Þann 11. ágúst síðastliðinn fundust mannabein við byggingarframkvæmdir í höll einni í Norður-Þýskalandi. Ljóst er að þau eru mjög gömul og tilgátur eru uppi um hvort fundinn sé aðalsmaður sem hvarf undir lok 17. aldar. Hvarf hans var eitt af umtöluðustu málum síns tíma enda tengdist það framhjáhaldi og valdabaráttu nokkurra af æðstu aðalsmönnum Þýskalands og síðar bresku krúnunni. Þetta er saga af losta, afbrýðisemi, heift, forboðinni ást og morði.
Mannabein undir höllinni
Höllin Leineschloss var reist á fyrri hluta 17. aldar, við ánna Leine sem rennur í gegnum þýsku borgina Hannover. Höllin hefur tvisvar verið nær endurbyggð, fyrst á fyrri hluta 19. aldar og síðan eftir sprengjuregn bandamanna í seinni heimstyrjöldinni, en í bæði skiptin náðist að halda upprunalega ytra byrði byggingarinnar. Áður fyrr sátu konungar og furstar Hannover í höllinni en í dag er hún þinghús Neðra Saxlands. Þegar eldri hluti hallarinnar var gerður upp nú í sumar fundust beinin 8 metrum undir grunninum. Lögreglan mætti á svæðið og strax var farið með þau í MHH læknaskólann þar sem þau voru rannsökuð. Þar kom í ljós að þetta voru rifbein og fótleggur af fullorðnum karlmanni sem sennilega var uppi fyrir nokkur hundruð árum síðan. Þar sem svo langt er um liðið er því ekki þörf á lögreglurannsókn en beinin gætu hins vegar upplýst 322 ára gamalt mannshvarfsmál sem tengdist æðsta aðalsfólki svæðisins á þeim tíma.
Hagkvæmnishjónaband
Á 17. öld var Hannover höfuðstaður furstadæmisins Lüneburg í Hinu Heilaga Rómverska Keisaradæmi, laustengdu sambandsríki sem náði yfir alla Mið-Evrópu. Upp úr 1680 urðu deilur milli bræðranna og hertoganna Georgs Vilhjálms og Ernests Augustus um yfirráð á svæðinu sem lyktuðu með því að ákveðið var að sameina ættina í einum erfingja. Dóttir Georgs, Sófía Dórótea, skyldi giftast syni Ernests, Georgi Loðvík. Fjölskylda Ernests og þá sérstaklega kona hans, Sófía, voru mjög á móti ráðahagnum en sæst var á að Georg Vilhjálmur myndi borga þeim um 100.000 ríkisdali árlega. En þau voru ekki þau einu sem voru afhuga hjónabandinu. Verðandi brúðurin trylltist þegar hún frétti að hún ætti að giftast náfrænda sínum. Sagan segir að hún hafi öskrað „Ég mun ekki giftast þessu svínstrýni!” og svo á hún að hafa fallið í yfirlið. En faðir hennar skipaði henni að giftast nafna hans og þar við sat. Þegar Sófía Dórótea var leidd upp að altarinu í nóvember mánuði árið 1682, leið aftur yfir hana. Hún var þá 16 ára en Georg Loðvík 22. Framhaldið var ekkert bjartara fyrir hin nýgiftu hjón. Fjölskylda Georgs Loðvíks var kaldlynd í garð Sófíu Dóróteu og hann sjálfur yfirleitt grimmur við hana. Þegar þau áttu samskipti voru þau yfirleitt full af heift og þau rifust oft hástöfum fyrir framan annað fólk. Stundum beitti Georg hana líkamlegu ofbeldi þannig að hún varð marin og blá á eftir. Engu að síður hlotnaðist þeim tvö börn næstu árin, Georg Augustus (f. 1683) og Sófíu Dóróteu yngri (f. 1686). Eftir það minnkuðu rifrildin milli þeirra en í staðinn kom kuldi og afskiptaleysi.
300 ástarbréf
Líkt og Sófía Dórótea hafði Georg Loðvík verið neyddur til hjónabandsins. Hjá honum var aftur á móti önnur breyta í dæminu, þ.e. þegar hann kynntist ástkonu sinni Melusine von der Schulenberg. Georg Loðvík fór ekki í felur með sambandið, hvorki fyrir eiginkonu sinni né öðrum. Sófíu Dóróteu fannst hún niðurlægð og lét reiði sína opinberlega í ljós en hann tók því fálega. Allt breyttist svo árið 1688 þegar hún hitti mann sem hún hafði ekki séð í sjö ár. Filippus Kristófer von Königsmarck var sænskur greifi og ári eldri en hún. Þau höfðu kynnst sem táningar og líkað vel við hvort annað en ekkert rómantískt samband var á milli þeirra þá. Filippus var hermaður á mála hjá Hannover-mönnum og barðist víða um Evrópu. Hann var bráðmyndarlegur ævintýramaður sem hafði þó það orð á sér að vera kærulaus og óábyrgur glaumgosi. Eftir að þau endurnýjuðu kynnin bjó hann í borginni í tvö ár og fór vel á með þeim en engan grunaði að neitt ósæmilegt væri bak við það. Árið 1690 var hann sendur til Grikklands að berjast fyrir Feneyinga sem áttu þá í stríði við Ottómana um yfirráð á Pelopsskaga. Þegar hann sneri aftur til Hannover jukust samskipti hans og Sófíu Dóróteu til muna og ekki leið á löngu þar til komst upp um ástarsamband þeirra. Árið 1692 fékk hertoginn Ernest Augustus, faðir Georgs Loðvíks, ástarbréf í hendur sem Sófía Dórótea og Filippus höfðu sent sín á milli. Hann vildi ekki setja hjónabandið (og alla ríkisdalina) í hættu og ákvað því að senda Filippus í hernað til Frakklands. Hannover menn stóðu þá í hinu svokallaða níu ára stríði til að verjast ágangi sólkonungsins Loðvíks XIV. Filippus yfirgaf hins vegar herdeildina og reið aftur til Hannover. Þar játaði hann liðhlaupið og grátbað um að fá að vera um kjurrt í borginni.
Þá sá Ernest Augustus sig tilneyddan til að gera hinn ástsjúka Filippus útlægan úr ríkinu. Meira en 300 ástarbréf milli Filippusar og Sófíu Dóróteu eru varðveitt í skjalasafni Háskólans í Lundi. Margir hafa undrast á þessum fjölda en hafa bera í huga að bréfasendingar voru aðal samskiptamátinn milli fólks á þessum tíma og póstburðarmenn báru út bréf til fólks oft á dag. Bréfin eru að einhverju leyti á dulmáli en augljóst er að samband þeirra hefur verið mjög náið. Håkan Håkansson við Lundarháskóla segir: Ég geri ráð fyrir að þau hafi þurft dulmál til að fela allar viðkvæmu upplýsingarnar. Þau hljóta einnig að hafa fengið einhvern sem þau treystu til að fara með bréfin. Í ljósi þess að þetta var ólöglegt ástarsamband og það endaði mjög illa.
Mannshvarf um miðja nótt
Þegar að Filippus var gerður útlægur og Georg Loðvík frétti af sambandinu rifust hjónin. Hún sakaði hann um hræsni og hann brást við með því að ganga í skrokk á henni. Filippus fór til Saxlands í austurhluta Þýskalands þar sem hann bjó um stund. Þar talaði hann opinskátt um hertogafjölskylduna í Hannover og gerði grín að Melusine, ástkonu Georgs Loðvíks. Þegar þetta fréttist til Hannover rifust hjónin heiftarlega og Georg Loðvík kyrkti eiginkonu sína nærri til dauða. Eftir þessa rimmu var ljóst að hjónabandið var á endastöð og Sófía Dórótea biðlaði til Filippusar að hjálpa sér að flýja. Í júlí mánuði árið 1694 reið greifinn sænski til Hannover og beint til ástkonu sinnar þar sem þau eyddu nótt saman.
Þá lögðu þau á ráð um flótta næstu nótt. En kona ein í höllinni, Klara Elísabet von Platen hjákona Ernests Augustus, varð vör við heimsóknina og lét verðina grípa Filippus sem var á leiðinni burt. Síðan fréttist ekkert meir af greifanum. Marga grunaði Georg Loðvík um græsku en aldrei fannst neitt lík og því var ekki hægt að sýna fram á að um morð hefði verið að ræða. Margir töldu að verðirnir hefðu myrt Filippus og fleygt líkinu í ánna Leine. Sögur herma einnig að Klara Elísabet og tveir verðir hafi játað morðið á Filippusi á dánarbeði sínu, öll fyrir sama presti. En það er þó langt frá því að vera staðfest og málið hefur allar götur síðan verið óleyst. Þetta sama ár, 1694, skildu hjónin. Georg Loðvík gat ekki skilið við konu sína á grunni framhjáhalds í ljósi þess að hann var einnig sekur um slíkt athæfi. Því var hún sökuð um að hafa yfirgefið eiginmann sinn og dæmd til fangelsisvistar. Sófía Dórótea var flutt til Ahlden kastala nálægt Hannover þar sem hún mátti lifa sína daga í einsemd. Hún fékk ekki einu sinni að sjá börnin sín aftur. En önnur örlög biðu Georgs Loðvíks.
Valdaættir Evrópu
Árið 1698 lést Ernest Augustus og Georg Loðvík erfði titil hertoga og kjörfusta Hannover. Þegar Georg Vilhjálmur lést árið 1705 erfði Georg Loðvík hans titla einnig í nafni Sófíu Dóróteu og varð þar með einn og óumdeildur valdhafi Hannover svæðisins. En það var í gegnum móður sína, Sófíu hertogaynju, sem hann fékk stærstu sneiðina. Þegar Anna drottning Englands lést barnlaus þurfti að leita aftur í ættir til að finna erfingja. Lög Bretlands bönnuðu það að kaþólikki yrði krýndur því var leitað til nærskyldasta lútherska erfingjans, sem var Georg Loðvík. Í október árið 1714 sigldi hann yfir Ermasundið og var krýndur Georg I, kongungur Stóra Bretlands og Írlands. Mikill styr hafði staðið milli kaþólikka og mótmælenda í Bretlandi í um 30 ár og krýning Georgs virkaði sem olía á þann eld.
Hann ríkti í tæp 13 ár en varð aldrei vinsæll konungur. Með honum flutti ástkona hans Melusine og þrjár óskilgetnar dætur þeirra. Börn konungsins og Sófíu Dóróteu voru þá uppkomin. Georg Augustus flutti til Englands og varð síðar Georg II konungur. Sófía Dórótea yngri giftist Friðriki krónprins Prússlands árið 1706 og varð drottning sjö árum seinna. Hún átti 14 börn, þar á meðal Friðrik mikla Prússakóng. Melusine fékk titilinn hertogaynja af Kendal og bjó með Georgi I líkt og drottning til dauðadags hans árið 1727. Ári áður hafði Sófía Dórótea látist í klefa sínum í Ahlden kastala. Hún hafði þá setið í fangelsi í 33 ár.
Lok ástarsögu?
Michael Klintschar hjá MHH segir um beinin umræddu: „Hversu gömul, við vitum það ekki. Bara að beinin eru eldri en 50 ára og þar af leiðandi ekki innan ramma löggæslunnar.” Ekki er heldur hægt að sjá hver dánarorsökin var, a.m.k. ekki við fyrstu rannsókn. Beinin verða flutt til Georg Albrecht Háskólans í Göttingen þar sem nánari rannsóknir verða gerðar á þeim undir yfirsjón Friedhelm Wulf fornleifafræðings. Það sem meðal annars verður rannsakað er DNA byggingin úr beinavefjunum sem verður borin saman við DNA sýni úr lifandi skyldmennum Filippusar Königsmarck. „Ef þetta eru bein Königsmarck, þá er það ákaflega spennandi.” segir Thomas Schwark safnstjóri Minjasafns Hannover.
Sagan af Filippusi og Sófíu Dóróteu er nefnilega ástarsaga sem hefur hrifið marga í gegnum tíðina, þá sérstaklega vegna ástarbréfanna milli þeirra og örlaga þeirra. Þetta er í raun nokkurs konar „Rómeó og Júlía í raunheimum”, saga um forboðna ást og dauða. Sagan hefur veitt innblástur að nokkrum skáldsögum og kvikmyndum, þar á meðal Saraband for Dead Lovers, breskri kvikmynd frá árinu 1948, sem beinlínis fjallar um atburðina. Það er aftur á móti ekki hægt að fullyrða að beinin séu hans að svo stöddu. Áður en Leineschloss höllin var byggð stóð þar klaustur í meira en 300 ár. Ekki er loku fyrir því skotið að beinin séu af reglubróður frá þeim tíma. En ef þetta er Filippus þá er þetta ákveðinn endir á þessari harmþrungnu ástarsögu. Þá yrði það viðeigandi að beinin yrðu grafin við hlið Sófíu Dóróteu, í bænum Celle norðaustan við Hannover.