Efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að heimild lífeyrissjóða til að eiga í félögum, fyrirtækjum, hlutdeildarskírteinum eða sjóðum verði hækkuð úr 15 í 20 prósent. Nefndin leggur til þessa hækkun þótt hún telji réttmætt að vinna gegn óhóflegri samþjöppun áhrifavalds í íslensku viðskiptalífi, en lífeyrissjóðir eru langumsvifamestu fjárfestarnir innan þess. Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar og í breytingartillögu frumvarps um breytingu á lögum um starfsemi lífeyrissjóða.
Lífeyrissjóðir landsins eiga með beinum hætti yfir 40 prósent af heildarhlutafé á íslenskum hlutabréfamarkaði. Sé eignaraðild þeirra í ýmsum sjóðum sem fjárfesta í skráðum hlutabréfum talin með fer það hlutfall yfir 50 prósent. Þeir eiga auk þess, beint og óbeint, mikið af eignum í óskráðum hlutabréfum.
Verða farnir að kaupa „sjónvörp og þvottavélar“
Hrein eign lífeyrissjóða landsins nam 3.319 milljörðum króna í lok júlí síðastliðins. Það jafnast á við eina og hálfa landsframleiðslu. Sjóðirnir hafa að mestu verið bundnir við að kaupa eignir innan fjármagnshafta frá bankahruni, þótt að þeir hafi fengið undanþágur til að fjárfesta erlendis. Frá miðju ári í fyrra og fram til loka júnímánaðar 2016 fengu þeir heimild til að fjárfesta samtals fyrir 40 milljarða króna erlendis, í þremur skrefum. Frá 1. júlí síðastliðnum og út september fengu þeir undanþágu frá Seðlabankanum til að versla fyrir 40 milljarða króna til viðbótar. 80 milljarðar á rúmu einu ári er þó ekki stór fjárhæð í ljósi heildareigna sjóðanna og ljóst að stjórnendur þeirra horfa mjög til frekari tilslakana samhliða skrefum í átt að losun hafta, en frumvarp þess efnis er nú til meðferðar hjá Alþingi.
Á umræðufundi um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverki lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni sem haldinn var í lok maí sú staða sem lífeyrissjóðirnir eru í vegna haftanna mikið rædd. Þar sagði Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri sjóðstýringarfyrirtækisins Stefnis sem er í eigu Arion banka, það mjög einfalt að lífeyrissjóðir landsins þyrftu að komast út úr höftum vegna stærðar sinnar. Ef það myndi ekki gerast bráðum þá verði þeir farnir að kaupa „sjónvörp og þvottavélar“ eftir nokkur misseri. Allir aðrir fjárfestingakostir verði uppurnir.
Takmörkun sætti gagnrýni
Við þessari stöðu er verið að bregðast með því að rýmka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. Þar skiptir mestu að þeir munu fá, verði breytingartillaga efnahags- og viðskiptanefndar að lögum, fá að eiga 20 prósent í fyrirtækjum í stað þess að hámarkseignarhluti sé 15 prósent líkt og áður var. Í áliti nefndarinnar segir að gildandi takmörkun hafi sætt töluverðri gagnrýni. „Bent var á að svo lágt hlutfall torveldaði fjármögnun lífeyrissjóða á verkefnum, einkum í ljósi viðvarandi fækkunar lífeyrissjóða. Þannig þyrftu að minnsta kosti sjö lífeyrissjóðir að fjármagna verkefni ef ekki kæmi til önnur fjármögnun.
Þótt takmörkunin sé felld undir ákvæði frumvarpsins um mótaðilaáhættu snýr hún í reynd fremur að því að vinna gegn samþjöppun valds í íslensku efnahagslífi með því að koma í veg fyrir að ráðandi hlutir í félögum safnist á of fáar hendur. Lífeyrissjóðir eru umsvifamestu fjárfestar í íslensku viðskiptalífi. Ef stakir lífeyrissjóðir héldu utan um ráðandi hluti í mörgum félögum er hætt við því að það kæmi niður á eðlilegri samkeppni milli atvinnufyrirtækja. Þótt nefndin telji réttmætt að vinna gegn óhóflegri samþjöppun áhrifavalds í íslensku viðskiptalífi telur nefndin það ekki girða fyrir að hlutfallið verði hærra en 15 prósent, enda fjarri því að vera ráðandi hlutur.“
Mega kaupa fasteignir
Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í ýmsum öðrum fjármálagjörningum og eignum verða líka víkkaðar samkvæmt breytingartillögunni. Svigrúm sjóðanna til að fjárfesta í sértryggðum skuldabréfum aukið og til að lána út verðbréf.
Í upphaflega frumvarpinu var heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði fellt á brott og þess í stað lagt til að þeir gætu fjárfest í félögum um rekstur fasteigna. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar segir að fjárfestingar í fasteignum hafi ýmsa kosti fyrir lífeyrissjóði. „Fjölgun fjárfestingarkosta auðveldar áhættudreifingu. Fasteignir gefa gjarnan af sér fyrirsjáanlegan tekjustraum til langs tíma sem hentar vel fyrir lífeyrissjóði sem þurfa að mæta langtímaskuldbindingum um greiðslu lífeyris. Þá geta fjárfestingar lífeyrissjóða í fasteignum þjónað því samfélagslega hlutverki að ýta undir uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis og innviða. Nefndin telur því æskilegt að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta í fasteignum og telur ónauðsynlegt að áskilja aðkomu milligönguaðila.“