Fjölmargt fólk úr öllum álfum heimsins kom saman um nýafstaðna helgi og þingaði í einum mesta rok- og rigningarassi Evrópu. Hringborð Norðurslóða (e. Arctic Circle) er sannarlega stærsta kaupstefnan sem er haldin í Hörpu ár hvert. Þar mætast pólitískir leiðtogar, stjórnendur fyrirtækja, vísindamenn, frumkvöðlar, og sérfræðingar í umhverfismálum og freista þess að eiga í samræðum um framtíð norðurslóða.
Á þeim fjórum árum sem liðin eru frá fyrsta Hringborðinu hafa þessir ólíku hagsmunaaðilar lært að tala sömu tungu, upp að vissu marki. Í hverju einasta horni var rætt um sjálfbæra þróun – en hvort skilningurinn á því hugtaki hafi ætíð verið sá sami skal ósagt látið. Annað lausnarorð, samvinna, hljómaði þó einnig um salina og bar með sér óskertari skilning. Með aukinni hlýnun og margvíslegum breytingum á loftslagskerfi jarðar breytist hið frosna landslag norðurslóða hratt með geysimiklum afleiðingum fyrir önnur svæði. Ráðstefnugestir urðu hægt og sígandi meðvitaðir um sameiginlega upplifun á óafturkvæmum missi. Allar dýrategundir jarðar eru háðar ís, svo ég vitni í fleyg ummæli helgarinnar. Við, þar með talin.
Rannsóknarhús rís
Af sömu rótum munu á hinn bóginn nýjar siglingaleiðir breyta gangverki alþjóðaviðskipta og hafa áhrif á hagkerfi um allan heim. Það er því eðlilegt að fjarlæg ríki kalli eftir nánara samstarfi við norðurslóðaríkin átta, hvort heldur sem er á vettvangi vísinda eða viðskipta. Ágætt dæmi um þessa þróun er íslenskt-kínverskt norðurljósarannsóknarhús sem hefur risið í Þingeyjarsveit að Kárhóli í Reykjadal (fjórum árum eftir að ríkin að undirrituðu tvíhliða samvinnusamning um norðurrannsóknir, fjörtíu og fimm árum eftir að formleg erindaskipti hófust milli Íslands og Kína).
Að öllum líkindum er þetta stærsta fjárfesting frá upphafi utan Reykjavíkur í uppbyggingu rannsóknaraðstöðu. Verkefnið var kynnt í Hörpu um helgina og í kjölfarið haldið norður á mánudag og hornsteinn lagður að nýbyggingunni við hátíðlega athöfn. Rannsóknamiðstöðin er samstarfsverkefni sex íslenskra og tólf kínverskra vísindastofnana sem deila öllum þeim gögnum sem verða til á staðnum. Að auki verður aðstaðan sjálf opin vísindamönnum hvaðanæva að úr heiminum og þannig er stuðlað enn frekar að alþjóðlegu vísindasamstarfi.
Gæti orðið fyrirmynd annarra verkefna
Sé reynt að meta verkefnið út frá sjónarhóli alþjóðasamskipta, þá er ljóst að þessi tilraun er býsna merkileg. Að baki eru ótal skref eftir vandrötuðum diplómatískum leiðum; varðaðar fjöldamörgum samþykktum og viljayfirlýsingum stjórnvaldanna tveggja. Langtímauppbygging á innviðum í Reykjadal væri þar að auki óhugsandi ef ekki hefði komið til framtaks innlendra aðila. Sjálfseignarstofnunin Aurora Observatory annast uppbyggingu og rekstur aðstöðunnar á Kárhóli en stofnaðilar eru, meðal annarra, atvinnuþróunarfélögin tvö í þessum landshluta (Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar) ásamt öðrum einka- og opinberum aðilum.
Bæði íslenskir og kínverskir talsmenn verkefnisins hafa lagt áherslu á að uppbyggingin að Kárhóli geti orðið fyrirmynd annarra samstarfsverkefna um norðurrannsóknir. Þannig væri hægt að nota sambærilegt líkan til að skapa aukin tækifæri á sviði jarðvísinda og loftslagsrannsókna – og ekki aðeins hér á landi, heldur víðar á norðurslóðum, þar sem vísindamenn erlendra ríkja vilja skapa traustari grundvöll fyrir eigin rannsóknir á svæðinu.
Íslenskir og kínverskir vísindamenn erindrekar
Nærvist og návera Kína hefur aukist mikið á norðurslóðum undanfarin ár. Umhverfisbreytingar á svæðinu eru raunveruleg orsök þessa áhuga en hann beinist ekki síst að margvíslegum viðskiptatækifærum, sem skapast með nýjum siglingaleiðum, sem og betra aðgengi að þeim gríðarlegu auðlindum sem svæðið býr yfir. Það er eftirtektarvert hve vel Kína hefur tekist að vinna málstað sínum fylgi hér á landi, ekki síst í gegnum norðurrannsóknir – og íslenskir aðilar hafa ekki látið sitt eftir liggja heldur haft forystu um að þróa vísindasamstarf milli Kína og Norðurlandanna.
Hvort sem það er af ásettu ráði eða ekki, hafa íslenskir og kínverskir vísindamenn þannig tekið sér hlutverk erindrekans í víðtækri milliríkjapólitík. Á svæðisvísu er verkefni eins Kárhóll til þess fallið að hleypa, með friðsamlegum hætti, erlendum aðilum að innlendum rannsóknar- og stjórnunarkerfum. Þannig getur skapast traust milli ríkja og fulltrúa þeirra, sem vonandi verður nýtt til frekari góðra verka á jafnræðisgrundvelli. Veldur hver á heldur.