Það munu fleiri ferðamenn koma til Íslands á níu ára tímabili - frá byrjun árs 2008 og til loka þess sem nú stendur yfir - en gerðu það frá byrjun árs 1949 og út árið 2007. Auk þess er búist við því að jafnmargir ferðamenn komi til Íslands á næstu þremur árum - frá næstu áramótum og til loka 2019 - og gerðu það á síðustu níu árum. Í ár munu ferðamenn verða um 1,7 milljónir talsins, á því næsta um 2,2 milljónir, um 2,5 milljónir árið 2018 og 2,75 milljónir árið 2019. Þetta kemur fram í árlegri ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar Arion banka sem birt var í dag.
Því má búast við að ferðamennirnir sem heimsæki landið okkar verði rúmlega einni milljón fleiri árið 2019 en þeir voru í ár. Fyrir þá sem efast um þessa spá má benda á að fyrri spár Greiningardeildar Arion banka um fjölgun ferðamanna hafa nær alltaf verið vanáætlaðar. Haustið 2014 spáði hún til að mynda að ferðamenn hérlendis yrðu 1,2 milljónir í ár. Þeir verða, að öllum líkindum, hálfri milljón fleiri.
En sem komið er hefur Íslandi gengið ágætlega að takast á við þessa miklu fjölgun. Þar skiptir eðlilega máli að aukin ferðaþjónusta hefur leyst flest efnahagsleg vandamál sem þjóðin glímdi við eftir hrunið. Atvinnuleysi er horfið, hagvöxtur er mikill, fjárfesting hefur stóraukist og er komin nær hlutfallslegu meðaltali síðustu áratuga og óskuldsettur gjaldeyrisforði þjóðarinnar hefur stóraukist. Í ár er búist við því að ferðaþjónusta skili svipuðu í útflutningstekjur og ál og sjávarafurðir samanlagt. Hún mun líkast til verða um tíu prósent af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar var hún 4,5 prósent af henni árið 2010.
Þótt ferðamennirnir, og flestir Íslendingar, séu enn sem komið er ánægðir með þessa þróun þá er ljóst að margar áskoranir eru fram undan til að skera úr hvort Ísland verði „Draumaland“ eða „Djöflaeyja“ ferðamanna, eins og Greiningardeild Arion banka stillir málum upp. Mjög brýnt er að ráðast í víðtækar fjárfestingar í innviðum og nauðsynlegt að ná samstöðu um gjaldtöku. Sem allra fyrst.
Fjölmargir áhættuþættir
Það er ekki sjálfsagt eða náttúrulegt að ferðamönnum haldi bara áfram að fjölga. Nokkrir skýrir áhættuþættir eru til staðar sem geta haft skyndileg áhrif á fjölda þeirra. Sá augljósasti er samdráttur í flugframboði. Í skýrslu Arion banka er bent á að árið 2005 hafi tvö flugfélög flogið reglulega til og frá Íslandi, Icelandair og hið sáluga Iceland Express. Fimm árum síðar voru þau tvo enn allsráðandi á markaðnum og SAS hafði bæst í hópinn. Í ár fljúga hins vegar fjórtán flugfélög reglulega til og frá Íslandi. Sú gríðarlega aukning á framboði er megin ástæða þess að ferðamönnum hefur fjölgað hérlendis jafn mikið og raun ber vitni.
Í skýrslunni er bent á að náttúruhamfarir - sem Íslendingar þekkja vel - geti haft skyndileg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og er bent á borgina Christcurch á Nýja-Sjálandi, sem er með svipaðan íbúafjölda og Ísland, sem dæmi. Hún var mjög stór ferðamannaborð en nokkrir stórir jarðskjálftar riðu yfir hana á árunum 2010 til 2012. Síðan þá hefur ferðamönnum til borgarinnar fækkað mikið.
Þar er þó einnig tekið saman að flest lönd sem hafa upplifað mikinn og skyndilegan samdrátt í tekjum af ferðamönnum eru lönd sem eru stríðshrjáð, glíma við versnandi öryggisástand og óstöðugleika. Í því samhengi má nefna lönd eins og Sýrland, Úkraínu, Túnis, Egyptaland og Venesúela sem dæmi. Ísland glímir auðvitað ekki við neinn slíkan vanda.
Þá er bent á að það sé þolmörk á ágangi á náttúru, að heimamenn hafi sín þolmörk gagnvart fjölda ferðamanna og auðvitað þolmörk innviða.
Ferðamannastraumurinn skapar nefnilega verulega aukið álag á vegakerfið og á ýmsa þjónustu á borð við löggæslu og heilbrigðiskerfið. Þótt fjárfesting hérlendis hafi náð langtímameðaltali sínu aftur eftir að hafa verið undir því frá árinu 2008 þá er það fyrst og síðast vegna atvinnuvegafjárfestinga. Fjárfesting hins opinbera og fjárfesting í íbúðarhúsnæði er enn langt frá sínu langtímameðaltali. Sem dæmi má nefna að árið 2015 var fjárfesting í vegum og brúm helmingi minni en hún var árið 1995.
Greiningardeild Arion banka áætlar að uppsöfnuð þörf á fjárfestingum í vegakerfinu, miðað við fjölgun bifreiða sem nota það, sé yfir 23 milljarðar króna á tímabilinu 2011-2015.
Greiningadeildin bendir einnig á að samhliða aukningu ferðamanna sem koma til Íslands sé að eiga sér samdráttur í innanlandsflugi. Hún veltir upp þeirri spurningu hvort ekki ætti að efla innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli til að dreifa ferðamönnum betur um landið.
Styrking krónu ekki orðin vandamál
Þeir þættir sem geta einnig haft áhrif á fjölda þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands eru til að mynda breyttar efnahagsaðstæður í heimalöndum þeirra. Þannig er til að mynda Brexit - útganga Breta úr Evrópusambandinu - áhyggjuefni ef sú aðgerð leiðir til samdráttar í Bretlandi líkt og spáð er. Ástæða er sú að 19 prósent ferðamanna sem koma til Íslands koma frá Bretlandi og hlutur landsins í íslenskum þjónustuútflutningi í fyrra var ellefu prósent.
Aukið innflæði gjaldeyris vegna ferðamanna hefur styrkt íslensku krónuna verulega að undanförnum og hafa margir lýst áhyggjum af því að hún sé að verða of sterk. Aðstæður útflutningsfyrirtækja muni versna of mikið vegna þessa auk þess sem Ísland verði einfaldlega of dýrt fyrir ferðamenn.
Greiningardeildin segir hins vegar að engin merki séu sjáanleg, að minnsta kost enn sem komið er, um að sterk króna hafi áhrif á komur og útgjöld ferðamanna. Aðrir þættir virðast hafa mun meiri áhrif á fjölda þeirra en gjaldmiðilinn, líkt og greint var frá hér að ofan.
42 prósent gistinótta óskráðar
Það er oft haft á orði í almennri umræðu að hér sé hættuleg áhersla lögð á allt of hraða uppbyggingu hótela. Varla megi sjást grasbali í námunda við miðborgina þá sé byrjað að reisa þar nýtt hótel.
Samkvæmt skýrslu Arion banka fer því þó fjarri að um offjárfestingu sé að ræða. Þvert á móti séu lítil merki um útlánabólu í ferðaþjónustu og vöxtur skulda í geiranum er lítill miðað við vöxt umsvifa hans. Eigið fé og rekstrarhagnaður ferðaþjónustu hefur enda vaxið mjög hratt á síðustu árum og því nýtist það til fjárfestinga. Enn er þó mikil þörf á að fjölga hótelherbergjum og áætlanir eru uppi um að byggja um 2.500 ný slík á allra næstu árum. Þau duga varla til að mæta ætlaðri fjölgun ferðamanna.
Í skýrslunni er bent á að langflest hótelherbergi - og besta nýting þeirra - sé á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur einnig fram að meðalverð á gistingu í Reykjavík hefur hækkað um tæp 40 prósent á þremur árum. Þrátt fyrir það er meðalverð á gistingu enn í meðallagi miðað við evrópskar stórborgir.
Athygli vekur að 42 prósent gistinótta voru óskráðar á árinu 2015. Þar er fyrst og síðast um að ræða gistingu í deilihagkerfinu og þá sérstaklega í gegnum Airbnb. Fjöldi þeirra gistirýma sem eru í boði í gegnum þá þjónustu hefur líka vaxið mjög hratt á undanförnum árum. Í júlí 2016 voru 3.079 slík skráð, sem er 726 fleiri en voru skráð ellefu mánuðum áður.