Á Íslandi ríkir efnahagsleg velsæld um þessar mundir. Hér er roknahagvöxtur, skuldir þjóðarbúsins hafa snarlækkað, atvinnuleysi er nánast ekkert og verðbólga hefur ekki verið vandamál í tvö og hálft ár. Samt sem áður mælast stjórnarflokkarnir tveir einungis með rétt rúmlega 30 prósent fylgi samanlagt og nokkuð ljóst að ríkisstjórnin er fallin.
En hvað veldur því að þetta sé staðan, þrátt fyrir allan efnahagsbatann sem þjóðin er að upplifa? Fyrir því eru margar ástæður. Mörgum finnst gæðunum allt of misjafnlega skipt og telja sig ekkert finna fyrir góðærinu. Öðrum finnst forgangsröðun í ríkisfjármálum röng og vilja mun meira fjármagn í velferðarkerfið. En fram hjá því verður ekki litið að sumar ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið , og mál sem komið hafa upp í kringum lykilfólk í henni, á kjörtímabilinu hafa verið vægast sagt umdeild. Kjarninn tók saman þau fimm mál sem hafa skaðað ríkisstjórnina mest á kjörtímabilinu.
5. Lækkun veiðigjalda
Vorið 2013 tók ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við völdum á Íslandi og í stefnuyfirlýsingu hennar kom fram að lög um veiðigjöld yrðu endurskoðuð. Það varð eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstjórnar að samþykkja lög sem lækkuðu veiðigjöld, og voru þau samþykkt 5. júlí 2013. Samhliða var boðað að til stæði að leggja fram frumvarp um heildarendurskoðun laga um veiðigjöld. Sú heildarendurskoðun hefur enn ekki átt sér stað.
Vegna þeirra breytinga sem ráðist hefur verið í hafa veiðigjöld sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða til ríkissjóðs lækkað mikið. Á næsta fiskveiðiári verða þau 4,8 milljarðar króna, eða átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013, þegar þau voru 12,8 milljarðar króna. Á sama tíma hefur íslenskur sjávarútvegur upplifað fordæmalausa velsæld. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst um 265 milljarða króna frá lokum árs 2008 og út árið 2014. Hagnaðurinn var 242 milljarðar króna og arðgreiðslur til eigenda voru tæplega 50 milljarðar króna. Morgunljóst er að síðustu tvö ár, 2015 og það sem af er 2016, hafa bætt vel við eigið fé, hagnað og arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækjanna.
Sú misskipting auðs sem verður til vegna nýtingar þjóðarauðlindarinnar og hefur aldrei verið meiri en á undanförnum árum, er eitt dýpsta þjóðfélagssár íslensks samfélags. Með því að lækka veiðigjöldin með þeim hætti sem gert var, og láta það vera sitt fyrsta verk, þá dýpkaði ríkisstjórnin það sár.
4. Lekamálið
Lekamálið hófst með því að aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, lak minnisblaði um nafngreinda hælisleitendur til fjölmiðla haustið 2013. Aðstoðarmaðurinn, Gísli Freyr Valdórsson, neitaði því reyndar staðfastlega í lengri tíma að hafa lekið minnisblaðinu og Hanna Birna neitaði sömuleiðis að hún eða hennar aðstoðarmenn hefðu gert slíkt.
Málið vatt upp á sig og næsta rúma árið tók Hanna Birna ævintýralega margar vondar ákvarðanir sem tengdust því. Hún hafði meðal annars samband við þáverandi ritstjóra DV, sem fjallaði mikið um lekamálið, og reyndi að láta reka blaðamennina sem skrifuðu um málið. Hún bendlaði Rauða kross Íslands við lekann á minnisblaðinu. Hún í besta falli villti um fyrir þingheimi og í versta falli laug hún að honum. Hún skammaði samþingmenn sína fyrir að spyrja sig út í lekamálið á þingi og ásakaði þá um „ljótan pólitískan leik“. Hún lét rekstrarfélag stjórnarráðsins framkvæmda hvítþvottarannsókn á lekamálinu sem skilaði villandi niðurstöðu. Lögmaður fyrrum aðstoðarmanns hennar, sem starfaði í hennar umboði og á hennar ábyrgð, gaf í skyn í greinargerð sem lögð var fram fyrir dómi að ræstingarfólk eða öryggisverðir í innanríkisráðuneytinu hefði getað lekið minnisblaðinu. Hún fór langt út fyrir valdsvið sitt og reyndi að hafa áhrif á lögreglurannsókn sem snéri að henni og aðstoðarmönnum hennar með því að hamast á þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Stefáni Eiríkssyni, með símtölum, fundarboðum og hótunum. Eftir að umboðsmaður Alþingis hóf rannsókn á samskiptum Hönnu Birnu við lögreglustjórann krafði lögmaður á hennar vegum sama lögreglustjóra, sem síðar hætti í starfi sínu, um skýringar á því sem hann hefði greint umboðsmanni Alþingis frá um samskipti þeirra. Hún reyndi ítrekað að hafa áhrif á athugun umboðsmanns Alþingis á framgöngu hennar í lekamálinu og gaf í skyn að hann setti fram „eigin dylgjur og dóma án rökstuðnings eða réttarhalda."
Allt varð þetta þó til einskis gert. Aðstoðarmaður hennar var ákærður fyrir að leka minnisblaðinu og skömmu áður en málið var tekið fyrir játaði hann á sig verknaðinn. Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra nokkru síðar, eða í lok árs 2014. Umboðsmaður Alþingis birt niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu og fyrrverandi lögreglustjórans vegna rannsóknar lekamálsins í janúar 2015. Þar sagði hann að ráðherrann hafi gengið langt út fyrir valdsvið sitt. Hanna Birna hafði þá þegar beðist afsökunar á framgöngu sinni gagnvart Stefáni.
Hanna Birna fór í leyfi eftir afsögn sína og skömmu eftir að hún snéri aftur ákvað hún að bjóða sig ekki fram áfram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún ákvað enn fremur að hætta stjórnmálaþátttöku og er ekki framboði um næstu helgi.
3. Svikin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við Evrópusambandið
21. febrúar 2014 lagði Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, fram þingsályktunartillögu um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.
Framlagning tillögunnar var keyrð áfram af Framsóknarflokknum, sem hafði undirbúið hana vel. Þingflokki Sjálfstæðisflokksins var hins vegar ekki kynnt efni hennar fyrr en sama dag og hún var lögð fram. Samt stóð hann með tillögunni.
Í kjölfar þess að tillagan var lögð fram urðu fjöldamótmæli á Austurvelli og hópur alþjóðasinnaðra sjálfstæðismanna klauf sig opinberlega frá flokknum sínum. Á meðal þeirra sem tilheyra þeim hópi má nefna fyrrverandi flokksformanninn Þorstein Pálsson, Benedikt Jóhannesson, lífeyrissjóðaáhrifamanninn Helga Magnússon, Þórð Magnússon fjárfesti og fyrrverandi borgarfulltrúann Jórunni Frímannsdóttur. Þess utan gagnrýndi fyrrverandi varaformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stefnu flokksins harðlega og sagði að hún vildi ekki að harðlífið tæki yfir. „Við viljum ekki að svartstakkarnir í flokknum eigi flokkinn meira en ég og þú,“ sagði Þorgerður Katrín í þætti á RÚV skömmu eftir að tillagan var samþykkt. Þetta fólk stóð síðar að stofnun Viðreisnar.
Ástæða þess að reiðin varð svona mikil var sú að fjórir af þeim sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem leiddu kjördæmi flokksins fyrir síðustu kosningar lofuðu því að áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu sem nú er að líða. Allir fjórir urðu síðar ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum vorið 2013. Engir fyrirvarar um meirihluta á Alþingi, meirihluta innan ríkisstjórnar eða sýnilegan þjóðarvilja í skoðanakönnunum voru settir fram. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði það oftar en nokkur annar Sjálfstæðismaður að þjóðaratkvæðið myndi fara fram og að flokkur hans myndi standa við það. Meira að segja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem síðar varð forsætisráðherra um tíma, sagði að að sjálfsögðu myndi koma til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Af henni varð ekki og ríkisstjórnin dró umsóknina til baka án aðkomu þings og þjóðar. Ástæðan var, að sögn Bjarna, „pólitískur ómöguleiki“ sem fólst fyrst og fremst í því að ríkisstjórnarflokkarnir voru á móti aðild að Evrópusambandinu.
2. Leiðréttingin
Helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var að „leiðrétta“ verðtryggðar húsnæðisskuldir heimila landsins. Ýjað var af því að um mörg hundruð milljarða króna niðurgreiðslu á skuldum þeirra yrði að ræða og að peningarnir til að gera það myndu koma frá vogunarsjóðum. Þetta loforð hafði gríðarleg áhrif á að Framsókn vann mikinn kosningasigur og fékk að leiða ríkisstjórn.
Framkvæmd loforðsins varð töluvert öðruvísi en flestir áttu von á. Hún var kynnt með lúðrablæstri í Hörpu sem 150 milljarða króna aðgerð fyrir heimilin í landinu. Í reynd var um að ræða 80,4 milljarða króna millifærslu af fé úr ríkissjóði inn á hluta þjóðarinnar sem hafði verið með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 óháð efnahagsstöðu þeirra og þeirri staðreynd að hækkun húsnæðisverðs hafði þegar „bætt“ flestum upp það tap sem verðbólga eftirhrunsáranna hafði skilið eftir sig. Hinn hluti aðgerðarinnar snerist um að leyfa Íslendingum að nota séreignarsparnaðinn sinn til að borga inn á húsnæðislánið sitt upp að 70 milljörðum króna. Landsmenn hafa einungis nýtt brotabrot af þessari heimild.
Það sem gagnrýnt var mest við Leiðréttinguna var að í aðgerðinni runnu tugir milljarða króna úr ríkissjóði til 94 þúsund Íslendinga og barna þeirra. ⅔ hluti þjóðarinnar var því „óleiðréttur“. Hlutfallslega voru flestir þeirra sem sóttu um leiðréttingu yfir fimmtugt en ungt fólk fékk sáralítið. Peningarnir streymdu aðallega til höfuðborgarsvæðisins og þeir sem voru með mestar tekjur, fengu mest. Þá skuldaði tæpur þriðjungur þeirra sem fékk Leiðréttingartékka undir tíu milljónum króna í húsnæði sínu, sem verður vart talið til mikillar skuldsetningar. Meira að segja stóreignafólk, sem greiddi auðlegðarskatt, fékk leiðrétt. Til að greiða slíkan skatt þurftu hjón að eiga meira en 100 milljónir króna í hreinni eign. Alls fengu 1.250 manns úr þeim stóreignahópi alls 1,5 milljarð króna vegna Leiðréttingarinnar.
Afleiðingar leiðréttingarinnar eru þær að peningar ríkissjóðs sem ella hefði verið hægt að nota í samfélagsleg verkefni eins og uppbyggingu innviða, laga heilbrigðiskerfið eða fjárfesta í menntakerfinu, runnu til valins hóps Íslendinga, sem margir hverjir þurftu ekkert á þeim að halda. Aðgerðin olli ruðningsáhrifum á fasteignamarkaði með hækkandi fasteignaverði. Það gerði þeim sem eru að reyna að koma þaki yfir höfuðið, sérstaklega ungu fólki og lágtekjuhópum, enn erfiðara fyrir að gera slíkt. Og síðast en ekki síst þá skertust vaxtabætur þeirra sem fengu leiðrétt, en lægstar höfðu tekjurnar, þar sem eignastaða þeirra batnaði. Vaxtabætur falla niður þegar einstaklingur hefur náð 533 þúsund krónum í tekjur á mánuði og þegar hjón ná sitthvorum 433 þúsund krónunum. Þess vegna hefur þessi skerðing einungis áhrif á þá sem eru með lægri laun en ofangreind. Og sá hópur greiðir því leiðréttingu sína, að minnsta kosti að hluta, úr eigin vasa. Vaxtabætur lækkuðu um 25,7 prósent á síðasta ári og þeim fjölskyldum sem fengu þær greiddar fækkaði um 21,3 prósent.
1. Wintris-málið
Þann 15. mars 2016 birti Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þáverandi forsætisráðherra, stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún greindi frá því að hún ætti aflandsfélag á Bresku Jómfrúareyjunni Tortóla. Það héti Wintris og í því væri að finna arf hennar. Anna Sigurlaug sagðist segja frá þessu vegna þess að umræða væri farin af stað um erlendar eignir hennar. Hún bað síðan um að Gróu á Leiti yrði gefið smá frí.
Síðar kom í ljós að nokkrum dögum áður, nánar tiltekið 11. mars, hafði sænski fréttaskýringaþátturinn Uppdrag Granskning, í samstarfi við Reykjavík Media og alþjóðlegu rannsóknarblaðamannasamtökin ICIJ, tekið viðtal við Sigmund Davíð og spurt hann út í Wintris. Sigmundur Davíð sagði ósatt í viðtalinu og gekk svo út úr því. Næstu daga átti sér stað heiftúðleg umræða þar sem fjölmargir þingmenn ásökuðu fjölmiðla um að fara offorsi í árásum gegn Sigmundi Davíð.
3. apríl síðastliðinn var sýndur sérstakur Kastljóssþáttur þar sem viðtalið var sýnt. Þar var einnig greint frá tengslum Sigmundar Davíðs, Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal við aflandsfélög í skattaskjólum. Þar kom skýrt fram að Sigmundur Davíð hafði átt Wintris um tíma með eiginkonu sinni, að hann hafi leynt tilvist félagsins og að það væri kröfuhafi í bú föllnu bankanna. Enn fremur kom fram að félagið hafi lýst þeim kröfum á meðan að Sigmundur Davíð var eigandi þess. Aldrei hafa verið birtar upplýsingar um hvaða eignir eru inni í Wintris en fullyrt er að allir skattar hafi verið greiddir af þeim hérlendis.
Daginn eftir, þann 4. apríl, voru haldin mótmæli sem lögregla og kannanir segja að séu stærstu mótmæli Íslandssögunnar. Yfirskrift mótmælanna var krafan um að flýta kosningum. Flestir sem mættu sögðust vera að mótmæla spillingu stjórnmála og hagsmunatengslum ráðherra, til þess að knýja á um kosningar strax og til þess að Sigmundur Davíð segði af sér.
Degi síðar fór af stað ótrúleg atburðarás. Þá var það Sigmundur Davíð sjálfur, sem greindi frá því á Facebook-síðu sinni, að hann hefði á fundi með Bjarna Benediktssyni sagt að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins „treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“ Að þessu búnu fór hann á Bessastaði, þar sem honum og Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta, ber ekki saman um hvort Sigmundur hafi formlega óskað eftir þingrofi eða ekki. Að minnsta kosti sagði Ólafur Ragnar að hann hefði hafnað beiðni um þingrof. Þegar deginum lauk hafði verið tilkynnt að Sigmundur Davíð myndi stíga til hliðar sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson tæki við. Þeir Bjarni Benediktsson kynntu málið fyrir fréttamönnum degi síðar.
Wintris-málið varð að heimsfrétt. Og tilurð málsins er ástæða þess að gengið verður til kosninga eftir sex daga, rúmu hálfu ári fyrr en áætlað var.
Í gær birtist sambærileg umfjöllun um afleiki vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem sat 2009-2013. Hægt er að lesa hana hér.