Þjóðskrá Íslands hefur endurmetið fasteignamat Hörpu aftur til ársins 2011. Samkvæmt endurmatinu mun Harpa eiga inni umtalsverða fjármuni vegna greiðslu fasteignaskatta síðustu ár. Þetta er gert í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands ógilti í febrúar síðastliðnum mat yfirfasteignarmatsnefndar um að mun hærra fasteignamat, sem leiddi af sér mörg hundruð milljón króna fasteignaskatta á ári, ætti að standa.
Þótt að nýja matið, sem byggir á nýrri formúlu Þjóðskrár til að reikna út mat á tónlistar- og ráðstefnuhúsum, lækki fasteignaskatta Hörpu afturvirkt þá er það samt sem áður hátt. Matið fyrir árið 2017 er tæplega 17,8 milljarðar króna, sem þýðir að Harpa þyrfti að greiða yfir 350 milljónir króna í fasteignaskatta. Miðað við rekstrartekjur Hörpu á árinu 2015 færi því þriðjungur þeirra í fasteignagjöld, sem greiðast í borgarsjóð.
Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir að stjórn Hörpu telji að nýja matið fyrir árið 2017, sem notað er sem útgangspunktur til að reikna sig til baka frá, sé ekki í neinu samræmi við dóm Hæstaréttar frá því í febrúar og fasteignamati hússins fyrir það ár verði áfrýjað til yfirfasteignarmatsnefndar.
Fjóru og hálfu ári eftir að eigendur Hörpu skaut gamla fasteignamati hússins til þeirrar nefndar, eftir að málið hefur farið í gegnum bæði héraðsdóm og Hæstarétt, og eftir að Þjóðskrá Íslands hefur lagt í að búa til nýjan matsflokk til að meta eina tónlistar- og ráðstefnuhús landsins, þá virðist málið að hluta til vera komið í hring. Og viðbúið að allt ferlið verði endurtekið næstu árin.
Annar eigendanna rukkar fasteignagjöldin
Það sem gerir þetta mál sérkennilegra er að sá aðili sem leggur fasteignagjöldin á, Reykjavíkurborg, er annar eigandi hússins með 46 prósent eignarhlut. Íslenska ríkið á 54 prósent. Þannig hefur eignarhaldinu verið háttað frá því snemma árs 2009 þegar þessir aðilar ákváðu að taka yfir og klára Hörpuna.
Þá höfðu framkvæmdir við byggingu hússins, sem Eignarhaldsfélagið Portus stóð fyrir, stöðvast í kjölfar bankahrunsins. Ástæðan var sú Portus og dótturfélög þess, sem voru í eigu Landsbanka Íslands og Nýsis, fóru í þrot.
Rekstur Hörpu hefur verið erfiður. Samanlagt nemur tap Hörpu, framlög ríkis og borgar vegna skulda hennar og rekstrarframlag ríkis og borgar sléttum átta milljörðum króna frá byrjun árs 2011 og til síðustu áramót.
Reksturinn hefur þó batnað mikið síðustu ár ef horft er til aukningar á rekstrartekjum. Árið 2011 voru þær 482 milljónir króna en í fyrra voru rekstrartekjurnar 1.066 milljónir króna. Þær meira en tvöfölduðust því á fimm árum og hækkuðu ár frá ári.
Rekstrargjöld hafa að sama skapi vaxið. Árið 2012 voru þau um 1.229 milljónir króna. Í fyrra voru þau 1.349 milljónir króna.
Fasteignaskattar óvissuþáttur
Einn helsti óvissuþátturinn í rekstri Hörpu undanfarin ár hefur snúist um greiðslu fasteignagjalda. Í maí 2011 var Harpan tekin í notkun. Í sama mánuði tilkynnti Þjóðskrá Íslands rekstrarfélagi Hörpu um að fasteignamat tónlistar- og ráðstefnuhússins væri reiknað 17 milljarðar króna fyrir árið 2012, og var þar miðað við byggingarkostnað þess. Það mat gerði það að verkum að fasteignagjöld sem Harpa þurfti að greiða Reykjavíkurborg voru 355 milljónir króna vegna þess árs. Árið 2012 úrskurðaði yfirfasteignamatsnefnd að rekstrarfélag Hörpu ætti að greiða þá upphæð í slík gjöld vegna þess árs. Síðan hefur félaginu verið gert að greiða sambærilega upphæð á ári í slík gjöld.
Harpa vildi ekki una niðurstöðunni, og skaut henni til dómstóla, enda ljóst að þorri rekstrartekna Hörpu fyrstu árin myndi renna einvörðungu til greiðslu fasteignagjalda. Það sem gerði stöðuna enn sérkennilegri er að fasteignagjöldin greiðast til Reykjavíkurborgar, annars eiganda Hörpu.
Í maí í fyrra hafnaði héraðsdómur Reykjavíkur kröfu Hörpu um að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar yrði ógildur. Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, sagði við Kjarnann við það tilefni að álagningin væri mjög óréttlát. „Það er alveg jafn ljóst nú og var áður, þótt veltan hjá Hörpu hafi aukist mikið, að þessi rekstur stendur ekki undir þessum álögum.“
Í febrúar 2016 ógilti Hæstiréttur Íslands síðan matið. Það leiddi til þess að fasteignaskattar Hörpu vegna ársins 2015 lækkuðu umtalsvert á milli ára. Þeir voru 366 milljónir króna árið 2014 en 135 milljónir króna árið 2015. Dómur Hæstaréttar var auk þess afturvirkur og nær aftur til ársins 2011. Í ársreikningi Hörpu fyrir árið 2015 sagði að of snemmt væri að segja til hversu háar þær fjárhæðir sem muni skila sér aftur til Hörpu verði en líklegt sé að heildaráhrifin verði að minnsta kosti 950 milljónir króna án vaxta. „Einungis er búið að færa áhrifin vegna ársins 2015 í efnahagsreikning, en þau nemur 242 milljónum króna. Í ljósi þessarar stöðu er það mat stjórnenda að samstæðan geti staðið við allar sínar skuldbindingar sem falla til næstu 12 mánuði. Ef mat stjórnenda gengur ekki eftir ríkir verulegur vafi um rekstrarhæfi samstæðunnar.“
Hið nýja fasteignarmat Hörpu gerir það að verkum að þegar greidd fasteignargjöld síðustu ára lækka verulega og Harpa á inni umtalsverða fjárhæð. Hins vegar er ljóst að matið vegna ársins í ár og þess næsta færir fasteignargjöldin á ný í þær hæðir sem þau voru árið 2011, þegar deilan hófst.