Verð á olíu hækkaði mikið í gær á alþjóðamörkuðum, og er því spáð víða, að svo geti farið að olíuverð muni hækka nokkuð á næstunni. Í Bandaríkjunum nam hækkunin á tunnunni af hráolíu 5,6 prósentum sem telst mikið á einum degi. Kostaði tunnan rúmlega 47 Bandaríkjadali í lok dags í gær.
Framleiðslan skorin niður
Ástæðan fyrir því að olíuverð geti hækkað á næstu misserum, hefur ekki síst verið sögð stjórnast af því að olíuframleiðsluríkin í OPEC muni ná samkomulagi um að draga úr framleiðslu, meðal annars til að meira jafnvægi náist á markaðnum á heimsvísu. Mikið offramboð af olíu hefur leitt til lágs verðs.
Í gær bárust svo fréttir af því að óformlegu samkomulagi hefði verið náð um að draga úr framleiðslu. Talið er að verðið geti farið hækkandi á næstu misserum vegna þessa, en frekari samdráttur í framleiðslu gæti verið í kortunum, samkvæmt umfjöllun CNN. Þetta er fyrsta óformlega samkomulag OPEC ríkjanna, um að draga úr framleiðslu, síðan 2008. Ekki er þó talið öruggt að formlegt samkomulag náist, en næsti fundur OPEC er á dagskrá í nóvember. Áhrifin gætu orðið víðtæk, og þykir ákvörðunin enn fremur sýna að heimsbúskapurinn sé að glíma við töluverðan slaka þessi misserin.
Bensínvaktin
Á Íslandi gætu afleiðingarnar af því birst einkum í hækkandi bensínverði, en síðan óbeint í hærra verði á innfluttum vörum. Sem ýtir svo undir verðbólgu almennt, en hún hefur haldist lág að undanförnu og mælist nú 0,9 prósent. Lesendur eru hvattir til að fylgjast vel með þróuninni á bensínvakt Kjarnans, en henni er ætlað að auðvelda fólki að fylgjast með gangi mála á þessum mikilvæga neytendamarkaði.
Á undanförnum tveimur árum hefur verð á olíu lækkað hratt. Það hefur farið úr 110 Bandaríkjadölum á tunnuna í 40 til 50 Bandaríkjadali nú, en það hefur sveiflast á því bili á undanförnum mánuðum. Lægst fór verðið í 26 Bandaríkjadali í febrúar, en hefur síðan verið að færast hægt upp á við.
Þessi mikla lækkun á olíu hefur komið sér vel fyrir Ísland, þar sem dregið hefur úr verðbólguþrýstingi, og olíukostnaður, t.d. útgerða og flugfélaga, hefur lækkað verulega.
Sádí-Arabía og Íran
Orkumálaráðherra Sádí-Arabíu, Khalid al-Falih, lét hafa eftir sér í gær, í viðtali við Wall Street Journal, að svo gæti farið að frekara samkomulag, sem gæfi meiri vísbendingar um stöðu mála til framtíðar, myndi nást á milli OPEC ríkja á fyrirhuguðum fundi þeirra í nóvember.
Fulltrúar stjórnvalda í Íran hafa barist gegn því að framleiðsla verði dregin saman. Íran er nú byrjað að byggja upp hagkerfið á nýjan leik, eftir að viðskiptaþvinganir voru felldar niður á landið, og myndi framleiðsluminnkun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Íran.
Aðrar olíuframleiðsluþjóðir, eins og Noregur, Rússland og Brasilía, sem standa utan OPEC samtakanna, hafa frekar talað fyrir því að jafnvægi verði komið á milli framboðs og eftirspurnar – þá með framleiðsluminnkun – svo að verðið geti farið að færast upp á við. Í Noregi hefur verið talað um sársaukamörk olíuiðnaðarins í landinu séu í kringum 63 Bandaríkjadali á tunnuna, sem er órafjarri stöðu mála nú.
Sádí-Arabía er stærsti einstaki olíuframleiðandi heimsins, og segir í umfjöllun CNN að stærstur hluti framleiðsluminnkunarinnar mun verða hjá furstaríkinu í miðausturlöndum.
Til OPEC ríkja teljast Alsír, Angóla, Ekvador, Íran, Írak, Gabon, Katar, Kúveit, Líbýa, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía og Venesúela.