Þrír af þeim sex flokkum sem eiga sæti á Alþingi fengu engin framlög frá lögaðilum á síðasta ári. Flokkarnir eru Píratar, Vinstri-græn og Björt framtíð. Þetta sýna ársreikningar flokkanna sex, sem nú hafa allir birst. Útdrættir úr ársreikningum allra flokka nema VG hafa birst á vef Ríkisendurskoðunar, en VG birtu sinn ársreikning í heild á vefsíðu sinni.
Kjarninn hefur tekið saman upplýsingar um fjármál flokkanna, en fyrri hlutinn birtist í gær eftir að Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu höfðu birst á vef Ríkisendurskoðunar. Stærstur hluti framlaganna til stjórnmálaflokkanna eru framlög frá ríkinu, sem eru veitt í samræmi við stærð flokka, og þau fá einnig framlög frá sveitarfélögum.
Engin framlög frá fyrirtækjum
Píratar högnuðust um átta milljónir króna í fyrra, samanborið við tæpar tíu milljónir árið 2014. Flokkurinn hafði tekjur upp á 21,8 milljónir króna en kostnaður við rekstur og húsnæði nam 9,1 milljón króna.
Flokkurinn fékk engin framlög frá lögaðilum árið 2015, og engin framlög frá einstaklingum námu meira en 200 þúsund krónum. Önnur framlög frá einstaklingum námu 1,35 milljónum króna.
Björt framtíð skilaði tæplega 18 milljóna króna hagnaði árið 2015, hafði tekjur upp á 40,8 milljónir og kostnaður við rekstur nam 22,7 milljónum. Flokkurinn fékk ekki nein framlög frá lögaðilum og ekki heldur framlög yfir 200 þúsund krónum frá einstaklingum. Félagsgjöld og framlög einstaklinga námu rétt rúmlega tveimur milljónum króna. Aðrar tekjur af rekstri námu 83.500 krónum.
* Tölurnar um Pírata hafa verið uppfærðar eftir að Ríkisendurskoðun birti leiðréttan útdrátt úr ársreikningi. Hagnaður Pírata nam átta milljónum en ekki 12,7 eins og áður hafði komið fram.
Framlög frá kjörnum fulltrúum áberandi
Þá hafa Vinstri-græn birt ársreikning sinn á vefnum, þótt útdráttur úr honum hafi ekki enn birst á vef Ríkisendurskoðunar. Flokkurinn hafði 54,4 milljónir króna í tekjur, á meðan kostnaður við rekstur flokksins nam 30,8 milljónum. Hagnaður flokksins í fyrra nam 22,9 milljónum króna.
VG fékk heldur engin framlög frá lögaðilum í fyrra, en fjórtán einstaklingar gáfu flokknum meira en 200 þúsund krónur. Mörg þeirra sem það gerðu eru kjörnir fulltrúar fyrir flokkinn. Aldís Aðalbjarnardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Elínborg Bárðardóttir, Elva Dögg Kristinsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Líf Magneudóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ragnar Óskarsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Sóley Tómasdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir og Svandís Svavarsdóttir gáfu flokknum samtals rúmar fjórar milljónir króna, en aðrar tekjur flokksins námu 1,8 milljónum króna.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar peningum
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tæplega 7,7 milljónum króna árið 2015, samkvæmt nýbirtum útdrætti úr ársreikningi flokksins. Rekstur flokksins kostaði 200 milljónir króna, samanborgið við tæplega 268 milljónir árið 2014. Flokkurinn fékk tæplega 230 milljónir króna í tekjur, en fjármagnsgjöld námu tæpum 38 milljónum króna, sem valda því að flokkurinn skilaði tapi. Það var þó talsvert minna en tap flokksins árið 2014, sem nam 36,7 milljónum króna. Árið þar á undan, kosningaárið 2013, tapaði Sjálfstæðisflokkurinn 127 milljónum króna.
Flokkurinn fékk samtals tæplega 19,3 milljónir króna í framlög frá lögaðilum í fyrra, um tíu milljónum minna en árið á undan.24 lögaðilar styrktu flokkinn um hámarksfjárhæðina, 400 þúsund krónur, í fyrra. Þetta voru fyrirtækin BL ehf, Brekkuhús ehf, Brim hf, Byggingarfélag Gylfa/Gunnars hf, GAM Management ráðgjöf, Gjögur hf, HB Grandi, Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf, Hvalur hf, Icelandair Group, Icelandic Water Holdings, Íslensk Ameríska, Ísfélag Vestmannaeyja, Juris, Kvika banki, Lýsi, Mannvit, Rammi, Reginn, Rolf Johansen & Co., Samherji, Síldarvinnslan, Tryggingamiðstöðum og Vísir.
Af þeim sem greiddu hámarksfjárhæð til flokksins eru 10 sjávarútvegsfyrirtæki, en auk þess eru mörg sjávarútvegsfyrirtæki meðal þeirra sem greiða lægri styrki til flokksins. Kaupfélag Skagfirðinga styrkti flokkinn um 350 þúsund krónur.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk engin framlög umfram 200 þúsund krónur frá einstaklingum, en tæplega 30 milljónir króna í framlögum innan við 200 þúsund krónur og í félagsgjöld. Þá fékk flokkurinn tæplega 70 milljónir króna í tekjur, aðallega leigutekjur og svo auglýsingu og selda þjónustu. Félagsgjöldin og framlögin frá einstaklingum eru einnig tíu milljónum króna lægri í fyrra en árið þar á undan.
Tíu sjávarútvegsfyrirtæki og Kaupfélag Skagfirðinga með hámarksframlög
Framsóknarflokkurinn hagnaðist um 19,3 milljónir króna í fyrra, samanborið við rúmar sjö milljónir árið 2014, og tap upp á 19 milljónir kosningaárið 2013. Flokkurinn er ódýrari í rekstri en samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, rekstrargjöld námu 91 milljón króna í fyrra, en tekjurnar námu 126 milljónum.
Flokkurinn fékk 10,8 milljónir króna í framlög frá lögaðilum, sem er sjö milljónum minna en árið 2014, en nítján félög styrktu hann um hámarksframlagið 400 þúsund krónur. Tíu þeirra voru sjávarútvegsfyrirtæki, mikið til þau sömu og styrktu Sjálfstæðisflokkinn. Kaupfélag Skagfirðinga styrkti flokkinn um hámarksfjárhæð, sem og fyrirtækin Gjögur, HB Grandi, Hraðfrystihúsið-Gunnvör, Hvalur, Icelandic Water Holdings, Ísfélag Vestmannaeyja, Kvika banki, Lýsi, Samherji, Samskip, Skinney-Þinganes, Sólstjarnan, sem er í eigu Skúla Gunnar Sigfússonar fjárfestis, Ursus ehf., sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar fjárfestis, Vélsmiðja Hjalta Einarssonar, Vinnslustöðin, Vísir hf, Þingvangur og Þorbjörn hf.
Framsóknarflokkurinn fékk samtals tæplega 9,2 milljónir í almenn félagsgjöld og framlög einstaklinga undir 200 þúsund krónum, rúmlega milljón minna en árið 2014. Þá fékk flokkurinn rúmlega 13,5 milljónir króna í aðrar tekjur, mest leigutekjur, auglýsingar og selda þjónustu.
Samfylkingin hagnast eftir að hafa dregið saman seglin
Samfylkingin skilaði 21,4 milljóna króna hagnaði í fyrra, eftir að hafa dregið talsvert saman í rekstri flokksins. Flokkurinn hafði skilað hagnaði upp á 2,6 milljónir árið 2014, eftir 55 milljóna króna tap kosningaárið 2013. Flokkurinn hafði tekjur upp á tæplega 95,5 milljónir króna, en rekstur hans kostaði tæpar 69 milljónir króna, samanborið við tæpar 110 milljónir í fyrra.
Flokkurinn fékk tæplega fimm milljónir króna í framlög frá lögaðilum í fyrra, þar af gáfu átta fyrirtæki hámarksupphæðina, 400 þúsund krónur. Það voru HB Grandi, Hofgarðar ehf, sem er í eigu Helga Magnússonar, Hraðfrystihúsið-Gunnvör, Mannvit verkfræðistofa, Miðeind ehf, sem er í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, Reginn, Samherji og Síldarvinnslan. Þrjú sjávarútvegsfyrirtæki styrktu Samfylkinguna um hámarksupphæðina. Framlögin eru nokkuð lægri en árið 2014, þegar flokkurinn fékk 8,4 milljónir frá lögaðilum.
Tíu einstaklingar styrktu Samfylkinguna um fjárhæðir umfram 200 þúsund krónur, en margir eiga það sameiginlegt að vera kjörnir fulltrúar flokksins. Það voru þau Arna Ír Gunnarsdóttir, Árni Páll Árnason, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Marta Sigurðardóttir, Pétur Hrafn Sigurðsson og Skúli Helgason.
Þá fékk flokkurinn félagsgjöld og framlög undir 200 þúsund krónum upp á 13,2 milljónir króna, svo að framlög frá einstaklingum námu rúmum sextán milljónum, og aðrar tekjur flokksins, námu 13,7 milljónum. Framlög einstaklinga drógust talsvert saman milli ára, en árið 2014 námu þau 27,4 milljónum króna.