Sögulega hafa fjórir flokkar verið undirstaðan í íslenskum stjórnmálum. Þeir hafa stundum skipt um nafn en á hinu pólitíska litrófi hafa þeir raða sér nokkuð skýrt frá vinstri til hægri í áratugi. Samanlagt hafa þessir fjórir flokkar, sem í dag heita Vinstrihreyfingin grænt framboð, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, verið með um 90 prósent allra atkvæða.
En nú hefur orðið breyting á. Samtals mælist fylgi þessara fjögurra flokka einungis 54,1 prósent. Það er minna fylgi en flokkarnir fjórir hafa nokkru sinni mælst með í skoðanakönnunum. Og það fer dalandi með hverri vikunni. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þrír flokkar, Píratar, Björt framtíð og Viðreisn – sem stofnaðir voru í aðdraganda kosninganna 2013 eða þeirra sem fara fram eftir tvær vikur – mælast samanlagt með 38 prósent fylgi. Allt stefnir því í að sjö flokkar nái inn fulltrúum á Alþingi eftir kosningarnar sem fram fara 29. október næstkomandi. Það hefur einungis einu sinni gerst á lýðveldistímanum, eftir kosningarnar 1987.
Björt Framtíð stærri en Samfylkingin
Samkvæmt nýjustu kosningaspánni er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins. Alls myndu 22,1 prósent kjósenda greiða honum atkvæði ef kosið yrði í dag. Píratar koma þar á eftir með 19,2 prósent.
Vinstri græn virðast á mikilli siglingu á lokaspretti kosningabaráttunnar. Í lok september var fylgi flokksins 12,7 prósent en það mælist nú þremur prósentustigum hærra, eða 15,4 prósent.
Hinn flokkurinn sem hefur verið á fleygiferð upp á við í síðustu könnunum er Björt framtíð. Allt frá því að þingflokkur hennar kaus gegn búvörusamningunum á Alþingi hefur fylgið aukist. Það mældist rétt rúmlega þrjú prósent um miðjan september en er nú 7,9 prósent,sem er ekki langt frá kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum þegar hann fékk 8,2 prósent atkvæða og sex þingmenn kjörna. Þau merkistíðindi eru líka í nýjustu kosningaspánni að Björt framtíð mælist stærri en Samfylkingin, sem er hugmyndafræðilega staðsett næst Bjartri framtíð, en hún mælist með 7,5 prósent fylgi. Það er í fyrsta sinn síðan að Kjarninn hóf að birta kosningaspár sem það gerist.
Formannsuppgjörið í Framsóknarflokknum virðist hafa gert lítið til að hjálpa þeim flokki að ná í aukið fylgi. Flokkurinn mælist nú með 9,1 prósent stuðning og hann hefur dalað stanslaust síðustu vikur. Framsóknarflokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða i kosningunum 2013 og því er ljóst að það stefnir í ansi breyttan veruleika hjá flokknum að loknum komandi kosningum að óbreyttu.
Er fjórflokkurinn ekki dauður, heldur sundraður?
Líkt og áður sagði þá er fylgi fjórflokksins svokallaða einungis 54,1 prósent. Það er þó ekki svo klippt og skorið að álykta að nálgun íslensku þjóðarinnar á stjórnmál hafi einfaldlega gjörbreyst svo rosalega að gömlu hugmyndafræðilegu hólfin sem fjórflokkurinn skilgreindi sig eftir eigi ekki enn við að einhverju leyti.
Samkvæmt Kosningavitanum, gagnvirkri vefkönnun sem á að gefa kjósendum tækifæri til að sjá hvar þeir standa í samanburði við stjórnmálaflokka og framboð til Alþingis 2015 í hugmyndafræðilegri afstöðu og helstu málefnum kosningabaráttunnar, þá eru fjórir hugmyndafræðilegir klasar í íslenskum stjórnmálum þegar flokkunum 12 sem ætla að bjóða fram er raðað á tvo ása: alþjóðahyggju til þjóðhyggju og frá félagshyggju til markaðshyggju.
Athyglisvert er að fylgi hvers klasa fyrir sig er mjög sambærilegt og fylgi hvers fjórflokkanna var fyrir rúmum tólf árum síðan. Þannig mælist samanlagt fylgi Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar í dag 34,6 prósent. Samfylkingin mældist með 33,6 prósent í júní 2004.
Samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar – en þar innanbúðar eru margir fyrrverandi Sjálfstæðismenn sem yfirgáfu þann flokk vegna áherslna hans í alþjóðamálum – mælist nú 33 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 31,1 prósent í júní 2004.
Framsóknarflokkurinn og Íslenska þjóðfylkingin mælast nú saman með um 11,5 prósent fylgi en Framsókn mældist ein og sér með 13 prósent fylgi í júní 2004.
Á Vinstri vængnum virðist mesti klofningurinn vera. Þar eru Vinstri græn, Alþýðufylkingin, Dögun, Flokkur fólksins og Húmanistaflokkurinn öll að fiska í sömu félagshyggjutjörninni samkvæmt Kosningavitanum. Í Kosningaspá Kjarnans mælast tveir þessara flokka – Vinstri græn og Dögun – með nægilegt fylgi til að vera greint sérstaklega. Samanlagt mælast þessir tveir flokkar með 16,7 prósent. Í júní 2004 mældist fylgi Vinstri grænna 17,5 prósent.
Um kosningaspána 14. október
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í Alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Kannanirnar sem kosningaspáin tekur mið af eru:
- Skoðanakönnun MMR 6. – 13. október (23,9%)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 6. – 12. október (24,9%)
- Þjóðarpúls Gallup 3. – 12. október (33,1%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 10. – 11. október (18,1%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum..