42 prósent þeirra mæðra sem tóku fæðingarorlof frá byrjun þessa árs og út septembermánuð voru með 300 þúsund krónur eða minna í mánaðartekjur. Alls voru 16 prósent feðra með 300 þúsund krónur eða minna í mánaðartekjur. Þessi hópur mun áfram fá einungis 80 prósent af launum sínum þegar hópurinn fer í fæðingarorlof samkvæmt þeim breytingum sem ríkisstjórnin gerði nýverið.
Ef farið hefði verið eftir þeim tillögum sem starfshópur Eyglóar Harðardóttur, félags- og húnsæðismálaráðherra, lagði fram í mars síðastliðnum væru fyrstu 300 þúsund krónur af tekjum þeirra sem fara í fæðingarorlof óskertar. Þessi hópur lægst launuðustu Íslendinganna sem taka fæðingarorlof, meðal annars rúmlega fjórða hver kona sem tekur slíkt, hefðu því haldið 100 prósent af tekjum sínum ef ríkisstjórnin hefði farið eftir tilmælum starfshóps ráðherrans. Þess í stað fær hann 80 prósent launa sinna í kjölfar þeirrar reglugerðarbreytingar sem ríkisstjórnin samþykkti nýverið og tók gildi 15. október. Þetta kemur fram í tölum sem BSRB hefur unnið upp úr upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði.
Ef farið hefði verið að tillögum starfshópsins, og fyrstu 300 þúsund krónurnar sem nýir foreldrar afla yrðu óskertir, þá myndu greiðslur til þeirra sem hafa hærri laun en 300 þúsund líka aukast umtalsvert. Þannig myndu þeir sem eru með tekjur á milli 300-400 þúsund fá 97 prósent launa sinna í fæðingarorlofi, þeir sem þéna 400-500 þúsund fá 93 prósent og þeir sem þéna 500-750 þúsund krónur fá 90 prósent launa að meðaltali á mánuði. Alls eru rúmlega 80 prósent þeirra mæðra sem hafa tekið fæðingarorlof á þessu ári með mánaðartekjur undir 500 þúsund krónum á mánuði. 44 prósent feðra sem tekið hafa orlof eru hins vegar með tekjur yfir 500 þúsund krónur á mánuði.
Greiðslur hækkaðar upp í 500 þúsund
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 7. október síðastliðinn að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 500 þúsund krónur. Greiðslurnar höfðu verið skertar mikið eftir hrun og hækkað mjög lítið á undanförnum árum. Þær voru 370 þúsund krónur á mánuði fram að hækkuninni fyrr í þessum mánuði. Til samanburðar má nefna að í árs 2008 voru hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 535.700 krónur. Ef þær greiðslur hefðu fylgt vísitölu neysluverðs - sem mælir verðbólgu - þá væru hámarksgreiðslur úr sjóðnum 828.192 krónur.
Ákvörðun ríkissjóðs var ekki framkvæmd með lagabreytingu, heldur reglugerðarbreytingu. Hún tók gildi 15. október síðastliðinn og gerði það að verkum að margar þeirra kvenna sem settar voru daganna fyrir þann dag reyndu hvað sem þær gátu til að fresta fæðingu, til að fá hærra fæðingarorlof.
Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði tillögum til Eyglóar í mars síðastliðnum. Þar var lagt til að hámarksgreiðslur yrðu hækkaðar upp í 600 þúsund krónur, að fyrstu 300 þúsund krónur tekna verði óskertar en 80 prósent af tekjum umfram það. Þá lagði hópurinn til að hámarksgreiðslurnar myndu breytast í samræmi við launavísitölu hvers árs og að breytingarnar myndu taka gildi um næstu áramót.
Auk þess var lagt til að fæðingarorlof yrði 12 mánuðir í stað níu frá og með byrjun árs 2019 og að leikskóladvöl yrði tryggð í framhaldi af fæðingarorlofi.
Kostnaðurinn við þessar breytingar yrði talsverður. Greiðslur Fæðingarorlofssjóðs voru 8,5 milljarðar í fyrra og gert er ráð fyrir að þær verði 8,8 milljarðar á þessu ári. Með því að hækka hámarksgreiðslurnar í 600 þúsund krónur fer kostnaður sjóðsins upp í um 10,7 milljarða á næsta ári og verður um 12,2 milljarðar á ári eftir það. Eygló sagðist samt sem áður ætla að vinna frumvarp upp úr tillögunum.
Úr því varð ekki og þess í stað var ráðist í reglugerðarbreytingu þremur vikum fyrir kosningar sem hækkaði hámarksgreiðslur úr 370 þúsund í 500 þúsund krónur.
Kostnaður aukist gríðarlega
Viku áður en að reglugerðarbreytingin var samþykkt greindi Kjarninn frá því að á sama tíma og hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði höfðu dregist saman um rúmlega 30 prósent hefðu laun og útgjöld heimila hækkað um tugi prósenta. Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja hafði hækkað um 47,7 prósent, föt og skór hækkað um 56,6 prósent og matar- og drykkjarvörur um 68,7 prósent. Þá hafði húsnæðisverð hækkað um 20,4 prósent og húsaleiga um heil 84,5 prósent. Þetta kom fram í tölum sem BSRB og ASÍ hafa tekið saman annars vegar um þróun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði frá árinu 2008 og hins vegar um hlutfallslega hækkun launa og útgjalda heimilisins frá árinu 2008.
Niðurstaðan var skýr. Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði höfðu lækkað mikið en allir kostnaðarliðir hækkað verulega. Afleiðingin er sú að færri feður taka fæðingarorlof, fæðingartíðnin er sú lægsta frá því að mælingar hófust árið 1853 og sá hópur sem á erfiðara með að láta enda ná saman eftir barnsburð hefur vaxið mjög.