Hinn 16. apríl á þessu ári var Icelandair Group 189 milljarða króna virði, en gengi bréfa félagsins var þá tæplega 38. Nú, rúmlega fimm mánuðum síðar, hefur markaðsvirðið minnkað um 67 milljarða króna en gengi bréfa félagsins stóð í 24,5 við lok markaða í gær, eftir að hafa lækkað, annan daginn í röð, um 3,16 prósent. Markaðsvirði félagsins er í dag ríflega 122 milljarðar króna.
Rauðar tölur
Rauðar tölur lækkana hafa sést á hlutabréfarmarkaðnum að undanförnu, en Icelandair hefur lækkað meira en flest önnur félög.
Þetta stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins hefur vaxið hratt á undanförnum árum, samhliða miklum vexti og uppgangi í ferðaþjónustunni á undanförnum fimm ár. Eigið fé félagsins í lok árs í fyrra nam 456 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 53 milljörðum króna. Rekstrartekjur félagsins námu 1,3 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 150 milljörðum króna. Handbært fé frá rekstri í lok árs í fyrra nam 245 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 30 milljörðum króna. Fjárhagur þess er því sterkur.
Í lok annars ársfjórðungs þessar árs, sendi félagið frá sér tilkynningu til kauphallar þar sem haft er eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra, að þrátt fyrir góða afkomu í rekstri þá sé nokkur óvissa á mörkuðum, sem hafi meðal annars leitt til lægra meðalverðs flugfargjalda. Var afkomuspáin fyrir árið í ár meðal annars færð niður sökum þessa. „Við færum nú niður afkomuspá okkar fyrir árið, vegna þeirrar óvissu sem er á mörkuðum. Hryðjuverk í Evrópu og niðurstaða atkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa valdið lækkun meðalfargjalda og skapað óvissu sem gerir rekstrarskilyrði flugfélaga erfiðari. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og sveigjanleiki félagsins er mikill þrátt fyrir mikinn vöxt á undanförnum árum. Félagið er því vel í stakk búið til þess að bregðast við þeim áskorunum sem tímabundin ókyrrð á mörkuðum veldur og jafnframt til þess að grípa þau tækifæri sem munu skapast til lengri tíma,“ sagði Björgólfur í tilkynningu.
Icelandair gerir upp í Bandaríkjadal og hefur langstærstan hluta tekna sinna erlendis frá. Sveiflur á gengi krónunnar geta haft nokkur áhrif á afkomu félagsins, þó félagið verji sig fyrir sveiflum með gengisvörnum á fjármálamarkaði. Styrking krónunnar á undanförnum misserum hefur valdið nokkrum áhyggjum hjá fyrirtækjum í útflutningi og ferðaþjónustu, og eru greinendur á markaði, sem Kjarninn ræddi við, sammála um að mikil styrking krónunnar hafi haft neikvæð áhrif á gengi Icelandair á markaði.
Auk þess hefur samkeppni í flugi til og frá Íslandi harðnað nokkuð, með jákvæðum áhrifum fyrir neytendur, hvað varðar verð og valmögulega, en fyrir rekstur einstaka flugfélaga getur það þýtt minni framlegð, í það minnsta á meðan samkeppnin er hvað virkust.
Styrking krónunnar er þó fyrst og fremst áhættuþáttur fyrir útflutningshlið hagkerfisins í heild, einkum ef gengi hennar styrkist mikið meira gagnvart helstu viðskiptamyntum. Mest hefur styrkingin verið gagnvart pundinu, eða 24,5 prósent, en það hefur hríðfallið í verði eftir Brexit-kosninguna í sumar.
Olíuáhætta
Flugfélög eru sérstaklega næm fyrir olíuverði, en það hefur afar hagfelld þróun á olíumörkuðum fyrir flugfélög á undanförnum misserum, þar sem olíuverð hefur lækkað mikð. Árið 2014 fór olíuverð hæst í 110 Bandaríkjadali á tunnu af hráolíu, en í febrúar á þessu ári fór það í 26 Bandaríkjadali á tunnuna. Lækkunin hefur því verið bæði hröð og mikil.
Mörg olíuframleiðsluríki hafa þurft að glíma við efnahagslegar þrengingar vegna þessarar þróunar, og má nefna sérstaklega Noreg, Rússland, Brasilíu, Venesúela og Nígeríu því til staðfestingar.
Eins og greint var frá í gær þá komust OPEC-ríkin fjórtán, með Sádi-Arabíu sem stærsta einstaka olíuframleiðsluríkið í broddi fylkingar, að óformlegu samkomulagi um að draga úr olíuframleiðslu til að stuðla að meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði. Þetta leiddi strax til skarprar hækkunar á olíu, og hefur hún hækkað um tæplega sjö prósent, sé mið tekið af verði á tunnunni af hráolíu í Bandaríkjunum. Hún kostar nú tæplega 48 Bandaríkjadali.
Lykilákvöðun OPEC ríkja, á formlegum vettvangi samtakanna, verður tekin í nóvember, og má gera ráð fyrir að sú ákvörðun hafi dýpri áhrif á markaðinn heldur en fréttir af óformlegu samkomulagi þeirra fyrir tveimur dögum. Ástæðan er meðal annar sú, að fundurinn hefur meira vægi og hafa ákvarðanir sem næst samstaða um, haft víðtæk áhrif á markaði til framtíðar litið. Náist samkomulag um að draga verulega úr framleiðslu, gæti það haft þau áhrif að olíuverð muni hækka jafnt og þétt og verða nær því sem oft hefur verið, í kringum 60 til 80 Bandaríkjadali á tunnuna. Í Noregi hefur verið rætt um að olíiðnaðurinn í landinu þurfi að búa við olíuverð sem er að minnsta kosti 65 Bandaríkjadalir á tunnuna, svo að reksturinn gangi vel eða sé stöðugt jákvæður.
Eitraður kokteill
Ljóst má vera að frekari styrking á gengi krónunnar og möguleg hækkun á heimsmarkaðsverði olíunnar, getur haft slæm áhrif á markaðsvirði Icelandair, vegna versnandi rekstrarafkomu. Vandi er þó um þessi mál að spá, eins og sagan sýnir. Gengi krónunnar sveiflast mikið, fram og til baka, og það sama má segja um heimsmarkaðsverð á olíu. Þetta eru áhrifamiklir þættir þegar kemur að verðbólguhorfum á Íslandi og rekstri fyrirtækja almennt.
Horfur fyrir íslenska ferðaþjónustu eru að mati flestra góðar, og pantanir fyrir næsta sumar benda til þess að vöxturinn verði mikill, frá metárinu sem nú er langt liðið á. Talið er að 2,2 milljónir erlendra ferðamanna muni sækja landið heim á næsta ári, en á þessu ári fari fjöldinn yfir 1,7 milljónir.