Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að nýta heimild til að kaupa eigin hlutafé, en heimildin var veitt á aðalfundi bankans 14. apríl síðastliðinn. Kaupin nema að hámarki 480 milljónum hluta, eða sem nemur um tvö prósent af útgefnu hlutafé. Ríkið á um 98,2 prósent hlutafjár í bankanum.
Sé mið tekið af því að virði bankans sé sem nemur bókfærðu virði eigin fjár, þá nemur tvö prósent um 5,2 milljörðum króna.
Lækka hlutafé og gefa möguleika á sölu
Tilgangurinn með kaupunum er að lækka eigið fé bankans og einnig að gefa hluthöfum bankans möguleika á því að selja hluti sína í bankanum. Eiginfjárstaða Landsbankans er sterk, eða 28,6 prósent. Hún hefur styrkst mikið á undanförnum árum, og er eigið fé bankans nú um 260 milljarðar króna.
Það er örlítið meira en hjá næst stærsta fyrirtækinu í eigu ríkisins, Landsvirkjun, sé horft á stærðina út frá eigin fé. Þar er eigið fé rúmlega 250 milljarðar króna. Arðgreiðslur bankans til hluthafa, að langmestu leyti til ríkisins, nema alls 82 milljörðum á árunum 2013 til 2016.
Hömlur á framsali hlutanna í bankanum féllu niður 1. september, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum.
Landsbankinn býðst til að kaupa hluti af hluthöfum á eftirfarandi þremur endurkaupatímabilum að því er segir í tilkynningu frá bankanum.
· 19. september 2016 – 30. september 2016
· 31. október 2016 – 9. desember 2016
· 13. febrúar 2017 – 24. febrúar 2017
Jafnframt er tekið fram hvert gengið er í viðskiptunum, eða 10,4 miðað við að útistandandi hlutafé sé 23.781.690.382 krónur, nákvæmlega tilgreint. Þetta þýðir að tvö prósent hlutur er um fimm milljarðar króna virði. „Þeir hluthafar sem ákveða að nýta sér framangreint boð eiga að senda Landsbankanum tilkynningu um það. og er eyðublað fyrir tilkynninguna aðgengilegt á vef bankans. Tilkynningar verða afgreiddar á hverju tímabili í þeirri röð sem þær berast bankanum þar til framangreindu hámarki (480 milljónir hluta) verður náð. Verði hámarkinu náð á einhverju endurkaupatímabilanna verða frekari tilkynningar því ekki afgreiddar, hvort sem það verður á fyrsta, öðru eða þriðja tímabilinu,“ segir í tilkynningu Landsbankans.
Verðið getur breyst
Verðið í viðskiptum með hlutina getur þó breyst. Í samræmi við ákvörðun aðalfundar bankans, þá býðst Landsbankinn til að kaupa hvern hlut á framangreindum endurkaupatímabilum á gengi sem samsvarar hlutfallinu á milli eigin fjár, sem tilheyrir hluthöfum bankans, og síðan heildarhlutafjár bankans, samkvæmt síðasta birta uppgjöri áður en viðkomandi endurkaupatímabil hefst.
Núverandi starfsmenn Landsbankans, og hópur fyrrverandi starfsmanna einnig, nokkuð mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að hlutunum í bankanum.
Við stofnun Landsbankans 7. október 2008, þegar gamli bankinn féll eins og spilaborg, lagði íslenska ríkið nýja bankanum til 775 milljónir króna í eigið fé og síðar 121,2 milljarða króna til viðbótar í formi skuldabréfs með gjalddaga árið 2018, eða samtals 122 milljarða króna.
Þar með eignaðist íslenska ríkið 81,33% hlutafjár í bankanum en LBI hf. (slitabú gamla Landsbanka Íslands) átti 18,67% hlut. Í apríl 2013 gaf Landsbankinn út skilyrt skuldabréf til LBI að fjárhæð 92 milljarðar króna og við það framseldi LBI hluti sína í bankanum til íslenska ríkisins.
Þar með fór eignarhlutur ríkisins í um 98%. Á sama tíma eignuðust þáverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans hluti í bankanum, sem áður voru í eigu LBI, í samræmi við samning íslenska ríkisins, bankans og LBI frá 15. desember 2009, eins nefnd er í tilkynningu bankans. Á þeim hlutum voru kvaðir um að ekki mætti framselja hlutina fyrr en 1. september 2016 en gert hafði verið ráð fyrir að búið yrði að skrá hlutabréf í bankanum á skipulegan verðbréfamarkað fyrir þann tíma. Svo er hins vegar ekki.
Árið 2015 runnu Sparisjóður Norðurlands og Sparisjóður Vestmannaeyja saman við Landsbankann og fengu þá rúmlega 400 stofnfjáreigendur endurgjald sem greitt var með hlutum í Landsbankanum. Á þeim hlutum voru samsvarandi hömlur á framsali, að því er segir í tilkynningunni.
Ríkið, starfsmenn og stofnfjárhafar
Alls eru hluthafar Landsbankans 1.833 talsins, þegar allt er talið. Íslenska ríkið er stærsti hluthafi bankans og á 98,2% hlut, eins og áður sagði. Bankinn á sjálfur 0,91% hlut. Þá eiga um 870 núverandi starfsmenn bankans, um 530 fyrrverandi starfsmenn og um 430 fyrrum stofnfjárhafar í tveimur sparisjóðum samtals 0,89%. Bankaráðsmenn Landsbankans eiga ekki hluti í bankanum. Hlutur starfsmanna, núverandi og fyrrverandi, og 430 fyrrum stofnfjárhaga í sparisjóðunum er því um 2,2 milljarða króna virði.
Fyrirhuguðum áformum um sölu á allt að þrjátíu prósent hlut í Landsbankans hefur verið frestað, og bíður það nýrrar ríkisstjórnar, að taka ákvörðun um hvort hlutur í bankanum verður seldur eða hvort hann verður áfram í eigu ríkisins að nær öllu leyti.
Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, fagnar ákvörðun bankaráðs og segir hana samræmast stefnu Bankasýslunnar.
Æðstu stjórnendur Landsbankans eiga stærri eignarhlut í bankanum en aðrir starfsmenn, eða allt að þrefalt meira en megnið af þeim starfsmönnum sem eiga hlut í bankanum. Þetta sýna gögn um hluthafa Landsbankans miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs 2014. Þeir starfsmenn bankans sem eiga flesta hluti, af þeim sem komu til skiptanna fyrir starfsmenn miðað við samþykkt hluthafafundar bankans frá 17. júlí 2013, eru Hreiðar Bjarnason, Helgi Teitur Helgason og Árni Þór Þorbjörnsson, en þeir áttu allir 528.732 hluti í lok árs 2014, eins og fram kom í umfjöllun Kjarnans í október í fyrra.