Norska félagið Havila Shipping ASA rambar á barmi gjaldþrots. Tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins var hafnað af hópi kröfuhafa þess á föstudag fyrir viku. Fari svo að Havila fari í þrot mun það hafa bein áhrif á tvo íslenska banka, Arion banka og Íslandsbanka, sem lánuðu félaginu samtals 5,7 milljarða króna í lok árs 2013 og á árinu 2014.
Havila lagði fram tillögu til norsku kauphallarinnar þann 9. nóvember síðastliðinn sem fól í sér að samkomulag hefði náðst við stærstu lánveitendur og hluthafa félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu. Samkomulagið fól í sér um 15 prósent endurheimtur krafna og kauprétt á hlutafé. Óveðtryggðir skuldabréfaeigendur Havila höfnuðu hins vegar því samkomulagi fyrir rúmri viku.Í tilkynningu sem Havila sendi frá sér 14. nóvember síðastliðinn kemur fram að ef þeim snúist ekki hugur blasi við gjaldþrot.
Lánuðu milljarða til Havila á síðustu tveimur árum
Íslenskir bankar hafa ekki verið mikið í þvi að lána til erlendra fyrirtækja frá hruni, enda bundnir í höftum og að langstærstu leyti fjármagnaðir með innlánum almennings sem færðir voru til þeirra með handafli neyðarlaganna haustið 2008.
Í lok árs 2013 barst hins vegar tilkynning um að Íslandsbanki hefði tekið þátt í rúmlega sjö milljarða króna sambankaláni til Havila. Nokkrum mánuðum síðar tilkynnti Arion banki að hann hefði sömuleiðis lánað norska félaginu umtalsverða fjárhæð, um 4,5 milljarða króna. Óljóst er hvað olli því að norskt félag á markaði sem hafði gengið mjög vel árum saman fóru að leita til íslenskra banka til að fá fjármögnun. Vextir eru að jafnaði lægri í Noregi en hérlendis þar sem norskir bankar geta fjármagnað sig á alþjóðamörkuðum á hagstæðari kjörum en íslenskir bankar.
Havila, sem á 27 skip sem þjónusta olíuiðnaðinn í Norðursjó, hefur verið eitt af leiðandi félögum í geiranum á undanförnum árum. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið úr um 115 dölum á tunnu í tæpa 47 dali frá sumrinu 2014. Lægst fór það í rétt rúmlega 30 dali. Til að vinnsla á olíu í Norðursjó borgi sig er talið að verðið þurfi að vera um 60 dalir á tunnu.
Lánin færð niður í bókum íslensku bankanna
Íslandsbanki hefur ekki viljað upplýsa um hvert ætlað tap bankans á lánum til Havila er. Í ársreikningi bankans, sem birtur var í febrúar 2016, kom fram að bankinn hefði bókað virðisrýrnun á stöðu sína á lánum til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Ljóst er að sú rýrnun snýr að annars vegar að lánum til Havila og hins vegar til íslenska félagsins Fáfnis Offshore. Í reikningnum kom fram að eitt prósent af útlánasafni bankans var til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Alls voru útlán til viðskiptavina 665,7 milljarðar króna um síðustu áramót og því námu lán til geirans tæpum sjö milljörðum króna.
Í ársreikningi Arion banka fyrir árið 2015 kom fram að bankinn hafði fært verulega varúðarniðurfærslu á lán til erlendra fyrirtækja í þjónustustarfsemi tengdri olíuleit, í kjölfar erfiðleika á þeim markaði, á síðasta ársfjórðungi ársins 2015. Ekki var tilgreint um hversu mikið lánið var fært niður en þar kom hins vegar fram að hrein virðisbreyting lána var 3,1 milljarður króna á árinu. Í afkomutilkynningu Arion banka sagði að niðurfærslurnar séu að mestu vegna lánsins til Havila og á lánum sem bankinn yfirtók frá AFL –sparisjóði á árinu 2015.
Samkvæmt ársreikningi voru lánin sem komu frá AFLi færð niður á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Um þriggja milljarða króna varúðarniðurfærsla var færð á efnahagsreikning bankans á fjórða ársfjórðungi. Sú niðurfærsla er því að mestu leyti vegna lánsins til Havila og ljóst að bankinn reiknar með miklum afföllum vegna þess.