Miklar sveiflur hafa einkennt þróun mála á hlutabréfamarkaði á undanförnum vikum, en mikil hækkun varð á virði félaga í kauphöllinn í gær. Samræmd vísitala markaðarins hækkaði um 2,64 prósent en mesta hækkunin varð á bréfum Icelandair Group, 4,52 prósent í viðskiptum upp á 1,3 milljarða króna.
Mikil lækkun
Félagið hefur lækkað mikið að undanförnu, eins og fjallað var um í fréttaskýringu á vef Kjarnans fyrir skömmu, og má því með sanni segja að hækkunin á félaginu hafi verið kærkomin. Frá því apríl hefur félagið þó rýrnað í verði um tæplega 70 milljarða króna.
Síminn hækkaði einnig mikið, eða um 3,7 prósent. Önnur félög hækkuðu um á bilinu 1,5 til þrjú prósent, að HB Granda undanskildu en það lækkaði um 1,09 prósent í viðskiptum upp á aðeins eina milljón.
Gengið styrkist
Samhliða töluvert miklum sveiflum á hlutabréfamarkaði, og neikvæðri ávöxtun á honum á þessu ári, sé horft til samræmdu vísitölunnar, þá hefur gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum haldið áfram að styrkjast. Þannig er pundið komið í 145 krónur, en það kostaði 206 krónur fyrir ári síðan. Evran er nú á 128 krónur en kostaði 150 krónur fyrir ári, og það sama má segja um Bandaríkjadal. Hann kostar nú 114 krónur en kostaði 136 krónur fyrir ári.
Mikið gjaldeyrisinnstreymi
Ástæðan fyrir styrkingu krónunnar er í stuttu máli sú að gjaldeyrisinnstreymi frá erlendum ferðamönnum hefur verið gríðarlega mikið, og er áætlað að það verði yfir 430 milljarðar á þessu ári. Þá kúventist skuldastaða íslenska þjóðarbússins við útlönd þegar leyst var úr greiðslujafnaðarvandanum sem slitabú föllnu bankanna sköpuðu, með því að ríkið fékk til sín tæplega 500 milljarða krónueignir slitabúanna. Gjaldeyrisútstreymi vegna skulda í útlöndum er því mun minna nú en það hefur verið um áratugaskeið.
Hvar er æskilegt að hafa gengið?
Spurningin sem margir spyrja sig að, er hvar æskilegt er að gengi krónunnar sé, þannig að það á æskilegum stað fyrir þjóðarbúið. Útflutningsfyrirtæki og fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem fá tekjur í erlendri mynt, hafa kvartað nokkuð yfir styrkingunni að undanförnu, en styrkingin hefur þó hjálpað til við að halda verðlagi niðri, þar sem verð á innfluttum vörum hefur haldist lægra en það hefði annars verið. Þá hjálpaði mikil verðlækkun á olíu, úr 110 Bandaríkjadölum á tunnu af hráolíu árið 2014 niður í 26 Bandaríkjadali í febrúar á þessu ári, mikið til. Verðið á olíu hefur verið að þokast upp á við að undanförnu og kostar tunnan af hráolíu nú tæpa 50 Bandaríkjadali. Haldi olían áfram að hækka gæti það hæglega leitt til meiri verðbólgu á Íslandi, og gert rekstur flugfélaga og útgerða meira krefjandi.
Flestar spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun á gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðaþjónustunnar og er gert ráð fyrir að það fari yfir 500 milljarða á næsta ári, og að heildarfjöldi ferðamanna fari yfir 2,2 milljónir.
Jákvæðir hagvísar
Um þessar mundir eru flestir hagvísar úr íslenska hagkerfinu að miða í rétta átt, sé mið tekið af mati fjármálastöðugleikaráðs, en það kom saman 3. október síðastliðinn. Þetta var fjórði fundur ráðsins á árinu en næsti fundurinn fer fram 16. desember.
Í ráðinu sitja Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, og Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Í tilkynningu eftir fundinn, sem birtist á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins, segir að „þjóðhagslegar aðstæður hafi í meginatriðum verið fjármálakerfinu hagstæðar undanfarin misseri.“ Hagvöxtur hefur verið þróttmikill, dregið hefur úr atvinnuleysi, ráðstöfunartekjur heimila aukist hröðum skrefum og hagnaður fyrirtækja verið ágætur. „Heimili og fyrirtæki hafa að töluverðu leyti nýtt góða stöðu til þess að lækka skuldir og bæta eiginfjárstöðu. Útlánavöxtur hefur verið hóflegur um leið og aðgangur innlendra aðila að erlendum lánsfjármörkuðum hefur orðið greiðari. Þrátt fyrir öran vöxt eftirspurnar hefur viðskiptaafgangur haldist verulegur og verðbólga lítil. Ytri staða þjóðarbúsins er á heildina litið með ágætum og gjaldeyrisforði vel nægjanlegur til að styðja við almenna losun fjármagnshafta,“ segir í tilkynningunni.
Verðbólga mælist nú 1,8 prósent, en hún hækkaði óvænt úr 0,9 prósentum, vegna mistaka Hagstofu Íslands, en hún hafði vanáætlað áhrifin af hækkun húsleigu inn í vísitölunni nokkur misseri á undan.