Kínverskur auðmaður lætur framleiða, og selur í stórum stíl, kubba sem eru nákvæm eftirlíking hinna heimsþekktu dönsku LEGO kubba. Kínversku kubbarnir heita LEPIN og kubbakassarnir eru nákvæmlega eins og LEGO-kassarnir, gulir og rauðir. LEGO hefur stefnt auðmanninum, málaferlin hófust fyrir nokkrum dögum.
LEGO-fyrirtækið er næst stærsti leikfangaframleiðandi heims, aðeins Mattel fyrirtækið er stærra. Vörumerki LEGO er sömuleiðis eitt hið þekktasta í heimi, „allir þekkja LEGO“ er slagorð sem fyrirtækið notar iðulega. LEGO-kubbarnir komu á markaðinn 1949 og hafa verið framleiddir nær óbreyttir allar götur síðan. Kubbarnir eru einhver vinsælustu leikföng barna um víða veröld og þótt sífellt komi ný leikföng á markaðinn er alltaf jafn gaman „að kubba”. Vöruúrvalið hjá LEGO er margfalt meira en var í upphafi en grunnhugmyndin er alltaf sú sama, að raða saman kubbum og möguleikarnir nær óteljandi. Starfsmenn LEGO eru tæplega 16 þúsund.
Margir hafa reynt að framleiða eftirlíkingar
Árið 1958 fékk LEGO einkaleyfi á því sem fyrirtækið kallaði „kassalaga einingar sem hægt er að raða saman”. LEGO hefur alla tíð notað gæðaplast í kubbana og framleiðslan ætíð verið á hendi fyrirtækisins sjálfs, eina undantekningin er verksmiðjan á Reykjalundi sem fékk sérstakt framleiðsluleyfi um nokkurra ára skeið (þeir kubbar eru safngripir!).
Á undanförnum árum hafa margir reynt að framleiða eftirlíkingar af LEGO-kubbunum. LEGO-fyrirtækið hefur fylgst nákvæmlega með öllum slíkum tilraunum og hefur beitt öllum tiltækum ráðum til að stöðva, eða koma í veg fyrir, framleiðsluna og höfðað tugi mála til að verja einkaleyfið. Margir hafa líka reynt að tengja vörur sínar, jafnvel bari og kaffihús, með einhverjum hætti við LEGO en þá hafa lögmenn fyrirtækisins brugðist hart við. Og nær alltaf haft betur.
LEGO í Kína
Á ársfundi LEGO 2013 var greint frá því að fyrirtækið hygði á mikla sókn í Asíu, einkum Kína. LEGO myndi reisa verksmiðju skammt frá Shanghai. Áætlaður starfsmannafjöldi tvö þúsund manns, til að byrja með. Miklu púðri hefur verið eytt í kynningarstarfsemi í Kína og á ársfundi LEGO á síðasta ári kom fram að kynningarstarfið væri farið að skila sér, salan í Kína hefði margfaldast.
Ma Yun eða Jack Ma
Kannski hljóma þessi tvö nöfn ekki kunnuglega. Þau tilheyra reyndar bæði sama manninum. Kínverskum auðmanni sem stofnaði fyrirtækið Alibaba og síðar netsölufyrirtækið AliExpress, sem er hið stærsta sinnar tegundar í heiminum í dag. Ma Yun er 52 ára, fæddur og uppalinn í borginni Hangzhou í austur Kína. Hann lærði ensku með því að umgangast erlenda ferðamenn, þeir áttu erfitt með kínverska framburðinn á nafni hans og því kallaði hann sig Jack Ma sem var auðveldara. Það er nú viðskiptanafn hans.
Ma Yun, eða Jack Ma sagði frá því í viðtali að sem ungum manni hefði sér gengið illa að fá vinnu. Sem dæmi um þetta nefndi hann að löggan hefði ekki viljað sig, sagt að hann væri vonlaus. Hann fékk heldur ekki vinnu hjá Kentucky Fried Chicken-fyrirtækinu, hinir tuttugu og þrír umsækjendurnir voru allir ráðnir. En hann kom undir sig fótunum, eins og sagt er, og er nú í hópi ríkustu manna heims.
LEPIN eða LEGO
Áhugi Kínverja á LEGO fór ekki framhjá Jack Ma. Honum þótti verðið á kubbunum frekar hátt og sá í hendi sér að hægt væri að framleiða þá og selja á mun lægra verði en LEGO-kubbana. Jack Ma var ekki í vandræðum með að finna kínverska framleiðendur sem uppfylltu gæðakröfur hans og gátu framleitt kubbana á viðunandi verði. Jack Ma vissi að hann gæti ekki kallað sína kubba LEGO en það var nú ekki stórmál, bara að kubbarnir væru sem líkastir fyrirmyndinni og umbúðirnar líka. Og kubbarnir eru mjög líkir, nánast alveg eins að sögn kubbasérfræðinga. Þetta með nafnið þvældist heldur ekki fyrir Jack Ma, eða Ma Yun. Kubbarnir fengu nafnið LEPIN, letrið á umbúðunum er nákvæmlega eins og á LEGO kössunum. Og LEPIN-kubbarnir kosta helmingi minna en LEGO og hafa selst vel. En hafi Jack Ma haldið að LEGO myndi ekki hafast að skjátlaðist honum illilega. Þar á bæ biðu menn ekki átekta.
Málaferli
Í júní síðastliðnum byrjuðu lögfræðingar LEGO að undirbúa málaferlin. Þeir eru ekki nýgræðingar á þessu sviði og þekkja vel til í kínverskum lagafrumskógum. Sjálf málaferlin hófust fyrir nokkrum dögum en ekki er búist við að niðurstaða fáist fyrr en seint á næsta ári, jafnvel enn síðar. Þangað til getur Jack Ma selt LEPIN-kubbana án þess að LEGO-fyrirtækið fái nokkuð að gert.