Á sama tíma og hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafa dregist saman um rúmlega 30 prósent hafa laun og útgjöld heimila hækkað um tugi prósenta. Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja hefur hækkað um 47,7 prósent, föt og skór hafa hækkað um 56,6 prósent og matar- og drykkjavörur um 68,7 prósent. Þá hefur húsnæðisverð hækkað um 20,4 prósent og húsaleiga um heil 84,5 prósent. Þetta kemur fram í tölum sem BSRB og ASÍ hafa tekið saman annars vegar um þróun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði frá árinu 2008 og hins vegar um hlutfallslega hækkun launa og útgjalda heimilisins frá árinu 2008.
Niðurstaðan er skýr. Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði hafa lækkað mikið en allir kostnaðarliðir hafa hækkað verulega. Afleiðingin er sú að færri feður taka fæðingarorlof, fæðingartíðnin hefur dregist skarpt saman og sá hópur sem á erfiðara með að láta enda ná saman eftir barnsburð hefur vaxið mjög.
Væru 828 þúsund að óbreyttu
Í byrjun árs 2008 voru hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 535.700 krónur. Ef þær greiðslur hefðu fylgt vísitölu neysluverðs - sem mælir verðbólgu - þá væru hámarksgreiðslur úr sjóðnum 828.192 krónur. Svo er hins vegar ekki.
Strax í byrjun árs 2009 voru hámarksgreiðslurnar skertar í 400 þúsund krónur og svo lækkaðar niður í 350 þúsund krónur sumarið 2009, eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum. Í byrjun árs 2010 voru hámarksgreiðslurnar enn lækkaðar og nú niður í 300 þúsund krónur. Þær voru hækkaðar upp í 350 þúsund krónur á lokametrum vinstristjórnarinnar og svo upp í 370 þúsund krónur í byrjun árs 2014, eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum. Það er enn hámarksgreiðsla í dag. Greiðslurnar hafa ekki fylgt hækkunum á vísitölu neysluverðs.
Því munar 458.192 krónum, að teknu tilliti til verðbólgu, á hámarksgreiðslunum eins og þær voru í byrjun árs 2008 og þeim sem núna eru við lýði. Ef einungis er horft á krónutölubreytingar hafa greiðslurnar dregist saman um 30 prósent.
40 prósent minni feðraþátttaka
Þessar skerðingar hafa haft víðtækar afleiðingar. Þegar þakið á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði var hæst árið 2008 voru umsóknir feðra um fæðingarorlof um 90 prósent af umsóknum mæðra. Árið 2014 var það hlutfall komið niður í 80 prósent og samkvæmt tölum frá BSRB hefur þátttaka feðra minnkað um 40 prósent frá því fyrir hrun.
Þá hefur fæðingartíðni verið á niðurleið hérlendis. Frjósemi hafði aldrei verið minni hérlendis en hún var árið 2015. Þá fæddust hér 4.129 börn, sem eru 246 færri en árið 2014.
Helsti mælikvarðinn á frjósemi,samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.
Samkvæmt frétt frá Hagstofu Íslands í maí var frjósemi íslenskra kvenna árið 2015 1,81 barn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei farið lægra frá því að mælingar hófust árið 1853. Árin 2013 og 2014 var frjósemi 1,93 en það er næst lægsta frjósemi sem hefur mælst hér á landi. Undanfarinn áratug hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um tvö börn á ævi hverrar konu.
Tillögur að miklum breytingum ekki á leið í gegn
Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði tillögum til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í mars síðastliðnum. Þar var lagt til að hámarksgreiðslur yrðu hækkaðar upp í 600 þúsund krónur, að fyrstu 300 þúsund krónur tekna verði óskertar en 80 prósent af tekjum umfram það. Þá lagði hópurinn til að hámarksgreiðslurnar myndu breytast í samræmi við launavísitölu hvers árs og að breytingarnar myndu taka gildi um næstu áramót.
Auk þess var lagt til að fæðingarorlof yrði 12 mánuðir í stað níu frá og með byrjun árs 2019 og að leikskóladvöl yrði tryggð í framhaldi af fæðingarorlofi.
Kostnaðurinn við þessar breytingar yrði talsverður. Greiðslur Fæðingarorlofssjóðs voru 8,5 milljarðar í fyrra og gert er ráð fyrir að þær verði 8,8 milljarðar á þessu ári. Með því að hækka hámarksgreiðslurnar í 600 þúsund krónur fer kostnaður sjóðsins upp í um 10,7 milljarða á næsta ári og verður um 12,2 milljarðar á ári eftir það. Eygló sagðist samt sem áður ætla að vinna frumvarp upp úr tillögunum.
Kostnaður hefur hins vegar setið í sumum í ríkisstjórnarflokkunum. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, gagnrýndi til að mynda hugmyndir Eyglóar harðlega. Þær væri innihaldslausar þar sem hún hefði ekki sparað þá milljarða króna sem til þurftu á öðrum kostnaðarliðum.
Ljóst er að ekkert frumvarp um ofangreindar breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi verður samþykkt fyrir komandi kosningar.
Kostnaðarliðir hækka en greiðslur lækka
BSRB og ASÍ hafa því tekið höndum saman og sett af stað átak til að krefjast breytinga stjórnvalda á fæðingarorlofskerfinu. Átakið felur meðal annars í sér að fólk sem nær ekki endum saman vegna barnseigna segir sögu sína í stuttum myndböndum.
Kröfur BSRB og ASÍ eru samhljóma þeim sem starfshópur Eyglóar Harðardóttur setti fram: að hámarksgreiðslur verði 600 þúsund krónur, að greiðslur verði óskertar upp að 300 þúsund og að fæðingarorlof verði tólf mánuðir.
Í tölum sem BSRB og ASÍ hafa tekið saman kemur fram að á sama tíma og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafa lækkað úr 535.700 krónum í 370 þúsund krónur hefur hlutfallsleg hækkun launa og útgjalda heimila hækkað verulega. Frá byrjun árs 2008 hefur húsnæðisverði hækkað um 20,4 prósent, húsaleiga um 84,5 prósent og vísitala neysluverðs um 54,6 prósent.
Allar helstu nauðsynjar hafa enn fremur hækkað mikið. Heilbrigðisþjónusta og lyf hafa hækkað um 47,7 prósent, matar- og drykkjarvörur um 68,7 prósent og föt og skór um 56,6 prósent. Þá hefur launavísitalan, sem mælir launaþróun, hækkað um 69 prósent.