Danmörk, Noregur, Þýskaland og Austurríki ætla að óska eftir að landamæraeftirlitið á Schengen svæðinu verði framlengt en núverandi heimild rennur út um miðjan nóvember. Löndin fjögur hyggjast senda framkvæmdastjórn Evrópusambandsins erindi þess efnis á næstu dögum. Svíar hafa ekki ákveðið hvort þeir vilja halda eftirlitinu áfram eftir þann tíma. Danski innflytjendaráðherrann segir landamæraeftirlitið nauðsynlegt til að stemma stigu við straumi flóttafólks og til að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn geti óhindrað ferðast milli landa.
Schengen samningurinn varð til árið 1990, fyrir tilstuðlan Evrópusambandsins. Ekki eiga öll ríki innan ESB aðild að samningnum, til dæmis Bretland, og nokkur ríki, þar á meðal Ísland og Noregur, eru aðilar að Schengen þótt þau standi utan ESB. Schengen samningurinn snýst um frjálsa för innan Schengen svæðisins, án landamæraeftirlits. Íbúum aðildarríkjanna er hinsvegar skylt að framvísa fullgildum persónuskilríkjum sé þess óskað (stikkprufur) þegar þeir ferðast milli landa. Einnig er heimilt, við sérstakar aðstæður að taka upp tímabundið landamæraeftirlit. Stjórnvöld í Schengen löndunum (eins og þau eru iðulega kölluð) nýttu sér þessa sérstöku heimild þegar eftirlitið var tekið upp og heimildin hefur síðan verið framlengd nokkrum sinnum.
Brýn nauðsyn að eftirlitið verði áfram
Inger Stöjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku hefur haft forystu um að fara fram á að leyfi til áframhaldandi landamæragæslu verði heimiluð. Í viðtali við Danska útvarpið fyrir tveim dögum sagði ráðherrann brýna nauðsyn að landamæraeftirlitið verði áfram við lýði um óákveðinn tíma. „Eftirlitið við ytri landamæri Schengen svæðisins er í ólestri og það eru þúsundir óskráðra flóttamanna í Evrópu. Meðan svo er teljum við nauðsynlegt að landamæraeftirlitið verði áfram í gildi” sagði ráðherrann. „Hryðjuverkaógnin er líka enn til staðar og þess vegna er bráðnauðsynlegt að vita, og fylgjast með, hverjir það eru sem koma til Evrópu. Við vitum líka mög dæmi þess að t.d. Danir sem hafa tekið þátt í stríðinu í Sýrlandi, og víðar, hafa bæði kunnáttu og vilja til að fremja hryðjuverk í Evrópu” sagði ráðherrann. Þýski innanríkisráðherrann, Thomas de Maiziére hefur tekið í sama streng og sagt nauðsynlegt að landamæraeftirlitið haldi áfram um sinn. Utanríkisráðherra Austurríkis, Wolfgang Sobotka, sagði í viðtali fyrir nokkrum dögum að eftirlitið verði að halda áfram „annars verðum við að hugsa um aðrar lausnir” bætti hann við án þess að útskýra nánar hvað hann ætti við. “Í Grikklandi eru 50 þúsund flóttamenn og í löndum á Balkanskaganum mikill fjöldi, við vitum ekki hve margir.” Dimitris Avramopoulos framkvæmdastjóri innflytjendamála hjá Evrópusambandinu sagði í viðtali við dönsku Ritzau fréttastofuna að ef nauðsynlegt reyndist að viðhalda landamæraeftirlitinu yrði beiðni um slíkt að líkindum samþykkt. „Beiðni um það hefur ekki borist og fyrr en það gerist tökum við ekki neina ákvörðun” sagði framkvæmdastjórinn.
Danir í vandræðum vegna Europol
Flóttamannastraumurinn er ekki það eina sem veldur dönskum stjórnvöldum áhyggjum. Þátttaka Dana í Evrópulögreglunni, Europol, er í uppnámi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 3. desember í fyrra. Þá völdu Danir að sleppa ekki undanþáguákvæðum Maastricht samningsins (kosningarnar varð að halda vegna breytinga á samningnum) sem hafði í för með sér að eftir 1. maí á næsta ári verða þeir ekki aðilar að Europol. Þetta þýðir að Danmörk verður ekki þátttakandi í samstarfi í dóms og lögreglumálum, nema samningar náist um slíkt við Evrópusambandið. Þar á bæ er samningsviljinn takmarkaður þótt ýmsir danskir stjórnmálamenn (einkum þingmenn Danska Þjóðarflokksins) hafi haldið öðru fram.
Europol aðildin sterkasta vopnið í baráttunni við glæpamenn
Danska lögreglan hefur miklar áhyggjur af því sem við tekur þegar Europol aðild Dana lýkur í lok apríl á næsta ári. Þótt ef til vill takist að semja um aðild Dana að skráningarkerfi Europol, sem er þó alls kostar óvíst, er ljóst að danska lögreglan hefur ekki sömu möguleika og áður í baráttunni við glæpagengi sem ætla sér að komast til Danmerkur. Michael Kjeldgaard, yfirmaður alþjóðadeildar dönsku lögreglunnar sagði í viðtali að eitt mikilvægasta tækið í þeirri baráttu væri samskipta- og upplýsingakerfi Europol. „Ef við höfum ekki aðgang að þessu kerfi eftir 1. maí á þessu ári er það mikil afturför” sagði Michael Kjeldgaard. „Við flettum 71 þúsund sinnum upp í skráningarkerfi Europol á síðasta ári og gátum í tengslum við það leitað í samskipta- og upplýsingakerfinu. Skráningarkerfið er út af fyrir sig gagnlegt en upplýsingasamskiptin eru ekki síður mikilvæg” sagði yfirmaður alþjóðadeildar dönsku lögreglunnar og bætti við að danska lögreglan hefði einkum átt mikið og gott samstarf við Hollendinga og Þjóðverja. Þetta samstarf verður allt í uppnámi og það er einungis einn hópur sem græðir á því. Nefnilega glæpamennirnir” sagði Michael Kjeldgaard.
Ekki er ljóst hvenær formlegar viðræður danskra stjórnvalda og Evrópusambandsins vegna Europol hefjast.