Píratar eru tilbúnir að hefja strax formlegar stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka út frá fimm megin áherslum Pírata til þess að geta lagt drög að stjórnarsáttmála áður en íslensk þjóð gengur til þingkosninga laugardaginn 29. október næstkomandi. Flokkurinn segir að hann muni ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með þeim flokkum sem ekki geta skuldbundið sig til ákveðinna verka fyrir kosninga. Flokkarnir sem Píratar vilja hefja viðræður við eru fjórir og formenn þeirra allra hafa fengið sent bréf þess efnis. Þeir eru Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Rætt verður við formennina í komandi viku og í þeirri röð sem þeir eru nefndir hér að ofan.
Formennirnir munu, þiggi þeir boð Pírata, funda með þriggja manna umboðsmannateymi flokksins sem mun svo skila skýrslu um þær viðræður til kjósenda fimmtudaginn 27. október næstkomandi. Það er skilyrði fyrir stjórnarmyndunarviðræðum Pírata fyrir kosningar að niðurstöður viðræðnanna verði kynntar þann dag, og þar af leiðandi fyrir kosningar.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Píratar héldu í Hannesarholti í morgun þar sem tilkynnt var hvernig Píratar ætla að standa að stjórnarmyndunarviðræðum fyrir komandi kosningar.
Þeir þrír einstaklingar sem hafa hlotið umboð Pírata, eftir að erindisbréf þeirra var samþykkt í kosningakerfi flokksins, eru Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður, Smári McCarthy, sem leiðir lista Pírata í Suðurkjördæmi, og Einar Brynjólfsson, sem situr í 1. sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi.
Áherslumálin fimm sem Píratar leggja áherslu á í stjórnarmyndunarviðræðum sínum eru:
- Ný stjórnarskrá
- Réttlát dreifing arðs af auðlindum
- Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta
- Efling aðkomu almennings að ákvarðanatöku
- Endurvekja traust og tækla spillingu
Málamiðlanir við stjórnarmyndun leiði af sér svik við kjósendur
Á fundinum var einnig lesin upp yfirlýsing Pírötum. Þar segir að gengið sé til kosninga á undan áætlun vegna „þeirrar spillingar sem afhjúpuð var fyrir umheiminum í Panamaskjölunum. Fimm ráðherrar urðu uppvísir að spillingu á kjörtímabilinu. Í fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar sýndi almenningur vilja sinn til breytinga. Erindi Pírata byggir á kröfu um nauðsynlegar kerfisbreytingar, siðbót í stjórnmálum og stríð á hendur spillingu og sjálftöku. Píratar leggja því þunga áherslu á að færa þjóðinni fullveldi sitt og sjálfstæði að nýju.
Sú hefð hefur skapast í íslenskum stjórnmálum að loforð eru einatt svikin eftir kosningar og bera menn fyrir sig „pólitískan ómöguleika“ eins og frægt er orðið. Hefðin er sú, að stjórnmálaflokkar sem mynda ríkisstjórnir á Íslandi skýla sér bak við málamiðlanir í stjórnarmyndun. Þannig tekst þeim ítrekað að svíkja kjósendur sína.
Við gerum okkur grein fyrir því að okkar stefnuskrá er okkar óskalisti. Stjórnmál eru list hins mögulega; enginn fær allar sínar óskir uppfylltar í samningum við aðra. Kjósendur eiga rétt á að vita hvað atkvæði þeirra merkir fyrir kosningar, ekki aðeins að þeim loknum.“
„Pólitískur ómöguleiki“ Bjarna
Sá „pólitíski ómöguleiki“ sem Píratar vitna til í yfirlýsingu sinni snýst um það þegar fjórir af þeim sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem leiddu kjördæmi flokksins fyrir síðustu kosningar lofuðu því að áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu sem nú er að líða. Allir fjórir urðu síðar ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum vorið 2013. Engir fyrirvarar um meirihluta á Alþingi, meirihluta innan ríkisstjórnar eða sýnilegan þjóðarvilja í skoðanakönnunum voru settir fram. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði það oftar en nokkur annar Sjálfstæðismaður að þjóðaratkvæðið myndi fara fram og að flokkur hans myndi standa við það.
Eftir kosningarnar 2013 var það loforð dregið til baka. Í viðtali við Kastljós í febrúar 2014 sagði Bjarni: „„Ég get ekki fyllilega staðið við það að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við höldum áfram viðræðum við Evrópusambandið þar sem það er pólitískur ómöguleiki til staðar.“ Sá ómöguleiki var að mati Bjarna sá að flokkur hans væri andvígur aðild og það væri samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, Framsóknarflokkurinn, einnig.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, setti einnig fram vilyrði um að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar myndi fara fram í aðdraganda kosninga 2013. Þegar Sigmundur Davíð og Bjarni kynntu ríkisstjórnarsamstarf sitt á Laugarvatni að loknum kosningum spurði fréttamaður á staðnum: „Getum við treyst því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður?“ Sigmundur Davíð svaraði: „Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Fylgi Pírata hefur snarlækkað á árinu
Það stefnir í flóknar stjórnarmyndunarviðræður eftir komandi kosningar. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans fær fjórflokkurinn svokallaði – sem sögulega hefur haft um 90 prósent fylgi hið minnsta – einungis um 54 prósent atkvæða. Ómöguleg virðist, miðað við stöðuna nú, að mynda tveggja flokka stjórn. Sá ómöguleiki verður enn meiri í kjölfar þess sem Píratar lýstu yfir í dag, þar sem þeir virðast beinlínis útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, en Píratar og Sjálfstæðisflokkur eru einu tveir flokkarnir sem mælast með í kringum 20 prósent fylgi og eru þar með stærstu flokkar landsins samkvæmt könnunum. Því verður líklegasta stjórnarmynstrið eftir kosningar þriggja- eða fjögurra flokka ríkisstjórn.
Það sem Jón Kalman sagði
Þær stjórnarmyndunarviðræður sem Píratar eru nú að reyna að hrinda af stað eru mjög í anda þess sem hvatt var til í grein sem Jón Kalman Stefánsson rithöfundur skrifaði á Kjarnann í maí 2015 og vakti mikla athygli. Fyrirsögn hennar var „Tími Katrínar Jakobsdóttur er runninn upp – hvort sem henni líkar betur eða verr“.
Þar sagði Jón Kalman að vinstri- og jafnaðarmenn geti annaðhvort haldið uppteknum hætti, gengið sundruð til næstu kosninga og þannig tryggt áframhaldandi misskiptingu. Eða fylkt sér á bak við þann eina stjórnmálamann sem hefur getu og vinsældir til að leiða breiðfylkingu í anda R-listans: Katrínu Jakobsdóttur. „Ef hún hefur áhuga á að hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara, þá verður hún að stíga fram og sameina vinstri– og miðjumenn að baki sér. Og aðrir forystumenn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hagsmuni þjóðar fram yfir persónulegan metnað og verða riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur. Hennar tími er einfaldlega runninn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr“.
Í kjölfari ræddu fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna opinberlega um áhuga sinn á því að mynda kosningabandalag. Katrín Jakobsdóttir gerði það í útvarpsþætti í júní 2015 og aftur í sjónvarpsþætti í október sama ár og sagði að hún væri áhugasöm um kosningabandalag á vinstri vængnum.
Árni Páll Árnason, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, talaði fyrir kosningabandalagi stjórnarandstöðuflokka á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í september 2015 og hafði áður gert slíkt hið sama í maí sama ár, þegar hann var spurður út í grein Jóns Kalman.
Róbert Marshall birti síðan stöðuuppfærslu á Facebook í desember í fyrra þar sem hann kallaði eftir sameiginlegu framboði umbótaafla í næstu kosningum sem leitt yrði af Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna. Þar sagði Róbert að þeir sem aðhyllist umbætur og alvöru aðgerðir á sviði umhverfis, jafnréttis, mennta- og heilbrigðismála þurfi að skipa sér í sveit saman og búa til aðgerðaráætlun fyrir næstu kjörtímabili. „Stilla sameiginlega upp á lista í öllum kjördæmum og stilla upp ríkisstjórn þar sem hæfileikar, bakgrunnur og verkefni ráða mannvalinu. Ég sé fyrir mér stjórn sem væri að mestu skipaða utanþingsráðherrum sem við kynnum fyrir kosningar og yrði leidd af Katrínu Jakobsdóttur. Verkefnin fram undan eru risavaxin og munu reyna á okkur en við getum þetta. Það er von. Björgum Íslandi."
Síðan hefur auðvitað margt breyst, nýtt fólk er komið í framvarðarsveit sumra flokkanna, fylgi þeirra hefur sveiflast og, síðast en ekki síst, þá var kosningum flýtt eftir að forsætisráðherra þjóðarinnar neyddist til að segja af sér vegna tengsla hans við aflandsfélag í Panama sem var auk þess kröfuhafi í bú föllnu bankanna.