Trúnaðarbrot Sturlu Pálssonar, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands, sem hann játaði við skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara árið 2012, var fyrnt. Sturla, sem hafði stöðu vitnis í málinu sem hann var yfirheyrður út af, viðurkenndi brot á trúnaði þegar hann upplýsti eiginkonu sína, sem þá var lögmaður samtaka fjármálafyrirtækja, um aðgerðir Seðlabankans í aðdraganda setningu neyðarlaganna haustið 2008.
Samkvæmt 136. grein almennra hegningarlaga skal opinber starfsmaður, sem „segir frá nokkru, er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan[...]sæta varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári. Hafi hann gert það til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, eða noti hann slíka vitneskju í því skyni, má beita fangelsi allt að 3 árum.“
Heimildir Kjarnans herma að bæði Fjármálaeftirlitið (FME) og embætti sérstaks saksóknara hafi rannsakað ítarlega hvort þeir sem skráðir voru á innherjalista hafi átt viðskipti með fjármálagjörninga í kringum hrunið. Á meðal þeirra sem voru á þeim listum var lykilstarfsfólk Seðlabanka Íslands, meðal annars Sturla. Þær rannsóknir sýndu ekki fram á að nein óvenjuleg viðskipti hefðu átt sér stað í kringum hann. Þar af leiðandi hafi Sturla ekki brotið trúnað til að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings og refsiramminn í máli hans því eitt ár. Í 81. grein almennra hegningarlaga segir að sök fyrnist á tveimur árum „þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi“. Þar sem Sturla viðurkenndi að hafa brotið trúnað árið 2012 í símtali sem átti sér stað 2008 var brotið fyrnt árið 2010.
Þá flækti það málið að Sturla var kallaður inn sem vitni í mjög stóru máli sem snerist um rannsókn á meintum tug milljarða króna skilasvikum. Hann var því ekki með stöðu sakbornings við yfirheyrsluna og það sem hann sagði við yfirheyrsluna og var til þess fallið að fella á hann sök, gat því ekki verið notað gegn Sturlu.
Rannsókn á meintum tug milljarða skilasvikum
Málið sem sérstakur saksóknari var að rannsaka snérist um greiðslur sem taldar voru hafa átt sér stað neyðarlagadaginn 6. október. Fimm fyrrverandi stjórnendur hjá Landsbanka Íslands voru grunaðir um skilasvik vegna millifærslu á um 20 milljarða króna af reikningi Landsbankans í Seðlabankanum yfir til MP banka og Straums vegna endurhverfra viðskipta við Seðlabankann og kaupa bankans á verðbréfum í sjóðum Landsvaka eftir lokun sjóðanna. Daginn eftir millifærslurnar tók skilanefnd yfir Landsbankann.
Sérstakur saksóknari sendi frá sér fréttatilkynningu í janúar 2011 þar sem greint var frá húsleitum vegna rannsóknar málsins. Þar kom meðal annars fram að embættið hefði nálgast gögn í Seðlabankanum í tengslum við rannsóknina. Málið var síðan rannsakað að fullu hjá sérstökum saksóknara áður en ákvörðun var tekin um að fella það niður í nóvember 2013 þar sem niðurstaða rannsóknarinnar, ásamt gögnum og framburðum í málinu, var ekki talin líkleg til að leiða til sakfellingar.
Hefði átt að blessa Ísland á sunnudegi
Í vitnaskýrslu Sturlu kemur fram að hann hafi verið mjög mikið spurður út í samskipti sín við stjórnendur Landsbanka Íslands um hrunhelgina. Þar varaði hann meðal annars sjálfur við því að innherjar gætu nýtt sér það hversu seint neyðarlögin voru sett.
Í vitnaskýrslunni segir:„Sturla kvað að Geir H. Haarde hefði átt að stöðva einum sólarhring fyrr (Guð blessi Ísland ávarpið). Hann [Sturla] kvaðst hafa verið áhyggjufullur yfir því að bankarnir skyldu opnaðir á mánudeginum. Neyðarlögin hefðu átt að koma sólarhring fyrr. Reiknar með að í bönkunum sé að finna hreyfingar sem áttu uppruna sinn í því að menn töldu góðar líkur á því að þeir færu á hausinn. Það hefði átt að samþykkja neyðarlögin og „Blessa Ísland" á sunnudagskvöldið."
Sagði að einn bankinn væri búinn að kasta inn handklæðinu
Í vitnaskýrslunni er efni símtals sem Sturla átti við eiginkonu sína tveimur dögum fyrir setningu neyðarlaga rakið. Efni símtalsins er svona: „Á bls 1 kemur fram að hugsanlegt sé að einum banka verði bjargað. Á bls 3 kemur að SÞÁ (Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans) sé hættur að hringja og hann sé búinn að kasta inn handklæðinu, hann sé búinn að gefast upp. Einnig kemur fram að það séu bara Kaupþingsmenn núna Landsbankinn sé farinn og ECB (Evrópski Seðlabankinn) muni triggera það."
Heimildir Kjarnans herma að rannsóknir hafi síðar leitt í ljós að málið hafi ekki verið svona klippt og skorið. Stjórnendur Landsbankans hafi haldið áfram að reyna að bjarga bankanum alveg fram að setningu neyðarlaganna og jafnvel eftir að þau tóku gildi.
Ekki kannað sérstaklega af hálfu Seðlabankans
Eiginkona Sturlu var á þessum tíma lögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, hagsmunasamtaka allra banka og sparisjóða á Íslandi, sem hvort tveggja Landsbankinn og Kaupþing áttu aðild að.
Sturlu var kynnt efni símtalsins við skýrslutökuna hjá sérstökum saksóknara. Í vitnaskýrslunni segir:„Sturla kvaðst náttúrulega vera að brjóta trúnað með því að ræða þetta við konuna sína.“
Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kastljóss vegna málsins segir að Sturla hafi grein Má Guðmundssyni seðlabankastjóra frá umræddu símtali í lok síðustu viku. „Það hefur ekki verið kannað sérstaklega af hálfu Seðlabankans.“