Fólk hefur stytt sér stundir með góðu spili síðan á tímum Forn-Egypta. Lengst af voru það einföld spil á borð við kotru, lúdó og skák en síðar hönnuð spil á borð við Monopoly, Cluedo og Risk. Þegar tölvuleikir komu fram á sjónarsviðið bjuggust flestir við því að tími borðspilanna væri liðinn. Því er þó öfugt farið og bylting hefur átt sér stað innan greinarinnar. Hönnun spila hefur fleygt fram og markaðurinn fer sífellt stækkandi. Nokkur ný borðspil eins og t.d. Settlers of Catan, Carcassonne og Ticket to Ride hafa opnað augu fólks fyrir þessum heim og fæstir verða fyrir vonbrigðum. Nú þegar líður að jólum, mestu spilatíðar ársins, er tilvalið að fá góðar hugmyndir að nokkrum gjöfum.
10. Sheriff of Nottingham
3-5 leikmenn, 60 mín.
Sheriff of Nottingham er kortaspil sem sló í gegn árið 2014. Leikmenn eiga að reyna að koma varningi (eplum, brauði o.fl.) framhjá fógetanum en þeir geta einnig reynt að smygla (pipar, silki o.fl). Leikmenn skiptast á að leika hlutverk fógetans sem reynir að góma þá. Sálfræðiþáttur spilsins er mikill þar sem menn verða að geta haldið andliti og beitt ýmsum brögðum, s.s. mútugreiðslum og samningum. Þetta spil hentar því reyndum póker-spilurum afar vel. Spilið var hannað af tveimur Brasilíumönnum, Sergio Halaban og André Zatz, en áður höfðu þeir hannað tvö keimlík spil. Annars vegar Hart an der Grenze (Vandræði á landamærunum) árið 2006 og Robin Hood árið 2011 en hvorugt spilið náði neinum vinsældum. Félagarnir náðu hins vegar að skapa mikla spennu fyrir Sheriff of Nottingham með hópfjármögnun á heimasíðunni Kickstarter. Það verður hins vegar að segjast að framleiðslan á spilinu er ekki alveg jafn góð og hugmyndin.
9. Descent: Journeys in the Dark
2-5 leikmenn, 120 mín.
Descent er svokallað „dýflissuspil“ (dungeon crawl) frá Fantasy Flight Games, hannað af Kevin Wilson frá árinu 2005. Dýflissuspilin eru beinir afkomendur hlutverkaspila á borð við Dungeons & Dragons sem náðu miklum vinsældum á áttunda og níunda áratugnum. Einn leikmaðurinn leikur dýflissu-meistarann en hinir hetjur sem meistarinn leiðir í gegnum ýmis ævintýri og setur ýmsa tálma og skrímsli í veg þeirra. Descent sker sig þó nokkuð út þar sem meistarinn etur kappi við hetjurnar fremur en að leiða þær. Spilið er ákaflega stórt með mörgum spilabunkum, pappatáknum og plastfígúrum og borðið sjálft minnir á púsluspil. Árið 2012 kom út mikið breytt útgáfa af spilinu þar sem reglurnar voru gerðar mun einfaldari og straumlínulagaðri. Tveim árum seinna kom svo út Imperial Assault sem byggir á nákvæmlega sama kerfi en í Star Wars heiminum.
8. Sushi Go
2-5 leikmenn, 15 mín.
Sushi Go er eldsnöggt kortaspil sem kom út árið 2013 og var hannað af Ástralanum Phil Walker-Harding. Spilið er lítið, aðeins einn 108 spila bunki, og teikningarnar á spilunum eru mínímalískar og einfaldar. Eins og titillinn gefur til kynna þá er þemað sushi matargerð en það skiptir í raun litlu máli fyrir sjálft spilið. Leikmenn fá 8 spil á hendi, velja eitt og láta leikmann á vinstri hönd hafa rest. Síðan leggja allir spilið niður og velja svo úr þeim 7 spilum sem þeir fengu frá sessunaut sínum. Svona gengur þetta koll af kolli. Takmarkið er að safna settum og samsetningum af sushi réttum sem gefa sem flest stig og spilað er í samanlagt 3 umferðir. Þessi aðferð er ekki ný af nálinni. Þekktasta spilið með þessari aðferð er mjög svo vinsæla 7 Wonders frá árinu 2010. Sushi Go er hins vegar mun einfaldara spil sem hver sem er getur lært á örfáum mínútum. Sushi Go Party, sem er útgáfa með fleiri samsetningum af réttum, kom út á þessu ári.
7. Varúlfur
8-? leikmenn, 60 mín (fer eftir fjölda)
Varúlfur er partíleikur sem varð til í Moskvu-háskóla árið 1986 eða 1987. Þá hét hann reyndar Mafía en þegar hann barst til Vesturlanda um miðjan tíunda áratuginn var varúlfaþemanu breitt yfir hann. Leikurinn er fyrir fjölmennan hóp, helst fleiri en 10, sem skiptist í þorpsbúa og varúlfa auk sögumanns sem tekur ekki beinan þátt. Varúlfarnir drepa þorpsbúana þegar þeir sjá ekki til og þorpsbúarnir reyna að komast að því hverjir séu varúlfar og hengja þá. Sumir þorpsbúar hafa sérstaka og dulda hæfileika s.s. veiðimaðurinn, elskendurnir og litla stúlkan. Hægt er að nota einfaldan spilastokk eða handskrifaða miða til að spila Varúlf en skemmtilegra er að spila með útgefnum stokkum. Margar gerðir eru fáanlegar eins og t.d. The Werewolves of Miller´s Hollow og Ultimate Werewolf . Helsta vandamálið við Varúlf er að finna nógu marga leikmenn. Lausnin við því er fólgin í spilinu The Resistance sem er mjög svipað og Varúlfur en fyrir aðeins 5-10 leikmenn.
6. Battlestar Galactica
3-6 leikmenn, 180 mín.
Battlestar Galactica er gert eftir samnefndri geimþáttaröð sem sýnd var á árunum 2003-2010 og var endurgerð af eldri seríu. Eldri serían var algjört flopp en sú nýrri naut töluverðra vinsælda og hefur enn mikið költ-fylgi. Borðspilið er samvinnuspil þar sem leikmenn reyna að koma geimskipinu Galactica til Jarðar framhjá vígasveitum sjálfsmeðvitaðra vélmenna (Cylona) sem hafa tortímt öllu öðru fólki. Það sem gerir spilið svo athyglisvert er það að 1-2 leikmenn eru duldir Cylonar og takmark þeirra er að skemma fyrir flóttanum og granda geimskipinu. Þetta gerir það verkum að traust milli leikmanna er afar lítið og oft grípur um sig hrein og klár vænisýki. Ásakanir fljúga og Cylonarnir verða því að fara mjög leynt með skemmdarverk sín. Yfirleitt eru borðspil sem byggja á kvikmyndum eða þáttum ekki hátt skrifuð. En Battlestar Galactica var hannað af hinum virta Corey Konieczka og gefið út hjá Fantasy Flight Games sem er leiðandi borðspilaframleiðandi. Spilið nýtur því enn mikillar hylli.
5. King of Tokyo
2-6 leikmenn, 30 mín.
King of Tokyo hefur verið kallað nokkurs konar „bardaga-Yahtzee“. Þetta er teningaspil þar sem leikmenn leika risavaxin skrímsli sem bítast um það að fá að leggja japönsku höfuðborgina í rúst. Þemað í spilinu er augljóslega fengið frá kvikmyndum á borð við King Kong og Godzilla. Leikmenn geta unnið með því að safna stigum eða drepa öll hin skrímslin (sem er algengara og skemmtilegra). King of Tokyo er hugverk Richard Garfield, sem er best þekktur fyrir kortaspilið lífseiga Magic: The Gathering, og hefur farið sigurför um heiminn síðan það kom út árið 2011. Árið 2014 gaf hann út King of New York sem byggir á sama grunni en er aðeins flóknara og lengra. Það hefur hins vegar ekki náð sömu vinsældum og forverinn. Einfaldleikinn og hraðinn er nefnilega galdurinn við King of Tokyo. Um leið og fyrsta spilið er búið langar manni að spila strax aftur.
4. Small World
2-5 leikmenn, 80 mín.
Belgíski hönnuðurinn Philippe Keysaerts gaf út Small World árið 2009. Fólk tók strax eftir því þetta var eitt litríkasta og fallegasta borðspil sem til út hafði komið. Það var teiknað af franska listamanninum Miguel Coimbra og gefið út hjá Days of Wonder sem eru þekktir fyrir að gefa út fá en mjög vönduð borðspil. Kerfi spilsins var þó ekki nýtt af nálinni því Keysaerts hafði sjálfur gefið út sams konar spil 10 árum áður undir nafninu Vinci en við tiltölulega hógværar undirtektir. Bæði spilin eru landvinninga stríðsspil þar sem leikmenn velja sér heri með tvenna sérstaka hæfileika. Leikmenn geta svo skipt út þessum herjum fyrir nýja tvennu. Munurinn liggur helst í þemanu, þ.e. Vinci var með fornaldarþema á meðan Small World er með klassískt fantasíuþema. Days of Wonder hafa fylgt velgengni Small World eftir með mörgum viðbótum og einstaklega vel heppnuðu smáforriti fyrir síma og spjaldtölvur.
3. Spartacus: A Game of Blood & Treachery
3-4 leikmenn, 150 mín.
Þegar Spartacus kom út árið 2012, frá hinni lítt þekktu spilaútgáfu Gale Force Nine, höfðu fáir trú á því að um gæðagrip væri að ræða. Spilið er byggt á þáttaröð um skylmingaþrælinn fræga sem sýnd var á árunum 2010-2013 og einkenndust af hömlulausu ofbeldi, ljótum munnsöfnuði og nekt. Það besta við þættina var þó allt baktjaldamakkið og það skilar sér vel í spilinu. Leikmenn taka sér hlutverk þrælahaldara og reyna að komast á toppinn í metorðastiga hringleikahússins. Spilið skiptist í nokkra fasa, s.s. uppboð, verslun, ráðabrugg, bardaga og veðmál, sem er einn helsti kosturinn við það. Spilið er ekki bara spennuþrungið og dramatískt heldur einnig margslungið og fjölbreytilegt. Í spilinu taka leikmenn miklar áhættur og nóg er af tækifærum til að sína af sér virkilega svínslega hegðun. Þetta er því ekki spil fyrir auðsært fólk. Spartacus hefur ekki fengið mjög mikla útbreiðslu en þeir sem hafa prófað það bera því góða söguna.
2. Arkham Horror
1-8 leikmenn, 180 mín.
Fyrsta útgáfa Arkham Horror kom út árið 1987 en fékk litla dreifingu, enda markaðurinn þá í skötulíki. En þegar að Fantasy Flight Games keyptu réttinn og gáfu spilið aftur út árið 2005 hófst bylgja sem ekki sér fyrir endann á. Richard Launius hannaði spilið sem er byggt á verkum rithöfundarins H.P. Lovecraft og er í raun mun líkara hlutverkaspili en hefðbundnu borðspili. Sögusviðið er Massachusetts á þriðja áratug seinustu aldar og leikmenn vinna saman að því að sigrast á skrímslum sem koma frá öðrum víddum. Spilið er sjálft orðið að hálfgerðu skrímsli hvað varðar stærð og magn spilamuna, sérstaklega eftir að 8 viðbætur bættust við. Það krefst því bæði mikils undirbúnings, tíma, einbeitingar, þolinmæðar, veitinga og borðpláss. Að kljást við Cthulhu og félaga er því ekki fyrir hvern sem er. Ef af fólki langar til að fá nasaþefinn af Arkham Horror þá eru til einfaldari spil með sama þema, t.d. Elder Sign og Eldritch Horror.
1. Pandemic
1-4 leikmenn, 60 mín.
Pandemic hefur notið mikilla vinsælda síðan það kom út árið 2008 og er í dag þekktasta samvinnuspilið. Leikmenn bregða sér í hlutverk heilbrigðisstarfsfólks (lækna, vísindamanna, viðbragðsaðila o.fl) og vinna saman sem teymi við það að kljást við stórhættulega og bráðsmitandi faraldssjúkdóma sem herja á heiminn. Annað hvort nær teymið að hefta útbreiðsluna og finna lækningu eða að allir jarðarbúar farast. Pandemic minnir nokkuð á púsluspil eða þraut og því er vel hægt að spila það einsamall/einsömul líkt og kapal. Vinsældir spilsins má að miklu leyti rekja til hversu einfalt og aðgengilegt það er. Höfundurinn Matt Leacock hefur fylgt velgengninni eftir og hannað fleiri einföld samvinnuspil sem einnig hafa náð þó nokkrum vinsældum, s.s. Forbidden Island og Forbidden Desert. Einnig hafa komið út fleiri útgáfur af Pandemic, s.s. The Cure sem er teningaútgáfa og Contagion þar sem taflinu er snúið við og leikmenn leika sjúkdómana sjálfa.