Verðbólgudraugurinn hefur í gegnum tíðina verið okkur Íslendingum erfiður. Oftast nær hefur verðbólga verið fyrir ofan 2,5 prósent verðbólgumarkmiðið, sé horft yfir síðustu tvo áratugi. En á undanförnum árum hefur tekist að hemja verðbólguna með fjármagnshöftum, og hefur hún haldist fyrir neðan markmiðið í meira en tvö ár. Hún mælist nú 0,9 prósent, og er það eina sem heldur lífi í henni mikil og hröð hækkun húsnæðisverðs, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Ef ekki væri fyrir hækkun húsnæðisverðsins þá væri verðhjöðnun, það er neikvæð verðbólga.
En sé litið til reynslunnar, þá ætti fólk ekki að ganga að því vísu að verðbólgan haldist nálægt núlli í langan tíma. Verðbólgudraugurinn gæti farið á stjá á nýjan leik.
Seðlabanki Íslands skilaði 9. september greinargerð tilríkisstjórnarinnar vegna þess að verðbólga hefur haldist fyrir neðan lægri mörk.
Fimm atriði eru hér sérstaklega tiltekin til umfjöllunar sem hafa áhrif á það hvort verðbólga muni haldast lág eða jafnvel hækka.
5. Olíuverð í heiminum hefur haldist lágt um nokkurt skeið, eða í kringum 40 Bandaríkjadali á tunnuna af hráolíu. Sem dæmi má nefna það, að Norðmenn horfa til þess að tunnan þurfi að vera á milli 60 til 70 Bandaríkjadali á tunnuna til að framlegð sé ásættanleg og jákvæð. Eins og mál standa nú eru margir olíuframleiðendur í vanda. Á mörkuðum í gær lækkaði verð á olíu um tæplega þrjú prósent, og var það um 44 Bandaríkjadalir, sé miðað við stöðu mála á Bandaríkjamarkaði. Ástæðan er meðal annars slæmar hagtölur. Þetta má túlka sem góðar fréttir fyrir Ísland, þar sem olíuverð hefur áhrif á marga þætti í hagkerfinu, ekki síst á innfluttar vörur. Þegar það helst jafn lágt og raun ber vitni, þá helst innflutt verðbólga minni fyrir vikið.
4. Annað sem hefur unnið með stöðu mála á Íslandi, er að gengi krónunnar hefur styrkst verulega á undanförnum tólf mánuðum. Evran kostar nú 129 krónur en var á ríflega 150 krónur fyrir ári. Svipaða sögu er að segja af Bandaríkjadal, sem kostar nú 115 krónur en hann kostaði 136 krónur fyrir ári síðan. Pundið hefur síðan fallið um 25 prósent gagnvart krónunni. Það kostar nú 153 krónur, en kostaði 206 krónur fyrir rúmlega ári. Þessi gengisþróun hefur virkað vel fyrir Íslendinga, og haldið verðbólgunni niðri. Vörur sem eru keyptar inn til landsins falla því í verði, í krónum talið, og það hefur áhrif á vísitölu neysluverðs.
3. Í greinargerð Seðlabanka Íslands er sérstaklega vikið að því, að laun hafi hækkað mun meira á Íslandi en í „nokkrum öðrum þróuðum ríkjum“. Er þar vísað til nýjustu kjarasamninga, en í þeim flestum var samið um 20 til 30 prósent launahækkanir horft til næstu þriggja ára. Seðlabankinn hefur bent á það að launahækkanirnar séu langt umfram framleiðni í hagkerfinu. Til lengdar litið geti það ekki gegnið, og á endanum muni það skila sér í aukinni verðbólgu. Að mati seðlabankans hafa verðbólguhorfur þó batnað, en búist er við að verðbólgan haldist undir 2,5 prósent markmiði fram á næsta ár. Þrátt fyrir 0,9 prósent verðbólgu nú, eru meginvextir bankans 5,25 prósent og voru lækkaðir úr 5,75 prósent í ágúst.
2. Gengi krónunnar er áhættuþáttur í hagkerfinu, nú sem fyrr. Eitt af því sem hefur aukið gjaldeyrisstreymi mikið til landsins er uppgangur í ferðaþjónustu. Þetta hefur leitt til þess að krónan hefur styrkst. Það er ekki gott fyrir ferðaþjónustuna, það er ef gengi krónunnar styrkist of mikið. Nú þegar hafa komið fram áhyggjuraddir í þessum efnum. Hvað þolir ferðaþjónustan mikla styrkingu áður en ferðamenn fara að líta á Ísland sem of dýran áfangastað? Það er erfitt að svara þessar spurningu með vissu, þar sem saga uppgangs ferðaþjónustunnar er stutt og ekki mikil reynsla sem hægt er að byggja á eða draga ályktanir af. En sannarlega er þetta áhættuþáttur, sem að lokum gættileitt til mikillar verðbólgu og vandræða fyrir almenning.
1. Þó við Íslendingar séu nú að ganga í gegnum mikla uppgangstíma, eftir endurreisn efnahagsins, þá getur staðan breyst til hins verra. Megináhættan er sú, hvernig horfur muni þróast á alþjóðamörkuðum á næstunni og hvaða áhrif það mun hafa á Íslandi. Staða mála á alþjóðamörkuðum hefur unnið með okkur Íslendingum að undanförnu, en breytist þær hratt, eins og dæmin sanna að geti gerst, þá getur slæm stað verið í kortunum Íslandi. Þar sem undirliggjandi ekki svo góð staða. Viðvarandi neikvæður vöruskiptajöfnuður, það er að meira er flutt inn en út, og launahækkanirnar gætu bitið hressilega í rekstri fyrirtækja ef hina hagfellda staða erlendis hættir að hjálpa til.