Úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins lækkaði um 3,05 prósent í gær, sem telst vera mikil lækkun á einum degi, í sögulegum samanburði. Mest var lækkunin á bréfum í Icelandair Group, um 4,89 próset í viðskiptum upp á ríflega 1,3 milljarða króna. Eins og Kjarninn greindi frá í gærmorgun
http://kjarninn.is/skyring/2016-09-29-gengisstyrking-og-haekkun-oliu-getur-skapad-okyrrd-i-lofti/
þá hefur markaðsvirði Icelandair hrapað niður að undanförnu, en um 70 milljarðar hafa gufað upp af verðmæti félagsins frá því í apríl á þessu ári. Félagið er nú tæplega 120 milljarða virði en í apríl var það um 190 milljarða virði.Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður félagsins og formaður Viðskiptaráðs, var ein þeirra sem seldi bréf í félaginu í dag, á genginu 24. Samtals seldi hún 400 þúsund hluti, að virði um 9,6 milljóna króna.
Önnur félög lækka líka
Næst mesta lækkunin var á Marel, rúmlega fjögur prósent. Önnur félög lækkuð skarpt, á bilinu 1,5 til þrjú prósent flest.
En hvað veldur? Það er ekki gott að segja, enda geta ýmsir þættir haft áhrif á verðbréfamarkaði. En greinilegt er að meiri neikvæðni er hjá fjárfestum nú en á fyrri hluta ársins. Styrking krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum er einn þáttur sem viðmælendur Kjarnans hafa nefnt, en ýmsir hafa áhyggjur af því að hún sé þegar farin að þrengja að útflutningshlið hagkerfisins og muni einnig með tímanum hafa heftandi áhrif á ferðþjónustuna.
Tvöföldun verðbólgunnar
Til viðbótar kemur svo hin óvenjulega tvöföldun á verðbólgunni, vegna mistaka Hagstofu Íslands. Í gær hækkaði verðbólga úr 0,9 prósent í 1,8 prósent, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á vaxtaálag á skuldabréfamarkaði og augljóslega einnig á verðbólguvæntingar.
Áður en mistök Hagstofunnar komu fram, bjuggust fjárfestar jafnvel við því að Seðlabankinn myndi lækka vexti á nýjan leik, en meginvextir hans voru lækkaði rúr 5,75 prósent í 5,25 prósent á síðasta vaxtaákvörðunardegi. Telja verður ólíklegt að Seðlabankinn lækki vexti næst, og frekar spurning hvort þeir verði hækkaðir á nýjan leik, þrátt fyrir að verðbólgan sé enn nokkuð undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði.
Velta í hlutabréfaviðskiptum var töluvert mikil, og greinilega að margir fjárfestar seldu bréf í dag. Næst mesta veltan var með bréf í Eimskip, sem lækkaði um 1,64 prósent í 500 milljóna króna viðskiptum.
Á sama tíma og hlutabréf haf fallið í verði þá hefur gengi íslensku krónunnar haldið áfram að styrkjast gagnvart helstu viðskiptamyntum. Bandaríkjadalur kostar nú 114 krónur, evran 128 krónur og pundið 148 krónur. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur svo hækkað skarpt, á síðustu tveimur dögum, eða um tæplega tíu prósent. Ástæðan er óformlegt samkomulag OPEC ríkja um að draga úr framleiðslu.