Við fjölskyldan fluttum nýverið á vesturströnd Bandaríkjanna. Við erum búsett í Kirkland, í útjaðri Seattle í Washington ríki. Það sveitarfélag er oft efst á lista yfir einstök sveitarfélög í Bandaríkjunum, þegar kemur að því hvar best sé að búa (Fínt að vita af þessum listum, þó erfitt sé að toppa Laugarnesið. Það bíður eftir okkur síðar). Því tilheyra nú ríflega 87 þúsund íbúar, eftir sameiningu við nágranna í fyrra. Áður en til hennar kom voru íbúar 49 þúsund, sem telst nú afar lítill fjölbýlisstaður á alþjóðlega mælikvarða.
Staley öskraði Grunge-bylgjuna
Frægasti maðurinn sem komið hefur frá Kirkland er Layne Staley heitinn, söngvari Alice in Chains. Ég hef öskrað með honum, eins og eflaust margir aðrir (Them Bones, I Stay Away...). Ekki síst Ágúst Örn vinur minn, sem greip Alice in Chains heljargreipum þegar Staley keyrði Grunge-bylgjuna út frá Kirkland og yfir heiminn allan, með félögum sínum í Nirvana, Pearl Jam, Soundgarden og fleiri sveitum. Allar hljómsveitirnar eiga rætur hér á sama svæðinu. Því er fagnað um þessar mundir að 25 ár eru frá því Grunge-bylgjan braust fram með öskrum, rifnum gallabuxum og síðu hári. Og skall á mér eins og mörgum öðrum á yfir tíu ára tímabili milli 1990 og 2000.
Hljómsveitin Temple of The Dog, forveri Pearl Jam, þar sem Eddie Vedder og Chris Cornell syngja báðir, heldur afmælistónleika 20. og 21. nóvember, í Paramount Theatre í Seattle, 2.800 manna stað þar sem Grunge-ið fór að heyrast einna fyrst.
Við hjónin höfum túlkað þetta sem innflutningspartý okkur til heiðurs. Miðaverðið er reyndar þannig, að það má deila um hvort okkur sé boðið. Löngu uppselt, en eftirmarkaðurinn er að sýna miða á 489 Bandaríkjadali, um 65 þúsund krónur, ódýrast, en það fer hækkandi. (Minna en dýrustu takkaskórnir frá Nike. Eða eitthvað.) Við finnum okkur kannski einhverjar afsakanir fyrir því að fara í afmælisveisluna, hver veit.
Tækni og Asíuáhrif
Í fyrravetur vorum við í New York, eins og ég miðlaði til lesenda Kjarnans í gegnum pistla, á vef Kjarnans og einnig í morgunútvarpinu á RÚV.
New York er gjörólík Seattlesvæðinu, svo ekki sé meira sagt,
nema hugsanlega þegar kemur að fólki og mannauði. Hér eins og þar, er afar áhrifamikill
og magnaður mannlífssuðupottur. Hin landfræði- og menningarlega tenging austurstrandarinnar við Evrópu, sem allir íbúar þar finna fyrir óbeint og
beint, er ekki sýnileg hér.
Vesturströndin er undir meiri áhrifum frá Asíu.
Ekki aðeins vegna þess að sú strönd er nær Asíu (!) heldur hefur fólk frá Asíu,
ekki síst Indlandi og Kína, sett mikinn svip á Seattle-svæðið allt á
undanförnum áratugum. Það hefur verið einn af lykilþáttum þess að byggst hefur
upp eitt sterkasta og magnaðasta hagkerfi í veröldinni, hvorki meira né minna.
Eitt af því sem leigusalinn sagði okkur, þegar við vorum að ganga frá samningum um ný heimkenni, var að flestir nágrannar okkar væru starfsmenn Amazon og Microsoft, og margir þeirra frá Indlandi. Það segir fólki kannski einhverja sögu.
Heimahagar áhrifamanna
En af hverju að segja hagkerfið á Seattle-svæðinu eitt það sterkasta í veröldinni?
Sagan á bak við það er bæði löng og stutt, en þá má segja að hún tengist í seinni tíð ákvörðunum þriggja frumkvöðla. Bill Gates og Paul Allen, stofnendur Microsoft árið 1975, og Jeff Bezos, stofnanda Amazon. Þeir eru allir búsettir svæðinu, og tengjast því svo rótföstum böndum að þeir hafa ákveðið að stýra sínum fjárfestingum og fyrirtækjum frá svæðinu. Gates og Allen eru uppaldir á svæðinu og fluttu starfsemi Microsoft fljótlega í heimahagana eftir að það var stofnað í Nýju-Mexíkó, en Bezos valdi svæðið sem góðan stað til að stofna Amazon.
Það er ekkert annað að baki ákvörðuninni um að hafa höfuðstöðvar Microsoft og Amazon hér á svæðinu, en þessa ramma taug þeirra við svæðið. Rökrétt væri að hafa þau í Sílikondalnum, myndi einhver segja, en eflaust má deila um það. Sérstaklega í ljósi þess hvernig úr hlutunum hefur spilast. Án svæðisins hefði sagan vafalítið orðið önnur.
Eftir því sem tíminn hefur liðið hafa fyrirtækin sjálf svo beinlínis orðið föst við svæðið og haft mikil áhrif til mótunar vegna þess hve stór þau eru. Hjá Microsoft starfa 44 þúsund á Seattle svæðinu, flestir í risavöxnum höfuðstöðvum fyrirtækisins í Redmond, sem tilheyrir Seattle svæðinu (Metropolitan-Seattle area). Þar búa aðeins 3,7 milljónir manna, sem telst lítið fyrir jafn þróttmikið hagkerfi.
Amazon á landinu hans Allen
Amazon er með 30 þúsund starfsmenn í fullu starfi í sínum höfuðstöðvum í Seattle, og er fyrirtækið stærsti vinnuveitandinn inn í borginni sjálfri. Þúsundir vinna einnig í hlutastörfum. Landeigandinn á svæðinu þar sem hinar nýju risavöxnu höfuðstöðvar eru, er Paul nokkur Allen. Hann hefur óbeint tengt sig við ævintýralegan vöxt fyrirtækisins í gegnum uppbyggingu nýrra höfuðstöðva.
Stofnandi Amazon, hinn 52 ára gamli Jeff Bezos, valdi svæðið til að stofna fyritækið, af því að þar var að finna mikið af tæknimenntuðu fólki og þá var einnig rótgróin hefð fyrir kaffihúsum og bókabúðum. Þarna var sum sé skapandi umhverfi og gott fólk (sú blanda klikkar sjaldnast). Hér var Starbucks stofnað og er fyrirtækið enn með höfuðstöðvar sínar í Seattle og kaffihús á hverju horni.
Upphaflega var Amazon hugsað sem bókabúð á netinu, en flest þekkjum við framhaldið. Það sem fæst ekki á Amazon er líklega ekki til. Bezos keypti The Washington Post árið 2013, er eigandi Blue Origin geimskutlufyrirtækisins, og tengist fjölmörgum nýsköpunarfjárfestingum í gegnum Bezos Expeditions. Eignir hans eru nú metnar á 67,3 milljarða Bandaríkjadala og er hann í hópi áhrifamestu frumkvöðla heimsins, og jafnframt ríkusta manna heims.
Einungis í fyrra réð Amazon 3.500 nýja starfsmenn inn í höfuðstöðvarnar, mest í tækni- og stefnumótunarstörf. Sumir segja að Amazon eigi eftir að verða stærsta fyrirtæki veraldar, þar sem heimsyfirráð á sviði smásölu og netverslun verða ekki svo langt undan. Það kemur í ljós hvort þetta gengur eftir.
Allen og söfnin
Þó Allen hafi fljótt slitið samstarfinu við Bill Gates, eftir að Microsoft var stofnað, þá er hann vellauðugur og virkur fjárfestir, einkum á sviði tækni, rannsókna og fasteignastarfsemi. Heildareignir hans eru metnar á 18 milljarða Bandaríkjadala, samkvæmt Forbes, eða sem nemur um 2.200 milljörðum króna.
Íslendingar muna kannski eftir nafninu frá því snekkja hans, Octupus, birtis út fyrir Reykjavík. Hún er 126 metra löng, og þrettánda stærsta snekkja heims, og búin öllum helstu þægindum og meira til. Þar sem þykir sérstakt við hana, fyrir utan glæsilegt útlit, er fullkominn köfunarbúnaður til að stunda rannsóknir í hafinu og á hafsbotni.
Allen er þekktur á Seattle-svæðinu fyrir að vera gjafmildur, en hann hefur komið að mörgum góðgerðarverkefnum í gegnum tíðina. Einna þekktust eru styrkir hans til fjölmargra bókasafna á svæðinu. Þá gaf hann Seattle borg hið stórkostlega tónlistarsafn, The Experience, sem tekið var í notkun árið 2000. Nafnið er tengt einum þekktasta tónlistarmanni sem komið hefur frá Seattle, snillingnum Jimi Hendrix, sem lést 27 ára gamall árið 1970. Á stuttum ferli sínum markaði hann djúp og varanleg spor í tónlistarsöguna með einstökum gítarhæfileikum sínum.
Fullir vasar fjár
Áhrifin af þeirri ákvörðun, að byggja Microsoft upp hér, eru gríðarlega mikil og rætt um Microsoft-áhrifin (Microsoft Effect) í því samhengi. Umfangsmikil sérfræðiþjónusta á svæðinu, á ýmsum sviðum – lögfræði, endurskoðun, fjármálaþjónustu, stefnumótun, ferðaþjónustu (skíði, hjólreiðar, fluguveiði, klifur, göngur) og rannsókna af ýmsu tagi – má beintengja við þá staðreynd að fyrirtækið er hér.
Fjármagnið á svæðinu er mikið, og fjölmargir starfandi fjárfestar, litlir og stóri, sem hér búa. Fjárfestingabankaarmur Bank of America, Merril Lynch, er með um 25 milljarða Bandaríkjadala í stýringu á Seattle-svæðinu, í gegnum þrjár skrifstofur sínar. Það er upphæð sem nemur um það bil öllu íslenska lífeyrissjóðakerfinu, en fyrirtækið einblínir nær eingöngu á auðuga einstaklinga. Bara svo lítið dæmi sé nefnt, um mikið fjármagn sem flæðir um hagkerfi svæðisins og merki sjást um í rekstri fyrirtækja.
Fjárhagslegur styrkur Microsoft er með ólíkindum, en um mitt þetta ár átti félagið rúmlega 105 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri. Upphæð sem nemur um fimmtíufaldri árlegri landsframleiðslu á Íslandi, um tólf þúsund milljörðum. Aðeins Apple, með sína rúmlega 200 milljarða Bandaríkjadala sjóði, á meira þegar horft er á þennan mælikvarða á meðal bandrískra fyrirtækja.
Nýverið var tilkynnt um 26,2 milljarða kaup fyrirtækisins á Linked-in, sem bíða samþykkis eftirlitsaðila, og fyrir tveimur árum keypti það Minecraft frá sænskum stofnefndum á 2,5 milljarð Bandaríkja, eða rétt um 300 milljarða króna. Það þykja í dag einstaklega vel heppnuð kaup, þar sem Microsoft hefur umbreytt Minecraft hugmyndinni í tölvuleikjasamfélag með ótal vörulínum. Kaupin hafa fyrir löngu borgað sig og heldur Minecraft-veröldin áfram að stækka, ekki síst í X-box heimi fyrirtækisins.
Starfsemin byggir þó á gömlum merg víðtækrar þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Hún mallar áfram, og vext og dafnar frá ári til árs.
Gates hjónin og háleit markmið
Bill Gates er ekki lengur stjórnarformaður, eða sá sem heldur þráðunum í höndum sér hjá Microsoft. En hann er í hugum margra maðurinn á bak við risann Microsoft og byltingu heimilistölvunnar. Hann er ríkasti einstaklingur heims, með eignir upp á ríflega 90 milljarða Bandaríkjadala, samkvæmt lista Forbes. Hann hefur heitið því að gefa auð sinn í þróunar- og rannsóknarverkefni til að vinna gegn fátækt, sjúkdómum og félagslegum erfiðleikum, einkum í Afríku.
Kjarninn í þessari vinnu hans og eiginkonu hans, Melindu Gates, er í gegnum Bill and Melinda Gates Foundation. Höfuðstoðvar þeirra stofnunar og rannsóknarseturs eru í Seattle, nema hvað. Starfsemin þar vex hratt og hefur Bill Gates meðal annars ákveðið að auka stórkostlega við starfemi sem styður við nýsköpunarstarf á sviði orkumála. Um þetta tilkynnti hann á Parísarfundinum í desember í fyrra, þar sem samkomulag náðist um að draga úr mengun með það að leiðarljósi að vinna gegn hlýnun jarðar, sem ríki hafa verið að staðfesta endanlega á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, þessa dagana. Gates hefur einsett sér að búa til breiðfylkingu frumkvöðla og fjárfesta, sem einbeita sér að því að auka nýtingu vistvænna orkugjafa og draga um leið úr notkun á tækni sem reiðir sig á kol og olíu.
Gates er almennt álitinn með allra áhrifamestu mönnum samtímans.
Herinn, Boeing og háskólarnir
Hátæknin í Seattle-hagkerfinu á sér lengri sögu en internetið og tölvurnar ná til. Stærsti vinnuveitandinn á svæðinu er flugrisinn Boeing. Hjá honum vinna 78 þúsund starfsmenn, hvorki meira né minna. Í gegnum súrt og sætt, og þekktar sveiflur í flugiðnaði, hefur fyrirtækið byggt upp starfsemi sína á svæðinu. Til að setja fjöldann í samhengi við íslenskan veruleika, þá er heildarfjöldi fólks á vinnumarkaði á Íslandi um 190 þúsund. Fyrirtækið varð hundrað ára í júlí síðastliðnum, og allan tímann hefur hjartað í starfseminni verið í Washington ríki.
Einn stærsti viðskiptavinur Boeing í gegnum tíðina, Bandaríkjaher, er næst stærsti vinnuveitandinn á svæðinu. Um 56 þúsund eru að störfum í einni stærstu herstöð hersins í Bandaríkjunum, í um klukkutíma akstursfjarlægð frá Seattle. Þar er Lewis-McGhord herstöðin staðsett. Þjónusta við hana er bæði umfangsmikil, og mikilvæg fyrir Seattle-svæðið.
Herinn hefur meðal annars rekið þar stóra rannsóknarskrifstofu þar sem fjarskipta- og flugbúnaður hefur verið þróaður. Þá kemur sér vel að vera með risavaxið samfélag tæknimenntaðs fólks og stærsta flugtæknifyrirtæki heims í grennd.
Annað sem líklega hjálpar til, er öflugt háskólasamfélag. Þar sem University of Washington er stærstur með 25 þúsund starfsmenn og nemenedur. Hann hefur lengi verið í hópi bestu háskóla Bandaríkjanna, einkum á sviði raunvísinda og tæknimenntunar af ýmsu tagi. Verkfræðideildin er annáluð fyrir mikil gæði.
Íslandstengingin í hruninu
Í febrúar árið 2009, þegar alþjóðamarkaðir voru í fordæmalausri lágdeyðu, þá ákvað SAS að leggja niður flug sitt til Seattle-svæðisins og binda enda á 42 ára tengingu félagsins við svæðið. Þá stökk Icelandair til, mitt í fjárhagserfiðleikum og endurskipulagningu eftir hrunið á Íslandi, og hóf að fljúga til borgararinnar skömmu síðar. Í umfjöllun hins ágæta ferðavefs, turisti.is, segir að þetta hafi verið djörf ákvörðun sem hafi heppnast vel. Margar ferðir í viku eru nú farnar og hefur sætanýtingin verið góð frá byrjun.
Mín tilfinning er þó sú, að hér sé hægt að gera enn betur þegar kemur að markaðssetningu fyrir Ísland. Mikið af fólki með góðan kaupmátt býr á svæðinu og vöxturinn í kortunum hlýtur að virka heillandi fyrir til dæmis fyrirtæki í ferðaþjónustu og tæknigeiranum, en einnig í öðrum geirum.
Íslensk fyrirtæki hafa lengi verið með tengingu eða starfsemi hér, meðal annars
Marel og Hampiðjan, og einnig má nefna Greenqloud sem á dögunum fékk nýja fjármögnun upp á um 500 milljónir frá fjárfestinum Kelly Ireland.
Sjávarútvegurinn ætti að geta unnið sig vel inn í Seattle-hagkerfið,
og þaðan í ýmsar áttir, hefði maður haldið. Það er meira en þegar hefur gerst. Bandaríkjamenn eru víðast hvar órafjarri íslenskum
fyrirtækjum þegar kemur að þekkingu á sjávarútvegi og hliðargreinum hans, eins
ótrúlega og það hljómar. Í Seattle er stór og mikil höfn og umfang ýmissar
hafnarsækinnar starfsemi vex stöðugt. Kannski eru enn fleiri tækifæri í því að byggja hér
upp til framtíðar, fyrir íslenskan sjávarútveg? Manni sýnist ágætisbyrjunarpunktur vera sá, að kenna Bandaríkjamönnum að borða sjávarfang, annað en sushi. Þeir virðast ekki kunna það.
Ekkert kemur í staðinn fyrir einkaframtakið
Alveg sama hvað stjórnmálamenn reyna, þá geta þeir ekki búið til jafn tær innspýtingaráhrif og djarfir og klókir frumkvöðlar, þegar kemur að því að breyta hlutum og framþróa það sem fyrir er. Það er mín einlæga skoðun. Seattle-hagkerfið - með Geimnálina (Space Needle) sem helsta kennileiti - er ágætt dæmi hvaða kraftar geta verið leystir úr læðingi ef fjárfestar fylkja sér að baki snjöllu fólki, sem jafnframt er með samfélagshugsun og heilindi í farteskinu. Sem er tilbúið að vökva ræturnar í umhverfi sínu, öllum til hagsbóta, og stunda viðskipti eftir bestu mögulegu getu.
Hér verður vonandi gott að fá lífsreynslu, kynnast nýjum hlutum og tækifærum, og segja frá því sem á vegi manns verður eða kemur upp í hugann.
Næsti pistill héðan verður um þann geira sem vex hraðast á svæðinu þessi misserin. Ráðstefnur eru haldnar um hann og fjárfestar hafa mikinn áhuga. Það er hinn löglegi kannabisiðnaður í Washington ríki. Samtök hagsmunaaðila í kannabisiðnaðum (svipað og Samtök atvinnulífsins, bara miklu stærri) eru þar miðpunktur hagsmunagæslu í gróskumiklum iðnaði.