Er bylgja þjóðernissinna handan við hornið í Evrópu?

Bryndís Ísfold rýnir í dínamískar breytingar á landslagi alþjóðastjórnmála.

Le Pen
Auglýsing

Kjör Donald Trump sem forseta Bandaríkjanna og auknar vinsældir þjóðernissinnaðra stjórnmálamanna og flokka í fjölda ríkja þar sem kosningar eru fram undan vekja upp spurningar um hvaða breytingar kunni að vera fram undan í stjórnmálum í Evrópu.  Með nýjum leiðtogum koma ávallt nýjar áherslur, en ef hvert landið á fætur öðru velur sér leiðtoga sem vilja draga úr samvinnu við önnur ríki er áratuga samstarf líkt og NATÓ, ESB og Sameinuðu Þjóðanna líklegt til að hafa minna vægi, í náinni framtíð - ef fer sem horfir.  Áhersla á andúð gagnvart innflytjendum, alþjóðastofnanir ásamt upphafningu á þjóðlegum gildum sem og kristinni trú eru þekkt stef í slíkum framboðum. Flest þeirra framboða sem nú sækja í sig veðrið í Evrópu leggja ríka áherslu á einmitt þessa þætti.

En hvaða frambjóðendur eru þetta, hvaða líkur eru á því að þeir nái árangri - og hvenær er kosið í þessum löndum? Verður þjóðernissinninn Norbert Hofer forseti Austurríkis á sunnudag?

Forsetakosningar í Austurríki 4. desember 2016

Þessa dagana horfa margir til Austurríkis þar sem möguleiki er á því að fyrsti þjóðernissinnaði hægri- öfgaframbjóðandinn gæti orðið forseti og yrði hann þá fyrsti þjóðarleiðtoginn innan ESB með þessar skoðanir. Hafi hann sigur úr bítum telja margir stjórnmálaskýrendur að það gæti hrundið af stað bylgju af svipuðum sigrum víðar í Evrópu.

Auglýsing

Í þessum kosningum tefla tveir forsetaframbjóðendur fram í þriðja sinn í sömu kosningum. Þetta eru þeir Alexander Van der Bellen, sem býður fram án stjórnmálaflokks en er meðlimur í Græningjaflokknum og svo þjóðernis og hægri- öfgamaðurinn Norbert Hofer, sem tilheyrir Frelsisflokki Austurríkis. Frelsisflokkurinn var stofnaður árið 1955 af þekktum nasista og hefur flokkurinn ávallt verið með harða innflytjendastefnu. Tugþúsundir flóttamanna hafa nú sótt um hæli í Austurríki, líkt og víða um Evrópu og telur Hofer að innflytjendur muni skemma félagslegt kerfi landsins og hefur jafnvel varað við því að borgarastyrjöld gæti brotist út ef innflytjendum haldi áfram að fjölga.

Bæði Hofer og Van der Bellen kepptu við tvo aðra frambjóðendur í upphafi, sem tilheyra núverandi stjórnarflokkunum tveim en hinir lentu í þriðja og fjórða sæti.  Hofer varð efstur og Van der Bellen númer tvö. Þar sem hvorugur fékk yfir 50 prósent atkvæða er samkvæmt lögum kosið að nýju milli tveggja efstu frambjóðendanna.  Þær kosningar hafa þegar farið fram og sigraði Van der Bellen þær í apríl. Hins vegar var sú kosning var dæmd ógild af hæstarétti landsins í maí síðastliðinn vegna þess að meðhöndlun póstkosningaatkvæða þótti ekki samræmast lögum landsins.

Því er kosið í þriðja sinn, nú þann fjórða desember eða á sunnudaginn næstkomandi.  Benda kannanir til þess að Hofer og Van der Bellen séu hnífjafnir.  Embætti forseta í Austurríki er ekki ósvipað og því íslenska, situr þó forseti í sex ár hefur aðeins möguleika á að bjóða sig fram  tvisvar. Hingað til hefur sá forseti sem situr í embætti aldrei tapað kosningum. Forseti landsins hefur getur m.a. hafnað því að staðfesta lög en er að mestu einskonar þjóðhöfðingi og oftast nær mjög vinsæll og áhrifamikill.

Hofer hefur í kosningabaráttu sinni hótað að hafna ákveðnum lögum frá ESB og segist sjálfur ætla að mæta sjálfur á ESB fundi fyrir hönd ríkissins, þó það sé almennt ekki hlutverk forseta. Sem forseti getur hann komið því þannig fyrir að kosið verður til þingkosninga áður en kjörtímabili þingsins lýkur og  telja fréttaskýrendur það geta orðið til þess að brjóta á bak aftur þá miðflokka samsteypustjórn sem er mjög hlynnt ESB,  þar sem óánægja með ESB innan landsins er ein sú mesta af aðildarríkjunum sambandsins.  Hofer er yfirlýstur aðdáandi Margrétar Thatcher en á sjálfur aðdáendur í hópi þekktra þjóðernisleiðtoga í öðrum löndum svo sem Marine Le Pen, formanns franska þjóðernisflokksins.  

Sex milljónir og þrjú hundruð þúsund eru á kjörskrá, benda síðustu kannanir til þess að Hofer hafi yfirhöndina með 50.3% en Van der Bellen 49.7%.   

Spenna í Frakklandi

Á nýju ári er svo gert ráð fyrir kosningum í apríl til þings í Frakklandi, sem einnig eru forsetakosningar.  Efnahagsleg staða Frakklands hefur verið dræm síðustu árin. Atvinnuleysi er mikið og þá hefur mikill fjöldi flóttamanna, aðþrengd millistétt sem og uggvænlegar hryðjuverkaárásir ýtt undir velgengni þjóðernissinnaðri og íhaldssamari afla.  Núverandi forseti landsins, Hollande, sem tilheyrir sósíalistum er afar óvinsæll og óvíst hvort hann fari fram á ný.  Beinast því sjónir fólks að íhaldsflokknum og þjóðernisflokki Marine le Pen, Þjóðfylkingarinnar, fyrir komandi kosningar.  Bæði leggja þau áherslu á afturhvarf til fortíðar og leggja áherslu á ,,kristin gildi” gegn fjölmenningu og fjölbreytilegu samfélagi, sem í raun einkennir þó samsetningu franska þjóð í dag.  Aðrir frambjóðendur er ekki taldir líklegir til að ná í gegn í seinni umferð, nema mögulega ef sósíalistar velji annan frambjóðanda en Hollande.Síðasta sunnudag sigraði Francois Fillon í prófkjöri íhaldsflokksins. Fillon þykir líklegur til að valda töluverðum straumhvörfum í franskri pólitík, en hann hefur lagt til að skera niður 500 þúsund störf í opinbera geiranum, fella úr gildi löggjöf um 35 klukkustunda vinnuviku, hækka eftirlaunaaldur og draga úr sköttum á þá efnameiri. Fillon, sem er kaþólskur er einnig á móti fóstureyðingum og giftingu samkynheigðra.   Þá vill hann betri samskipti við Rússa þegar kemur að utanríkismálum.

Fillon hefur verið í stjórnmálum frá unga aldri en hann var kjörinn á þing 27 ára gamall. Siðan þá hefur hann verið í hinum ýmsu stöðum, meðal annars var hann forsætisráðherra 2007 - 2012 fyrir Nicolas Sarkozy þáverandi forseta.

Marine Le Pen er frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar til forseta, en hún er enginn nýgræðingur í stjórnmálum, hún hefur verið í stjórnmálum frá árinu 1986 og starfað bæði í sveitastjórnum, í héraðsstjórn og hefur verið áhrifamikill þingmaður á Evrópuþinginu.  Hún tók við formennsku flokksins af föður sínum Jean- Marie Le Pen árið 2011 en faðir hennar var formaður í nær 40 ár.

Í síðustu forsetakosningum fékk hún 17.9% atkvæða gegn núverandi forseta, Francois Hollande og Nicolas Sarkozy þáverandi forseta. Stjórnmálaskoðanir Le Pen eru ekki ósvipaðar skoðunum föður hennar hennar. Hins vegar hafa breyttar aðstæður í Frakklandi gert það að verkum að þessar skoðanir hafa hlotið meiri hljómgrunn en áður.  Óvæntur sigur Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum hefur orðið til þess að Le Pen er talin eiga enn frekar möguleika en áður og sjálf líkir hún ástæðunni fyrir árangri Trumps við auknar vinsældir sínar. Nái hún kjöri hefur hún heitið því að Frakkar fái að kjósa um hvort þeir vilji yfirgefa Evrópusambandið og óttast margir að ef Frakkar ákveða að yfirgefa sambandið, verði það hreinlega að náðarhöggi sambandsins.  Le Pen er harður andstæðingur Evrópusambandsins og myndi berjast fyrir útgöngu Frakklands.  Athygli vakti þegar rússneskir bankar veittu Þjóðfylkingunni lán til að fjármagna kosningabaráttu flokksins, en andstæðingar Le Pen hafa sakað hana um að þiggja greiðslu fyrir að hafa stutt innrás Rússa á Krímskaga. Hún hefur þverneitað fyrir það.

Sjálf hefur Le Pen sagt að verði hún forseti verði Frakkland ekki land fjölmenningar, heldur verði menningin og gildin frönsk. Á dögunum sagði hún á CNN að sigur Trump væri dæmi um von fyrir þá sem þyldu ekki alþjóðavæðinguna og stjórnmál sem væri stýrt af elítum.  En eins og Trump, skilgreinir hún sig utan elítunnar og málsvara fólksins, þrátt fyrir að hafa hálfpartinn erft embættið sitt og nær eingöngu starfað í stjórnmálum allt sitt líf.

Le Pen hefur ítrekað látið hafa eftir sér rasísk ummæli og var hún nýverið dregin fyrir dóm í Lyon fyrir hatursumræðu. Þá hafði hún borið bænir múslima á götum úti saman við hernám nasista. Faðir hennar hefur gengið enn lengra í ummælum sínum og m.a. sagt að gasklefar í útrýmingarbúðum nasista hafi verið smáatriði í seinni heimsstyrjöldinni, en þau ummæli vöktu mikla reiði.  Hún hefur sjálf afneitað þessu, en haldið sig við sín eigin umdeildu ummæli í garð múslima og annarra minnihlutahópa. Þrátt að vera ekki langt frá föður sínum í skoðunum tók hún ,,til” í flokknum þegar hún tók við völdum og fengu allra öfgafyllstu meðlimir flokksins að fjúka. Síðan þá hefur hún einnig fært efnahagslegar áherslur sínar meira til vinstri og leggur nú áherslu á að lágmarkslaun hækki, hún lofar að berjast gegn alþjóðlegum stórfyrirtækjum og rifta alþjóðlegum viðskiptasamningum.  Þessi stefna hennar á mjög margt sammerkt með stefnu Trumps.

Kosið verður í fyrstu umferð kosninganna þann 23. apríl næstkomandi og seinni umferð verður svo 7 maí og voru síðast þegar kosið var 46 milljónir á kjörskrá.  Nýjustu kannanir sýna að nýr frambjóðandi Íhaldsflokksins, Fillon myndi sigra Þjóðfylkingu Le Pen með 66% gegn 34% nái þau bæði í seinni lotu kosninganna.  Í fyrri lotu myndi Fillon vera með milli 28-31 prósent og Le Pen um 23 -25 prósent.  Enn eru þó sex mánuðir til kosninga og varhugavert að treysta könnunum um of eftir að þær sáu hvorki fyrir Brexit né sigur Trump.  

Hvað gerist í Þýskalandi?

Frauke Petry frá Alternative í Þýskalandi er 41 árs gömul viðskiptakona með doktorsgráðu í efnafræði.  Hún er formaður Alternative flokksins, sem var stofnaður árið 2013 og mælist nú þriðji stærsti flokkurinn í Þýskalandi með 12,2%. En flokknum gekk betur í kosningum til sveitastjórna fyrr á árinu og endaði með ríflega þar sem flokkur Angelu Merker fékk lélega útkomu. Alternative er öfga- hægrisinnaður flokkur sem leggur mikla áherslu á afturhvarf til ,,þýskra gilda”. Þau eru á móti fjölmenningu í Þýskalandi og vilja láta loka landamærunum enn frekar. Þrátt fyrir að vera tortryggin á Evrópusambands aðild Þýskalands hafa þau ekki lagt til að landið segi sig frá sambandinu.  Flokkurinn vill líkt og margir systurflokkar hans láta banna slæður á opinberum vettvangi, sem og önnur trúarleg tákn múslima.

Þau leggja einnig áherslu gamaldags hlutverkaskiptingu kynjanna inn á heimilunum og trúa ekki á að hlýnun jarðar sé af manna völdum.

Þó enn sé tæpt ár til kosninga í Þýskalandi hafa mótmæli og andúð á þeim fjölda flóttamanna sem komið hafa til landsins nú verið hjá ákveðnum hópum orðið til þess að sjónarmið Alternative hafa fengið hljómgrunn.  Hinn breiði faðmur Angelu Merkel, sem hefur vakið aðdáun jafnt innan lands sem utan hjá þeim fjölda flóttamanna sem hefur streymt til Evrópu, hefur þrátt fyrir ekki skilað henni auknum vinsældum heima fyrir. Flokkurinn hefur tapað um tíu prósentustigum og er nú með um 34% samkvæmt könnunum. Sósíal- Demókratar eru með um 24%, Græningjar með um 10% og því enn langt í land að þjóðernisflokkurinn Alternative taki yfir kanslaraembættið, en ef vika er langur tími í pólitík - hlýtur allt að geta gerst á tæpu ári.

Síðast þegar kosið var í Þýskalandi voru tæplega sjötíu milljónir á kjörskrá.

Hverjir verða í öryggisráðinu?

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samanstendur af fimm ríkjum sem eiga fast sæti: Kína, Frakkland, Rússland, Bretland og Bandaríkin auk tíu annarra ríkja sem fá sæti tímabundið og sitja þau ríki í tvö ár í senn.

Ef þær þjóðernis- og/eða hægri- öfgahreyfingar sem nú eiga möguleika á sigri í þessum ríkjum ná árangri líkt og gerst hefur í Bretlandi og Bandaríkjunum, má ætla að leiðtogar þessara ríkja verði: Xi Jinping, leiðtogi Kína, Marine Le Pen eða Francois Fillon þá forseti Frakklands, Vladimir Pútin forseti Rússlands, Theresa May forsætisráðherra Bretlands og Donald Trump forseti Bandaríkjanna.

Nýir leiðtogar taka við

Þjóðernissinnar eiga það sammerkt að eiga möguleika á fylgisaukningu þegar kjósendur telja á rétt sinn sé gengið, gremju við mikilli samsöfnun auðs á fárra hendur síðust áratugi og þegar millistéttinni finnst að sér þrengt.  Hin mikli straumur flóttamanna frá Sýrlandi og öðrum ríkjum veldur einnig töluverðum vanda víða þar sem fyrir er atvinnuleysi og óánægja með núverandi stjórnvöld.  Til viðbótar við þetta bætist svo hin efnahagslega kreppa sem reið yfir heiminn ekki fyrir svo löngu og nýlega hryðjuverkaárásir á óbreytta borgara.  

Athygli vekur að loforð þeirra eru oft ómögulegt að uppfylla. Til dæmis loforð Trump um að reisa múr við landamæri Mexíkó, loforð þýska Alternative að herða eftirlit við landamæri Þýskalands en fara ekki úr ESB og svo áhersla á vinarlegri samskipti við Rússland, á meðan öll þessi lönd sem um ræðir hafa sett viðskiptabann á eftir innrás Rússa inn í Úkraínu.

En afturhvarf til fortíðar er hins vegar í senn ógjörningur og í raun væri það ekki afturhvarf til betri tíma líkt og leiðtogarnir eiga sammerkt að vísa til.  Því hagfræðitölur sýna að fleiri njóta nú bæði betri kjara og tækifæra nær öllum í þeim ríkjum sem um ræðir en fyrr á tímum. Þó vissulega hafi bilið milli þeirra ríkustu og hinna aukist með ólíkindum.

Hvernig þeir leiðtogar sem nú stíga fram ætla hins vegar að róa til baka hinu alþjóðlega viðskiptahagkerfi, einangra ríki sín og auka þannig efnahagslegan ábata þjóðarinnar er mörgum hagfræðingnum hulin ráðgáta. Þó svo sannarlega mætti bæta kerfin og gera þau sanngjarnari, svo ágóðanum sé skipt jafnar verður ekki fram hjá því litið að þessi hagkerfi byggja nú á hinu alþjóðlega kerfi sem gengur út á viðskiptasamninga milli ríkja.

En þessar áherslur, í bland við óttablandið hatur í garð ákveðinna hópa sem fyrir löngu eru orðnir hluti af þessum samfélögum, sumir hverjir þriðja eða fjórða kynslóð innflytjenda, er eingöngu til þess fallnar að auka vanda þessa ríkja, ekki bæta úr honum.   Ákallið á málsvara alþýðunnar, sem tilheyrir ekki elítunni er hávært í Evrópu sem og í Bandaríkjunum.  Það er þetta ákall sem býr til tómarrúmið sem popúlískir þjóðernissinnar fylla nú upp í hverju ríkinu á fætur öðru og stefna áratugatuga löngu uppbyggingarferli álfunar eftir seinna stríð í hættu.

Eina leiðin til að afstýra þessu er að hófsamari öfl nái talsambandi við breiðari hóp kjósenda. Að þau svari kallinu með því að sýna í verki að þau séu málsvarar fólksins, en ekki leiksoppar hins alþjóðlega kerfis og elítunnar -og reyni að vinna traust kjósenda á ný. Því þó svo kjörsókn í þessum ríkjum fari ört minnkandi, þá er alltaf hægt að treysta því að þeir sem vilja breytingar – þeir mæta og kjósa.

Fylgi þjóðernisflokka víða um Evrópu í síðustu þingkosningum ríkjanna 

 • Sweden Democrats: 13%
 • The Finns: 18%
 • Danske Folkeparti: 21%
 • Freedom Party í Hollandi: 10%
 • Alternative for Germany: 4.7%
 • Freedom Party í Austurríki: 35.1%
 • National Front: 14%
 • Swiss People’s Party: 29%
 • Jobbik í Ungverjalandi: 21%
 • Northern League í Ítalíu: 4%
 • ELAM í Kýpur: 3.7%
 • Golden Dawn í Grikklandi: 7%

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None