og höftum á fjármagnsflutninga til landsins, hafi þvert á móti leitt til þess að Norður-Kórea hóf frekari tilraunir með kjarnorkuvopn.
Til viðbótar hafa svo komið tíð skot á flugskeytum í Japanshaf. Yfirvöld í bæði Kína og Japan hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa, og hvatt Norður-Kóreu til að hætta tafarlaust æfingum og tilraunum með langdregin flugskeyti.
Norður-Kórea hefur því mun minna skjól í alþjóðasamfélaginu nú en nokkurn tímann fyrr, en í gegnum tíðina hefur Kína oft verið svo til eina skjólið sem landið hefur haft þegar kemur að alþjóðasamningum.
En hvað er Kim Jong-un að hugsa og hvað gerir hann næst? Af hverju er hann að ögra Suður-Kóreu, Japan, Kína, Bandaríkjamönnum og raunar öllu alþjóðsamfélaginu með kjarnorkusprengjum? Telur hann sig geta komist upp með þetta?
Þegar kemur að þessum spurningum er fremur lítið um áreiðanleg svör. Það sem helst vekur óhug er að Kim Jong-un virðist vera algjört ólíkindatól, sem ómögulegt er að semja við eða reiða sig á. Hann segist sjálfur vonanst til þess að „hinn miklu leiðtogi“ Donald J. Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna. Hann sé rétti maðurinn til að stýra Bandaríkjunum.
Rússar og Bandaríkjamenn standa saman
Önnur vísbending um hversu alvarlega þjóðir heimsins líta á stöðu mála í Norður-Kóreu er sameiginleg yfirlýsing Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, frá því 9 . september. Í henni lýsa þeir yfir áhyggjum sínum vegna tilrauna Norður-Kóreu með kjarnorkuvopn og segja þær ólíðandi. Þær ógni öryggi í heiminum, og séu ögrun við umheiminn. Blaðamannafundur þeirra var haldinn í Genf, þar sem ástand mála í Sýrlandi var rætt á sérstökum fundi.
Sameinuðu þjóðirnar máttlausar
Tilraunir Norður-Kóreu með kjarnaorkusprengjur fara gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna og er búist við að þær verði ræddar ítarlega á næstu vikum og mánuðum, bæði á vettvangi öryggisráðsins og einnig helstu stofnana þar sem staða landsins og ógnunin sem frá því stafar þessi misserin, hefur snertifleti. Það er svo til að bæta gráu ofan á svart, að flóð hafa valdið gríðarlegu tjóni í Norður-Kóreu á undanförnum dögum og hafa Sameinuðu þjóðirnar sagt að alþjóðleg hjálp þurfi að vera til reiðu til að afstýra hörmungum. Samtals hafa 133 látið lífið nú þegar, og tugþúsundir hafa þurft að flýja heimili sín.