Donald J. Trump, frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum, og Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrata, tókust á í fyrsta sinn í kappræðum í nótt, og er óhætt að segja að andrúmsloftið í sjónvarpssal hafi verið spennuþrungið þegar þau gengu í salinn.
Þau heilsuðust, hún íklædd rauðu en hann í jakkafötum með skærblátt bindi. „Ég hvet ykkur til að fara á heimasíðu mína, og fylgjast þar með umræðu um staðreyndir og ekki staðreyndir, sem koma frá Donald Trump,“ sagði Hillary áður en langur tími leið í kappræðunum, sem stóðu í 90 mínútur.
Við skulum tala um efnahagsmálin
Fyrsta mál á dagskrá var efnahagsmálin, og spurt var; hvernig ætlið þið að halda á spilunum við hagstjórnina? Hvernig á að skapa störf?
Eins og við mátti búast, kom fram augljós meiningarmunur. Trump lagði áherslu á skattalækkanir og viðskipti Bandaríkjanna við aðrar þjóðir. „Við erum að tapa störfum, milljónum starfa. Ég ætla að lækka skatta stórkostlega og mun skapa 25 milljónir nýrra starfa,“ sagði Trump, og líkti stefnu sinni við tímann hjá Ronald Reagan, þegar skattalækkanir hefðu hjálpað fyrirtækjum við að efla starfsemi og fjölga störfum.
Hillary nálgaðist málin með öðrum hætti, svo ekki sé meira sagt. Hún sagðist að hluta geta tekið undir með Trump, um að það mætti lækka skatta, en það þyrfti að gera á réttum stöðum með það að markmiði að auka jöfnuð.
Lítil fyrirtæki þyrftu að fá meira vægi, og þau sem stærri væru, gætu borgað meira í ríkiskassann. „Það er kominn tími að þeir ríkustu borgi meira en þeir gera. Millistéttin verður að fá það sem hún á skilið,“ sagði Hillary. Hún gagnrýndi Trump fyrir ómálefnalega nálgun að milliríkjaviðskiptum, þar sem stjórnmálamenn réðu ekki alltaf ferðinni. Það væri ekki hægt að skipa fyrirtækjum að koma heim með störf sem væri skymsamlegt að hafa staðsett í öðrum löndum. „Við þurfum að byggja á góðum árangri Baracks Obama og ríkisstjórnar hans. Við getum ekki farið aftur til tímans sem leiddi okkur í fullkominn efnahagslegan storm, þar sem skattalækkanir á þá sem hafa mest milli handanna voru grunnurinn að miklum vandamálum. Við getum ekki farið aftur til þess tíma,“ sagði Hillary.
Trump nefndi sömu atriðin ítrekað, meðal annars að þjóðarskuldir Bandaríkjanna væru komnar upp úr öllu valdi, eða upp undir 20 þúsund milljarða Bandaríkjadala. „Við erum á hræðilegri leið. Það verður að stoppa þetta,“ sagði Trump.
Hillary nefndi, að það mætti ekki gleyma því hvað hefði gerst, þegar versta fjármálakreppa síðan í Kreppunni miklu, á fjórða áratug síðustu aldar, hefði gengið yfir, á árunum 2007 til 2009. Obama hefði tekið við hrikalegri stöðu, en það hefði tekist að snúa blaðinu við. Nú væri landið á réttri leið, og það þyrfti að byggja ofan á það sem þegar hefði náðst fram.
Í umræðunum nefndi Trump strax ríkin Michigan og Ohio sem dæmi, þegar kom að ríkjum sem hafa misst fjölmörg störf.
Hillary nefndi í lok umræðunnar um efnahagsmálin, að Trump væri með stefnu sem verndaði fyrst og síðast hans eigin hagsmuni. Það væri staða sem gengi ekki upp.
„Ég er mjög lítið skuldsettur“
Trump fékk erfiðar spurningar, sem hann lenti í vandræðum með að svara. Sérstaklega átti það við um skattamál hans og fjárhagsstöðu. Hann sagðist ætla að birta öll gögn um þau, en ekki strax. „Það er vegna þess að hann hefur ekki greitt skatta. Núll. Sem þýðir ekkert fyrir herinn. Ekkert fyrir sjúkrahús. Ekkert fyrir skóla,“ sagði Hillary og sagði Trump hafa verið heppinn í lífinu, og fengið fjórtán milljónir Bandaríkjadala frá föður sínum til að byrja sinn feril. Ekki væru allir svo heppnir. Auk þess sagði hún Trump ekki hafa sýnt neina snilli í viðskiptum, með sex gjaldþrotum og skuldir upp á 650 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 80 milljarða króna. „Ég er mjög lítið skuldsettur,“ svaraði Trump þá, og sagðist ekki ekki skulda þessar fjárhæðir sem Hillary hefði nefnt. Þær væru miklu minni, en eignirnar væru upp á meira en þrjá milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 400 milljörðum króna. „Ég rek gott fyrirtæki, sem er að skila miklum árangri,“ sagði Trump.
Kynþáttahyggja og glæpir
Í umræðunum um glæpi, byssur og málefni kynþátta, sagðist Hillary leggja sérstaka áherslu á það að réttarvörslukerfið yrði endurskipulagt, og þá með það að leiðarljósi að taka á því óréttlæti sem snéri að svörtum. „Alltof margir eru að fá alltof harða dóma, fyrir léttvæg brot. Þetta bitnar á þeim sem hafa veikt bakland og eru í erfiðleikum vegna þess. Því miður hafa svartir alltof oft orðið fyrir óréttlæti þegar að þessu kemur,“ sagði Hillary. Hún nefndi sérstaklega, að mikill árangur hefði náðst við að draga úr glæpum, þegar horft væri á Bandaríkin í heild. En árekstrar vegna kynþáttahyggju væru alltaf alvarlegir, og þá þyrfti að nálgast með góða áætlun. „Ég hef áætlun í þessum efnum. Annað en Trump,“ sagði Hillary. Hún sagði nauðsynlegt, að ræða um glæpi og byssumenninguna í Bandaríkjunum út frá þeirri alvarlegu stöðu sem væri í Bandaríkjunum. Ólíkt Trump, þá vildi hún auka eftirlitið og bakgrunnsskoðun byssueigenda, til að draga úr möguleikanum á því að hættulegt fólk eignaðist hættuleg vopn.
Trump greip boltann á lofti: „Við þurfum að taka byssurnar af gengjunum,“ sagði hann, og nefndi sérstaklega Chicago. Hann sagði fjögur þúsund manns hafa látið lífið í Chicago, frá því Obama hefði verið forsti. „Fjögur þúsund“ endurtók hann. Lög og regla væri aðalatriðið, sagði hann, og nefndi síðan að þúsundir lögreglumanna í Bandaríkjunum væru tilbúnir að styðja hann, og margir hefðu þegar lýst yfir stuðningi við hann. Það segði sína sögu.
Hillary lagði áherslu á að samfélag svartra í Bandaríkjunum væri stórkostlegt, og svartir héldu uppi mikilvægum fyrirtækjum og sinntu afar mikilvægum störfum. „Við skulum ekki að vera að mála þetta öðrum og verri litum,“ sagði hún. Trump sagðist finna fyrir miklum stuðningi svartra, og að heimsóknir hans á fjölmarga staði – á meðan Hillary hefði setið heima – væru farnar að skila árangri.
Öryggismál, hryðjuverk og ISIS
Síðasti hluti kappræðnanna snérist um öryggismál Bandaríkjanna. Hvernig ætlið þið að tryggja öryggi Bandaríkjanna?
Í fyrstu var byrjað á ógnum tölvuglæpa. Hillary sagðist líta svo á að tölvuárásir, bæði sjálfstæðra hópa og annarra ríkja, ekki síst Rússa, væru miklar ógnir. „Við þurfum að taka þessa hluti mjög alvarlega, og ég þekki það af reynslu að það skiptir máli að hafa uppi góðar varnir. Bandaríkin standa öðrum framar þegar kemur að þessum málum, og það vinnur með okkur[...] En við þurfum að vera varkár,“ sagði Hillary, og skaut því að Trump að hann ætti tryggan stuðningsmann í óvini Bandaríkjanna, Vladímir Pútín, Rússlandsforseta.
Trump sagði Hillary ekki hafa tekist að tryggja öryggi á þessum sviðum. Það væri öllum ljóst. „Við fundum upp internetið,“ sagði Trump, þegar hann sagði augljóst að Bandaríkin ættu að standa framar öðrum ríkjum. Hann sagði ekki nóg að „funda“ og segjast ætla að gera hlutina. Það þyrfti að grípa til aðgerða, og það myndi hann gera.
Fljótt beindist umræðan inn á brautir þar sem hryðjuverk og hið svonefnda íslamska ríki (ISIS) væri annars vegar. Hillary nefndi ítrekað, að í þessum efnum skipti máli að það væri forseti við stjórnvölinn sem hefði þekkingu á utanríkismálum. Hún hefði hana, og væri meðvituð um þær hættur sem steðjuðu að Bandaríkjunum. „Ég er með áætlun um hvernig megi sigra ISIS og ég hef lagt hana á borðið,“ sagði Hillary. Hún gagnrýndi Trump fyrir stefnuleysi, og einnig óábyrgar yfirlýsingar, ekki síst um ógnina sem stafaði af kjarnorkusprengjum. „Það er ekki hægt að tala um þessi mál af þeirri léttúð sem Trump hefur gert,“ sagði Hillary. Hún bað fólk um að hugsa það, hvort það væri gott að hafa mann í aðstöðu til að hefja kjarnorkustríð, sem tæki þessi mál ekki alvarlega, í opinberri umræðu.
Trump varðist þessu, og sagði þetta ekki rétt. Hann tæki ógnir af kjarnorkusprengjum alvarlega. Þær væru mestu ógnirnar. „Hættulegri en hlýnun jarðar,“ sagði hann.
Hann sagði Hillary hafa skapað ISIS með óábyrgri stefnu í Líbýu og málefnum miðausturlanda. Nú væri vandinn orðinn nánast óviðráðanlegur, en hann myndi samt eyða hættunni ef hann kæmist til valda. „Hillary hefur sýnt það, að henni er ekki treystandi,“ sagði Trump. Hann neitaði því einnig staðfastlega að hafa stutt innrásina í Írak 2003, eins og Hillary sagði hann hafa gert. Hann sagði hana hafa verið mikil mistök, sem hefði skapað mikinn vanda.
Í lok þessarar umræðu, sagði Trump það sérlega slæmt fyrir Bandaríkin, hversu lítið væri greitt fyrir víðtæka þjónustu Bandaríkjahers. Ríki eins og Þýskaland og Sádí-Arabía, sem nytu góðs af framlagi Bandaríkjahers, ættu að greiða fyrir þjónustuna. „Við getum ekki verið í einhverju alheimslögregluhlutverki, við höfum ekki efni á því,“ sagði Trump.
Hillary sagði reynslu hennar og orðspor, þegar kæmi að varnar- og utanríkismálum, nýtast vel og að hún hefði sýnt, að hún gæti tekist á við mestu ógnirnar. Hún hefði tekið þátt í því að eyða ógninni miklu, Osama Bin-laden, og til framtíðar væri óhjákvæmilegt að djúp þekking á gangverki hins alþjóðpólitíska sviðs myndi skipta sköpum.
Hvor stóð sig betur?
Samandregið, þá var Hillary málefnalegri og reyndi eftir fremsta megni að halda sig við stefnu sína, sem hún hefur útlistað í meiri nákvæmisatriðum en Trump. Í upphafi var hann þó beinskeyttur, án þess að fara yfir strikið, eins og hann hefur oft gert. Hann lét líka augljósa kynþáttahyggju vera í þetta skiptið, og var ekki nándar nærri jafn fullyrðingaglaður og oft.
Miðlarar á Wall Street virðast telja Clinton hafa staðið sig betur, ef marka má frétt Bloomberg, og fyrstu kannanir CNN, að kappræðunum loknum, bentu til þess að Clinton hefði haft betur.
Hillary getur þó þokkalega vel við unað, þó hún hafi greinilega verið ákveðin í að halda ró sinni, enda mikilvægar sex vikur eftir af kosninabaráttunni en gengið verður til kosninga 8. nóvember. Kannanir sýna flestar nauma forystu Hillary, 48 prósent gegn 46 prósentum Trump, en spávefurinn Fivethirtyeight.com telur nú 54,8 prósent líkur á sigri Hillary en 45,2 prósent líkur á sigri Trump.