Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, taldi víst að neyðarlán til Kaupþings sem veitt var 6. október 2008 myndi ekki endurgreiðast og að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hefði í raun tekið ákvörðun um að veita lánið. Hann skipti sérstaklega um síma til að geta hljóðritað símtal sitt við Geir þar sem fjallað var um lánið.
Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag en þar var fjallað um frægt símtal milli Davíðs og Geirs þegar lánveitingin var ákveðin. Endurrit úr símtalinu er að finna í vitnaskýrslu yfir Sturlu Pálssyni, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands, hjá sérstökum saksóknara árið 2012 sem fréttastofan hefur undir höndum. Þegar hefur verið boðað að málið verði til umfjöllunar í Kastljósi kvöldsins.
Í vitnaskýrslunni yfir Sturlu Pálssyni kemur fram að símtalið milli Davíðs og Geirs hafi átt sér stað klukkan 11.57 mánudaginn 6. október. Þar segir einnig að það hafi farið fram í gegnum síma Sturlu, sem var viðstaddur símtalið. Við skýrslutökuna sagði Sturla að Davíð hafi vitað að sími Sturlu væri hljóðritaður og því frekar tekið símtalið úr síma samstarfsmanns síns en úr sínum eigin. Enginn annar var viðstaddur símtalið.
Í vitnaskýrslunni, sem birt var í fréttum Stöðvar 2, er birt endurrit af hluta símtalsins, og er það í fyrsta sinn sem slíkt er birt opinberlega. Þar er haft eftir Davíð: „Í dag getum við skrapað saman 500 milljónir evra og erum þá náttúrulega komnir inn að beini. Getum þá hjálpað Kaupþingi í einhverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka sko.“
Eftir að símtalinu lauk hringdi Davíð í Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, og tilkynnti honum að Kaupþing myndi fá fyrirgreiðsluna sem beðið hefði verið um. Í vitnaskýrslunni segir að: „Aðspurður um hvenær sú ákvörðun hefði legið fyrir að SÍ ætlaði að hjálpa Kaupþingi en ekki LÍ kvað SP að DO hafa sagt að ekki yrði hæg að bjarga báðum bönkunum. DO hafi sagt GHH að þeir fengju þennan pening ekki til baka og að ákvörðunin hafi í raun verið GHH.“Hefur áður sagt að Geir beri ábyrgð á láninu
Í febrúar 2015 skrifaði Davíð Reykjavíkurbréf í Morgunblaðið. Þar sagði að þar sem gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands í október 2008 var tilkominn vegna skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs hafi bankastjórar Seðlabankans litið svo á að það það yrði að vera vilji ríkisstjórnarinnar, ekki bankans, sem réði því hvort Kaupþing fengi hann nánast allan að láni þennan dag. Í Reykjavíkurbréfinu stóð: „Þeir sem báðu um aðstoðina [Kaupþing] héldu því fram, að ríkisstjórnin vildi að þessi fyrirgreiðsla yrði veitt. Þess vegna fór símtalið við forsætisráðherrann fram. Tilviljun réð því að það símtal var hljóðritað. Þess vegna átti fyrirgreiðslan sér að lokum stað gegn allsherjarveði í banka sem talinn var standa mjög ríflega undir því.“ Að sögn Davíðs var það því Geir sem tók ákvörðunina um að lána Kaupþingi.
Geir, sem er núverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, sagði hins vegar í fréttum Stöðvar 2 í maí í fyrra að það hafi verið mistök að veita Kaupþingi 500 milljón evra lán neyðarlagadaginn 6. október 2008. Því miður hafi ekki allt verið sem sýndist hjá bankanum og hann staðið veikar en látið var. Lánið hefði því aldei dugað til að bjarga bankanum og peningarnir ekki farið í það sem þeir áttu að fara.
35 milljarða tap skattgreiðenda
Kjarninn greindi frá því í október 2015 að tap skattgreiðenda vegna lánveitingarinnar verði um 35 milljarðar króna.
Lánið hefur verið ítrekað til umfjöllunar í opinberri umræðu á undanförnum árum. Alþingi hefur í nokkur skipti reynt að komast til botns í því hvers vegna lánið var veitt, og hefur afrit af símtali Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde meðal þess sem borið hefur á góma. Þó símtalið hafi á sínum tíma verið tekið upp, og afrit af því til, þá hefur það ekki verið gert opinbert.
Lánið hefur einnig komið inn á borð yfirvalda sem rannsaka ýmis mál tengd hruni fjármálakerfisins. Í ákæruskjali embættis sérstaks saksóknara í máli hans gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni vegna umboðssvika, sem birt var í byrjun maí 2014, kom fram að þær lánveitingar sem embættið telur ólöglegar hafi meðal annars átt sér stað eftir veitingu Seðlabankans á 500 milljón evra láninu að mati embættisins.