Aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar á Alþingi en í kosningunum á laugardag. 30 konur og 33 karlar munu taka sæti á þingi þegar það kemur saman, sem þýðir að konur verða 47,6 prósent og karlar 52,4 prósent þingheims.
Kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn í öllum þingflokkum nema þeim langstærsta, þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þar eru konur aðeins þriðjungur þingmanna. Ef hlutföllin væru jafnari í þessum stærsta flokki væru kynjahlutföllin á þingi enn jafnari, og konur mögulega í fyrsta sinn fleiri í hópi þingmanna en karlar.
Fjórir þingmenn náðu kjöri hjá Bjartri framtíð, þrjár konur og einn karl. Hjá Viðreisn náðu þrjár konur og fjórir karlar kjöri, og hjá Samfylkingu eru tveir karlar og ein kona í þingflokknum. Hjá Pírötum eru kynjahlutföllin jöfn, fimm konur og fimm karlar, og hjá Vinstri grænum eru sex konur og fjórir karlar í þingflokknum. Hjá Framsóknarflokknum náðu fimm konur inn á þing en þrír karlar. Allir þessir flokkar, nema Píratar, höfðu einhverjar reglur eða viðmið um kynjahlutföll á listum sínum.
Það hafði Sjálfstæðisflokkurinn ekki.
Staðan mikið rædd fyrir kosningar
Mikið var rætt um stöðu kvenna innan flokksins fyrir kosningar, í kjölfar þess að konum sem sóttust eftir leiðtogasætum var hafnað bæði í Suður- og Suðvesturkjördæmi. Karlar röðuðust í efstu fjögur sætin í Suðvesturkjördæmi og í efstu þrjú sætin í Suðurkjördæmi, en á endanum var uppröðuninni í Suðvesturkjördæmi breytt og Bryndís Haraldsdóttir færð upp í annað sætið. Röðuninni í Suðurkjördæmi var ekki breytt, en Ragnheiður Elín Árnadóttir ákvað að taka ekki sæti á listanum eftir að henni var hafnað sem oddvita, og Unnur Brá Konráðsdóttir færðist í fjórða sætið.
Í kjölfar prófkjaranna sögðu þrír formenn Landssambands sjálfstæðiskvenna sig úr flokknum, þær Helga Dögg Björgvinsdóttir, Jarþrúður Ásmundsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir, sem voru þáverandi og fyrrverandi formenn. Þær sögðust ekki eiga samleið með flokki sem skilar af sér slíkum niðurstöðum úr prófkjöri.
„Nú teljum við fullreynt að hreyfa við þeim íhaldssömu skoðunum og gildum sem ríkja um jafnréttismál í Sjálfstæðisflokknum. Ýmis skref hafa verið stigin sem ættu að leiða til aukins jafnréttis kynjanna á síðustu árum. Víðtæk andstaða hefur þó verið gegn því að ganga lengra í að breyta kerfi og ásýnd flokksins í þá veru að konur fáist til þátttöku.“
Mikið hafi verið talað fyrir því að velja „hæfasta einstaklinginn“. Það hafi sannað sig í prófkjörum síðustu vikna að þessi málflutningur sé úreltur og ekki í neinum takti við nútímann, og enn einu sinni hafi komið í ljós að prófkjör skili ekki endilega góðum niðurstöðum „þó að þau séu kannski lýðræðisleg fyrir þann þrönga hóp sem tekur þátt í þeim.“
Ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar veigri sér ekki við því að velja þannig á lista að konur fái jöfn tækifæri til ábyrgðar á við karla. „Nema staðan sé sú innan Sjálfstæðisflokksins að allir „hæfustu einstaklingarnir“ séu karlar.“
Enduðu sem aðeins þriðjungur þingflokks – hverjar verða ráðherraefni?
Það endaði þannig að sjö konur náðu kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en fjórtán karlar. Aðeins ein kona er oddviti fyrir flokkinn, og það er Ólöf Nordal innanríkisráðherra og varaformaður flokksins. Fjórar hafa þingreynslu, þær Ólöf Nordal, Unnur Brá Konráðsdóttir, Sigríður Andersen og Valgerður Gunnarsdóttir.
Ólöf, sem varaformaður, oddviti og núverandi ráðherra, hlyti að vera eitt fyrsta val Bjarna Benediktssonar þegar kæmi að því að skipa ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum, ef flokkurinn verður í aðstöðu til þess. Hún hefur hins vegar barist við krabbamein um nokkurt skeið og gat lítið sem ekkert beitt sér í kosningabaráttunni, þar sem hún þurfti að leggjast inn á spítala vegna alvarlegrar sýkingar.
Fyrir utan Ólöfu er ekki víst hvaða konur myndu eiga tilkall til setu í ríkisstjórn. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur enga þingreynslu, en er sú kona sem fyrir utan Ólöfu gegnir hæsta embættinu innan flokksins og situr hæst á lista í stóru kjördæmi, en hún skipaði annað sætið í Reykjavík norður. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er einnig í öðru sæti, í Norðvesturkjördæmi, en hefur heldur enga þingreynslu. Hún hefur undanfarin ár aðstoðað Ólöfu Nordal í innanríkisráðuneytinu og var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins á undan því. Bryndís Haraldsdóttir skipar annað sætið í Suðvesturkjördæmi, en kemur ný inn á þing. Hún hefur þó verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ í sex ár.
Unnur Brá Konráðsdóttir fékk ekki góða kosningu í prófkjöri flokksins og situr í fjórða sæti á listanum í Suðurkjördæmi, auk þess sem hún þykir umdeild. Sigríður Á. Andersen er það líka, þrátt fyrir að henni hafi gengið vel í prófkjörinu í Reykjavík. Hún situr þó í þriðja sæti á listanum í Reykjavík suður. Þá er eftir Valgerður Gunnarsdóttir, sem gekk heldur ekki mjög vel í prófkjöri fyrir norðan, og var í þriðja sæti listans í Norðausturkjördæmi.
Sjálfstæðisflokkurinn mun væntanlega gera kröfu um flesta ráðherra í ríkisstjórn, ef flokkurinn fer í stjórnarmyndunarviðræður. Þá er spurning hvort þrír núverandi ráðherrar, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal og Kristján Þór Júlíusson, muni öll halda áfram, og hvernig öðrum ráðherraembættum verður ráðstafað. Karlarnir sem skipa hin oddvitasætin munu væntanlega gera kröfu til ráðherraembættis, en á móti hefur verið uppi sú krafa að kynjahlutföll í ríkisstjórninni verði jöfn, nú þegar því sem næst hefur tekist að jafna kynjahlutföllin á þingi.