Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, er að færa efnahagsstefnu Breta hratt til vinstri. Þetta mátti lesa út úr ræður sem May hélt í gær á fundi Íhaldsflokksins, að því er The Economist heldur fram. Í ritinu er stefnumarkandi ræða May greind með þeim hætti, að eftir Brexit-kosinguna í júní, þar sem breskur almenningur kaus með því að yfirgefa Evrópusambandið, þá sé það orðið að opinberri stefnu Íhaldsmanna að fjarlægjast alþjóðavætt viðskiptalíf og markaðsbúskap sem því hefur fylgt.
Hún hafi boðað Brexit sem „hljóðláta byltingu“ og atburð sem kæmi aðeins einu sinni hjá hverri kynslóð. Með Brexit væri almenningur að senda „elítunni“ skilaboð um það snérist ekki allt um hana.
Hægri hliðin
Þegar kom að félagslegu hliðinni, hinum mórölsku skilaboðum ræðunnar, segir The Economist að May hefði hallað sér til hægri. Boðað pópúlismann frá Nigel Farage, þar sem alið væri á ótta og þjóðernishyggju.
May er sögð hafa gagnrýnt harðlega tal þeirra sem gerðu lítið úr mikilvægi einkennum breskrar menningar, og talað fyrir því að tíminn til þess að yfirgefa „sósíalíska breytni“ og „frjálslynd hægri sjónarmið“ og marka nýja stefnu á miðju stjórnmálanna. Þessi nýja stefna væri það sem ríkisstjórn hennar myndi móta á grunni breytts veruleika.
Einangrunarhyggja
Í leiðara The Economist er þessi stefnumörkun May gagnrýnd harðlega, og hún sögð ala á einfeldni og það sem væri verst af öllu fyrir breskt efnahagslíf; einangrunarhyggju. Þrátt fyrir að May hefði ítrekað að Bretland myndi formlega hefja útgöngu úr Evrópusambandinu á næsta ári, þá væri ekki góð efnahagsstefna í augsýn. Auk þess væri það mikið áhyggjuefni fyrir breskt efnahagslíf, að í landinu væri vöxturinn fyrst og fremst í láglaunastörfum.
Verstu spár ekki ræst
Þrátt fyrir að mörg fagtímarit um viðskipti og efnahagslíf, The Economist þar á meðal, hafi gagnrýnt stjórnvöld í Bretlandi fyrir viðbrögðin við Brexit-kosningunni, þá hafa verstu spár um þróun efnahagsmála í landinu ekki ræst. Atvinnuleysi hefur ekki mikið færst upp og mælist um 5,4 prósent, en hagvaxtarhorfur eru nú sagðar umtalsvert verri en áður. Þá hafa alþjóðleg fyrirtæki, á borð við japanska bílaframleiðendur og bandaríska banka, kallað eftir því að fá skýrari stefnu á borðið um hvernig regluverkið verði sem taki við af samevrópsku regluverki Evrópusambandsins.
Ísland á mikilla hagsmuna að gæta
Þegar kemur að Bretlandsmarkaði á Ísland mikilla hagsmuna að gæta. Í gegnum tíðina hefur þessi 64 milljóna íbúa þjóð, verið með allra mestu viðskiptaríkjum Íslands. Það samband hefur frekar styrkst en hitt, á síðustu árum, enda fjölgar breskum ferðamönnum sem hingað koma stöðugt. Þrátt fyrir að mikla veikingu pundsins gagnvart krónunni á árinu þá hefur breskum ferðamönnum fjölgað um 32 prósent miðað við fyrstu átta mánuði ársins.
Bretar voru fjölmennastir í hópi erlendra ferðamanna hingað til lands í fyrra, ásamt Bandaríkjamönnum. Samtals komu ríflega 241 þúsund ferðamenn frá Bretlandi til landsins, eða um 19 prósent af heildarfjölda ferðamanna.
Verðmæti útflutnings, einkum sjávarafurða, hefur skerst verulega við þessa gengisþróun sem að framan er lýst. Pundið kostar nú 144 krónur, en fyrir rúmu ári kostaði það 206 krónu. Það munar um minna. Í fyrra nam útflutningur til Bretland 73 milljörðum króna, og var það um 12 prósent af heildarútflutningi.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, gerði þessa þróun að umtalsefni á dögunum, þegar hann fjallaði um þróun á erlendum mörkuðum. „Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun hins vegar hafa neikvæð áhrif á afkomu okkar, að minnsta kosti til skamms tíma á meðan pundið er veikt. Stór hluti þorskafurða félagsins er seldur í Bretlandi,“ sagði Þorsteinn Már.
Verður að koma í ljós hvernig fer
Erfitt er að segja til um hver áhrifin af veikingu pundsins verða í Bretlandi til lengdar, en flestar spár þar gera ráð fyrir að breskt efnahagslíf mun þurfa að fara í „sársaukafulla“ aðlögun að breyttum veruleika. Vonir standa til þess að fleiri ferðamenn muni heimsækja landið, enda verðlag skyndilega búið að batna um meiran 25 prósent mælt í flestum helstu viðskiptamyntum, en á móti kemur þá hafa mörg iðnfyrirtæki áhyggjur af því að erfiðara verði að laða til landsins þekkingu og samkeppnishæft starfsfólk.