Norski olíusjóðurinn á eignir upp á 885 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um ríflega 101 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur 50 faldri árlegri landsframleiðslu á Íslandi. Til samanburðar þá búa rúmlega fimm milljónir í Noregi en 334 þúsund á Íslandi. Fjöldi Íslendinga í Noregi er nú talinn vera kominn yfir tíu þúsund en þeim hefur fjölgað umtalsvert í landinu frá því að fjármálakerfið hrundi í október 2008.
Olíusjóður Noregs hefur á undanförnum árum bólgnað út og er hann orðinn umsvifamesti fjárfestingasjóður sinnar tegundar í heiminum. Eignir hans í verðbréfum eru sérstaklega áhrifamiklar á skráðum hlutabréfamörkuðum erlendis, en ríflega 97 prósent af eignum sjóðsins eru utan norska hagkerfisins.
The Economist fjallaði ítarlega um stöðu sjóðsins á dögunum, og benti á að mikilvægi hans fyrir Noreg hefði aldrei verið meira og það muni aukast mikið á næstunni. Ástæðan er meðal annars sú að olíuverð hefur lækkað mikið og horfur á olíumörkuðum hafa verið frekar slæmar. Fyrir vikið er innstreymi í sjóðinn frá olíulindum Noregs líklegt til þess að verða minna en áður.
Í þessu árferði reynir því á yfirmenn sjóðsins, með þá Yngve Slyngstad sjóðsstjóra og félaga í broddi fylkingar.
Norski olíusjóðurinn á stóra eignarhluti í flestum stærstu hlutafélögum heimsins, ekki síst í tæknigeiranum. Samanlagt virði hans í skráðum verðbréfum nemur tveimur prósentum af öllum hlutabréfum í Evrópu, og einu prósenti á heimsvísu. Sjóðurinn á ríflega 1 prósent í Alphabet, Microsoft, Apple og Facebook (kannski brást Facebook við óánægjunni í Noregi með ritskoðun á samfélagsmiðlinu, vegnaþess að þetta kom óbeint frá stórum hluthafa, hver veit?), en verðbréfaeignirnar liggja í meira níu þúsund hlutafélögum í 78 löndum.
Í The Economist kemur fram að góður árangur sjóðsins eigi sér skýringar í skynsamlegri uppsetningu og algjöru sjálfstæði frá stjórnmálamönnum, þrátt fyrir að Seðlabanki Noregs og fjármálaráðuneytið hafi ákveðna aðkomu að honum. En með því að tryggja sjálfstæði við stjórn, og hafa algjört gagnsæi í fjárfestingum, þá sé í sjóðnum mikilvægt innra aðhald sem gerir honum kleift að taka alltaf vandaða ákvarðanir við fjárfestingar.
En þær eru vitaskuld aldrei áhættulausar, eins og reglulegar sveiflur á hlutabréfamörkuðum eru til vitnis um.