Smærri hluthafar Klakka (áður Exista), sem eiga hlut sem er verðmetinn á undir 2.000 evrur, munu skulda bandaríska fyrirtækinu Wilmington Trust fé ef þeir ganga að yfirtökutilboði vogunarsjóðsins Burlington Loan Management í hluti þeirra. Ástæðan er sú að Wilmington Trust, sem sér um umsýslu á kröfum og hlutabréfum fyrir Klakka, rukkar 2000 evrur, um 248 þúsund krónur, í umsýslugjald fyrir að sjá um framsal á eignarhlutunum. Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka, staðfesti í samtali við Kjarnann að umsýslugjaldið væri ófrávíkjanlegt og það yrðu allir að greiða sem tækju yfirtökutilboðinu. Um er að ræða upphæð sem ákveðin var árið 2010 og hafi haldist óbreytt síðan.
Forsvarsmaður eins lítils hluthafa, sem hafði samband við Kjarnann, sagði að sá myndi vera í um 160 þúsund króna skuld við Wilmington Trust ef hann myndi taka yfirtökutilboði Burlington Loan Management í hlut hans í Klakka. Fjölmargir aðrir litlir hluthafar eru í sömu stöðu.
Klakki er móðurfélag fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar, sem sérhæfir sig í að fjármagna atvinnutæki, atvinnuhúsnæði og bifreiðar fyrir fyrirtæki og einstaklinga.
Burlington einn stærsti kröfuhafi Íslands
Burlington Loan Management, sem er fjármagnaður og stýrt af bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner, hefur verið stærsti erlendi kröfuhafi íslensks atvinnulífs á eftirhrunsárunum. Á árinu 2013 jók sjóðurinn til að mynda eignir sínar á Íslandi um 70 prósent og í lok þess árs voru 18 prósent af fjárfestingaeignum hans á Íslandi. Í lok árs 2014 voru íslensku eignirnar tíu prósent af fjárfestingaeignum hans, en sjóðurinn jók mjög umsvif sín á því ári.
Stærsta einstaka eign hans lengi vel voru kröfur í þrotabú Glitnis, en Burlington var einn stærsti kröfuhafi búsins. Nafnvirði krafna Burlington í bú bankans var að minnsta kosti vel á þriðja hundrað milljarð króna. Burlington fékk rúmlega 30 prósent af nafnvirði þeirra krafna í kjölfar þess nauðasamningur Glitnis var staðfestur af dómstólum í desember 2015.
Sjóðurinn var einnig einn stærsti kröfuhafi slitabús Kaupþings. Í nóvember 2012 átti hann kröfur í búið að nafnvirði 109 milljarðar króna. Til viðbótar hefur Burlington átt fullt af öðrum eignum hérlendis. Sjóðurinn átti umtalsverðar kröfu í bú Landsbankans og er á meðal eiganda ALMC (áður Straumur fjárfestingabanki).
Þá hefur sjóðurinn átt hlut í Klakka um nokkurt skeið. Mikla athygli vakti þegar hann keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar, helstu eignar Klakka, skömmu fyrir áramót 2013.
Keypti hlut rikisins á hálfan milljarð
Í upphafi árs var hlutur sjóðsins í Klakka 13,2 prósent. Í janúar keypti hann 31,8 prósent hlut Arion banka í félaginu. Kaupin voru gerð í nafni BLM Fjárfestinga ehf., íslensks dótturfélags Burlington. Nýverið keypti Burlington svo hlut eignarhaldsfélags utan um eftirstandandi eignir slitabús Glitnis og átti eftir það 57 prósent hlut. Samþykktir Klakka eru þannig að ef einhver fer yfir 50 prósent eignarhlut í félaginu þá þarf hann að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Á meðal þeirra sem fengu slíkt tilboð var Lindarhvoll, eignarhaldsfélag í íslenska ríkisins sem heldur á stöðugleikaeignum sem það fékk afhent samkvæmt samkomulagi um slit gömlu bankanna. Stjórn Lindarhvols hefur þegar samþykkt að selja hlut sinn, 17,7 prósent, til Burlington.
Á meðal annarra eigenda eru félög í eigu bræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona, sem oftast eru kenndir við Bakkavör. Félögin BBR ehf. og Rask ehf., sem eru í eigu Bakkavarabræðra, áttu samtals tæplega þrjú prósent hlut í Klakka í árslok 2015 samkvæmt hluthafalista í ársreikningi. Bræðurnir, sem voru stærstu eigendur Exista fyrir hrun, reyndu sjálfir að eignast stóran hlut í Klakka í þeirri lotu sem nú stendur yfir og buðu m.a. 501 milljón króna í hlut ríkisins. Það dugði þó ekki til því að Burlington bauð 505 milljónir króna og hreppti hlutinn. Eftir viðskiptin átti Burlington 75 prósent hlut í Klakka.
Magir litlir hluthafar
Þótt að nokkrir stórir aðilar hafi átt bróðurpart hlutafjár í Klakka eftir að félagið lauk nauðasamningsferli þá áttu líka margir minni aðilar hlut. Alls voru hluthafar í Klakka 178 talsins um síðustu áramót. Þar á meðal einstaklingar sem áttu skuldabréf útgefin af Existu fyrir hrun sem fengust aldrei greidd. Þeir fengu þess í stað hlutabréf og skuldabréf í Klakka. Allir þessir aðilar fengu einnig yfirtökutilboð frá Burlington sem rann út í gær.
Í bréfi þar sem tilboðið er sett fram, og Kjarninn hefur undir höndum, er sérstaklega vakin athygli á því að þeir sem samþykki tilboð Burlington um sölu á hlutum þeirra í félaginu þurfi að greiðast 2.000 evrur, um 248 þúsund krónur, í umsýslukostnað vegna framsals hlutanna. Þar segir einnig að sá kostnaður verði dregin frá kaupverðinu.