Markaðsvirði félaga sem skráð eru á aðalmarkað í kauphöll Íslands nemur nú 949,5 milljörðum króna. Verðmætasta félagið er Össur en það er 190 milljarða virði. Lægsti verðmiðinn er á Nýherja, minnsta félaginu í kauphöllinni þegar horft er til heildarefnahags, en markaðsvirði þess er 7,5 milljarðar króna.
Mesta lækkunin á markaðsvirði félags á þessu ári hefur verið hjá Icelandair, en virði þess hefur lækkað um 60 milljarða frá því í apríl. Virði þess er nú 130 milljarðar króna.
Marel með mesta eigin féð
Sé horft sérstaklega á eigin fjárstöðu fyrirtækja er Marel með mesta eigið féð, eða 57 milljarða króna. Næst þar á eftir kemur Össur, með 52,7 milljarða króna, en Icelandair þar á eftir með 52 milljarða. Öll þessi fyrirtæki gera upp í erlendri mynt. Össur og Icelandair í Bandaríkjadal en Marel í evrum. Gengi krónunnar gagnvart þessum helstu viðskiptamyntum heimsins hefur því umtalsverð áhrif á þau og hvernig markaðsvirði þeirra þróast í krónum talið.
Á undanförnu ári hefur gengi krónunnar styrkst umtalsvert gagnvart helstu viðskiptamyntum. Um áramótin kostaði Bandaríkjadalur 133 krónur en nú er verð hans 114 krónur. Á sama tímabili hefur gengi krónunnar styrkst nokkuð gagnvart evrunni. Um áramótin kostaði evran um 150 krónur en nú er verð hennar 128 krónur.
Samanlagt er eigið fé allra félaga á aðalmarkaði kauphallarinnar 426,9 milljarðar króna. Markaðsvirði er því 2,2 sinnum meira en eigin fé fyrirtækjanna.
Eitt félag í kauphöllinni er með meira eigin fé en sem nemur markaðsvirði félagsins, en það er Síminn. Virði þess er 29,8 milljarðar, miðað við stöðuna í lok dags á föstudag, eigið féð er 32,8 milljarðar.
Nýherji, Hagar og N1
Það fyrirtæki sem er með hæstan verðmiða sé litið til margföldunar eigin fjár, er Nýherji, en markaðsvirði þess er 3,9 sinnum eigin fé þess. Virðið er 7,5 milljarðar en eigin féð 1,9 milljarðar. Þar á eftir koma Hagar og N1. Virði Haga er 60,9 milljarðar sem er 3,7 sinnum meira en eigin fé þess, sem er 16,3 milljarðar. Virði N1 er 29 milljarðar sem er 3,7 sinnum meira en eigin féð, sem er 7,7 milljarðar.
Þar á eftir koma Össur og Marel. Markaðsvirði Össurar er 3,6 sinnum meira en eigin féð en hjá Marel er það 3,1 sinnum meira.
Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendur skráðra hlutabréfa með á bilinu 40 til 50 prósent af markaðnum. Sé miðað við heildarvirðið, eins og það var við lokun markaða á föstudag, þá er virði þeirra bréfa 379,8 til 474,7 milljarðar króna.
Eignir alls lífeyriskerfisins námu 3.454 milljörðum króna við árslok 2015 eða 157 prósent af vergri landsframleiðslu Íslands.
Hlutabréfamarkaðurinn | Markaðsvirði | Eigið fé |
Síminn | 29,8 | 32,8 |
EIK | 36 | 23 |
Reitir | 67 | 46 |
Grandi | 50,7 | 31,3 |
Sjóvá | 20,1 | 16,3 |
N1 | 29 | 7,7 |
TM | 17,1 | 12,1 |
VÍS | 19,2 | 17,5 |
Vodafone | 13,03 | 9 |
Eimskip | 58,8 | 29,1 |
Reginn | 39,4 | 22,2 |
Hagar | 60,9 | 16,3 |
Nýherji | 7,5 | 1,9 |
Icelandair | 130 | 52 |
Marel | 181 | 57 |
Össur | 190 | 52,7 |
949,53 | 426,9 |