Miklar breytingar eru í kortunum á hinu pólitíska sviði þegar rúmlega mánuður er til kosninga. Eins og staða mála er nú, samkvæmt kosningaspá Kjarnans sem unnin er í samvinnu við dr. Baldur Héðinsson stærðfræðing, þá er enginn tveggja flokka ríkisstjórn með meirihluta möguleg og fyrirsjáanlegt er að erfitt verði að mynda ríkisstjórn margra flokka, nema að flokkarnarnir komi fram með breyttar áherslur, gerir málamiðlanir eða nái saman um fá stefnumál.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mesta fylgið samkvæmt kosningaspánni, 25,1 prósent og Píratar með næst mest, 24,1 prósent. Samanlagt fylgi nær ekki meirihluta, eða 49,2 prósent. Aðrir flokkar hafa töluvert minna. Vinstri græn eru með 13,3 prósent, Viðreisn með 11 prósent, Framsóknarflokkurinn með 10,1 prósent, Samfylkingin 8,4 prósent, Björt framtíð 3,2 prósent – og næði því ekki 5 prósent lágmarkinu – en aðrir flokkar mælast samtals með 4,8 prósent.
Guðni gaf tóninn
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í viðtali við Channel 4 á dögunum, að það gæti reynst Pírötum erfitt að gera málamiðlanir við stjórnarmyndun, og vísaði meðal annars til þess að flokkurinn væri í grunninn grasrótarsamtök þar sem eru margar skoðanir eru uppi hjá flokksfólki.
Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar lagði Guðni ítrekað áherslu á að það gæti reynt á forsetann þegar kemur að stjórnarmyndun að loknum kosningum, sem síðar var svo ákveðið að yrðu 29. október.
Erfiðarleikar við stjórnarmyndun eru margvíslegir, en einn hluti sem gæti verið snúinn, ef kosningarnar fara í takt við það sem kannanir sýna nú, er að ákveða hver fái umboðið til að mynda stjórn.
Það er ákvörðun sem Guðni þarf að taka. Það er ekki augljóst að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fái umboðið, fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn fái mesta fylgið. Má nefna fordæmi frá kosningunum 2013 í því samhengi, en þá lét Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, Sigmund Davíð Gunnlaugsson hafa umboð til stjórnarmyndunar, eftir glæstan kosningasigur. Framsókn, sem fékk 24,7 prósent í kosningunum, fékk samt ekki flest atkvæðin í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn var með mesta fylgið, tæplega 26 prósent.
Ástæðan var sú, að Ólafur Ragnar sagði fólkið hafa kallað eftir því að áherslumál Framsóknarflokksins, meðal annars að ná peningum frá kröfuhöfum hinna föllnu bankanna til að bæta stöðu heimilanna, væru leiðarstefið við myndun ríkisstjórnar. Í kjölfarið náðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur saman um myndun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem fór fyrir ríkisstjórninni sem forsætisráðherra.
Alls ekki er augljóst hver eigi að fá umboðið, eins og málin standa nú, en fátt virðist geta komið í veg fyrir það að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar falli. Ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að bæta við sig meira en 17 prósentustigum, sé mið tekið af stöðu mála núna. Þó margt geti gerst í pólitík á stuttum tíma, þá er það fjarlægt eins og mál standa nú.
Margir flokkar um fá áherslumál?
Píratar, Vinstri græn, Samfylkingin og Björt framtíð, sem nú mynda stjórnarandstöðu, ná ekki meirihlutafylgi eins og mál standa, en samanlagt er fylgið 49 prósent. Innan þeirrar stöðu er fylgi Bjartrar framtíðar undir 5 prósent lágmarkinu, eins og áður sagði, sem veikir stjórnarandstöðuna enn meira.
Viðreisn, sem mælist nú með ríflega 11 prósent fylgi, er að þessu leyti í lykilstöðu inn á miðjunni á hinum pólitíska kvarða. Hún kemur ný inn á sviðið, og virðist geta skapað sér sterka stöðu inn í stjórnarmyndunarviðræðunum.
En hvaða stefnumál eru það sem helst gætu reynst erfið? Um hvaða mál mun ný ríkisstjórn geta myndast?
Þar vandast málið.
Píratar hafa lagt höfuðáherslu á að þeirra framboð sé til þess fallið að „breyta kerfinu“ og styrkja þátttöku almennings við ákvörðunartöku, með beinu lýðræði. Þetta eru stóru áherslumál Pírata, eins og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður flokksins hefur ítrekað bent á. Ný stjórnarskrá er í þessu samhengi mikið hjartans mál Pírata.
Hugmyndin byggir á því að við allar viðamiklar breytingar og stórar ákvarðanir verði þjóðarviljinn virkjaður svo að þjóðin ráði ferðinni. Þetta á við um endurskoðun stjórnarskrárinnar, breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, og ákvörðun um framhald á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, svo dæmi séu tekin.
Þjóðarviljinn límið?
Sé mið tekið stefnuskrám Pírata, Sjálfæðisflokksins, Vinstri grænna,
Viðreisnar, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, þá gæti þetta atriði – frekari virkjun
þjóðarviljans við ákvarðanatöku – verið það mál sem ný ríkisstjórn verður
mynduð um, hvernig sem hún verður skipuð.
Eins konar lím milli flokkanna virðist mögulegt um þetta stóra atriði. Erfiðara er að meta önnur sértækari mál, svo sem á sviði skatta-, heilbrigðis-, mennta-, eða umhverfismála. Þegar margir ólíkir flokkar þurfa að ná saman, þá beinast spjótin frekar að fáum stórum málum, rammanum um starfið í ríkisstjórn.
Erfitt er að sjá fyrir sér hvaða flokkar það eru helst, sem muni ná saman. Stjórn þriggja flokka getur aðeins verið mynduð með bæði Pírötum og Sjálfstæðisflokknum, eins og mál standa nú. Viðreisn, Vinstri græn og Samfylkingin kæmu þar öll til greina, en Björt framtíð ekki, sökum þess að hún mælist undir lágmarksþröskuldinum. Ríkisstjórn fleiri flokka er svo möguleg með nokkrum afbrigðum, en annað hvort Sjálfstæðisflokkur eða Píratar eru þar í þeim öllum.
Guðni forseti er vafalítið á réttum slóðum í sinni greiningu á hinu pólitíska landslagi, þegar hann segir að það geti orðið snúið fyrir stjórnmálaflokkana að mynda nýja ríkisstjórn. Líklega mun hann sjálfur standa frammi fyrir erfiðri ákvörðun, þegar kemur að því að meta hver sé best til þess fallin að fá umboð til stjórnarmyndunar.