Sjö flokkar fá yfir fimm prósenta fylgi samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar og myndu því geta náð inn þingmönnum í kosningunum þann 29. október næstkomandi. Það stendur þó tæpt hjá Bjartri framtíð, sem hefur mælst með 5,1 prósenta fylgi í tveimur kosningaspám í röð.
Einu sinni á lýðveldistímanum hefur það gerst að sjö flokkar nái kjöri á Alþingi, en það var árið 1987. Þá voru klofningsframboð frá bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki í framboði og fengu menn inn á þing. Borgaraflokkurinn, undir forystu Alberts Guðmundssonar, náði sjö mönnum inn á þing. Þá fengu Samtök um jafnrétti og félagshyggju einn mann kjörinn í eina kjördæminu sem boðið var fram í, Norðurlandi eystra, en það var Stefán Valgeirsson. Samtök um jafnrétti og félagshyggju var sérframboð hans, en hann hafði áður verið lengi þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn, rétt eins og Albert hafði lengi verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í þessum kosningum náði Kvennalistinn einnig að tvöfalda fylgi sitt frá kosningunum 1983, og fékk sex þingkonur inn.
Sjálfstæðisflokkur og Píratar áfram stærstir
Engin breyting er á því, frekar en öllum kosningaspám þessa árs, að Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar eru vinsælustu flokkarnir. Fylgi Pírata og Sjálfstæðisflokksins fylgdist nokkurn veginn að í september, og var nokkuð svipað í öllum kosningaspám, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn mældist alltaf aðeins fyrir ofan Pírata. Í lok september breyttist þetta hins vegar, Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið svipuðu fylgi og er nú með 24,1 prósenta fylgi, en Píratar hafa lækkað flugið og farið úr 25,8 prósentum í byrjun september niður í 20,3 prósent nú.
Á sama tíma hefur fylgið við Vinstri græn þokast upp á við á ný og stendur nú í 14,3 prósentum.
Fylgi Viðreisnar og Framsóknarflokksins hefur verið á svipuðum slóðum undanfarna tvo mánuði eða svo, en flokkarnir eru þeir einu sem hafa á þessu tímabili haft sætaskipti í kosningaspánni. Viðreisn mælist nú á ný með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn, eða sem fjórða stærsta framboðið. Viðreisn mælist með 11,3 prósent á meðan Framsóknarflokkurinn er með 10,1 prósent. Yrðu þetta úrslit kosninganna yrði árangur Viðreisnar líklega besti árangur nýs flokks.
Samfylkingin virðist ekki heldur vera að uppskera nokkurn skapaðan hlut í sinni kosningabaráttu hingað til, hvað sem líður kosningaloforðum um að gefa fólki allt að þrjár milljónir króna í fyrirframgreiddar vaxtabætur til að kaupa sér húsnæði. Flokkurinn hefur verið fastur í rúmlega átta prósenta fylgi í um það bil tvo mánuði.
Fjórflokkurinn farinn
Flokkakerfið á Íslandi hefur oft verið nefnt fjórflokkakerfi, en miðað við allar spár þá er slíkt kerfi á undanhaldi á Íslandi. Vinsældir rótgróinna stjórnmálaflokka hafa minnkað verulega og eins og staðan er í dag er útlit fyrir að þeir flokkar fái minni stuðning en nokkru sinni fyrr í kosningunum í lok mánaðarins.
Um kosningaspána 7. október
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í Alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Kannanirnar sem kosningaspáin tekur mið af eru:
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 23. september – 5. október (24,8%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 3 – 4. október (21,5%)
- Þjóðarpúls Gallup 16. – 29. september (32,2%)
- Skoðanakönnun MMR 20. september – 26. september (21,5%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.