Önnur tilraun flokkanna fimm, Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Samfylkingarinnar, til að mynda ríkisstjórn, fór út um þúfur í gær. Birgitta Jónsdóttir greindi Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, frá þessu og missti hún stjórnarmyndunarumboðið í kjölfarið.
Áður hafði tilraun Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, ekki gengið upp. Bjarni Benediktsson náði heldur ekki að mynda stjórn með Bjartri framtíð og Viðreisn, eftir að hafa fengið umboð fyrstur stjórnmálaleiðtoga, og því hafa þrjár tilraunir runnið út í sandinn. Viðræður flokka hafa ekki skilað neinu í sex vikur. Stjórnarkreppa er staðreynd og hefur forsetinn gefið flokkunum vikuna til að reyna að ná saman um myndun ríkisstjórnar.
Greina mátti skarpan tón í yfirlýsingu forsetans í gær þar sem hann sagði stöðuna vera alvarlega. „Í dag hef ég rætt við formenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. Rúmar sex vikur eru liðnar frá kosningum þegar ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar missti meirihluta sinn á þingi og hann baðst lausnar fyrir hönd þess. Nú hafa formenn eða fulltrúar þriggja stærstu flokkanna á Alþingi allir haft umboð forseta til stjórnarmyndunar. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar og reyndar. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komu í viðræðum mínum við flokksleiðtoga í dag hef ég ákveðið að veita engum þeirra umboð til stjórnarmyndunar að sinni. Þess í stað hvatti ég þá til að ráða ráðum sínum og kanna með óformlegum viðræðum sín á milli hvaða leiðir eru enn mögulegar til myndunar ríkisstjórnar sem njóti meirihlutastuðnings á Alþingi eða geti að minnsta kosti varist þar vantrausti,“ sagði Guðni í yfirlýsingu sinni.
Ólíkar áherslur í mörgum málaflokkum
Viðmælendur Kjarnans í flokkunum fimm, bæði á meðal þingmanna og í baklandi þeirra, voru hver með sína skýringu á því hvernig fór en ljóst er að nokkrir málaflokkar reyndust snúnari en aðrir í viðræðunum. Sérstaklega voru þetta almennar áherslur í ríkisfjármálunum og hvernig þær ættu að vera og síðan hugmyndir um breytingar í rótgrónu atvinnuvegunum tveimur, landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Ástæða þess að stjórnarmyndunarviðræðurnar fór út um þúfur í þetta skiptið var helst sú að áherslur flokkanna voru - vítt og breitt - of ólíkar í of mörgum málaflokkum þegar á hólminn var komið. Að vissu leyti fyrirsjáanlegur vandi, þegar fimm ólíkir flokkar eru annars vegar, og það kom á daginn að þetta reyndist erfitt.
Forystufólkið sá lokum ekki ljós við enda ganganna og því var viðræðunum hætt og tilkynntu Píratar forseta Íslands það. Allir flokkar voru þó sammála um að forgangsraða í þágu heilbrigðismála, menntamála og innviðafjárfestinga í landinu, og þá var einnig búið að ná sátt um mál sem snéru að Evrópusambandinu og endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Sátt um útfærslur í ríkisfjármálum, það er hvernig átti að fjármagna aukin framlög til fyrrnefndra málaflokka, náðist ekki fram og var sérstaklega meiningarmunur milli Vinstri grænna og Viðreisnar í þeim efnum. Flokkarnir vildu þó báðir halda sig við markmið ríkisfjármálaáætlunar, um að skila ríkulegum afgangi af rekstri ríkissjóðs. Vinstri græn vildu fjármagna aukin framlög til heilbrigðis- og menntamála með hátekju- og auðlegðarsköttum, en ekki náðist sátt um útfærslur þegar að þessu kom.
Sjávarútvegur og landbúnaður þrætuepli
Í viðræðunum var rætt töluvert um uppboðsleið í sjávarútvegi og hvernig mætti útfæra hana. Nokkur samhljómur er í stefnu Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar í þessum efnum, og sama má segja um Pírata. Vinstri græn sögðust opin fyrir uppboðsleið, líkt og kom fram í stefnu flokksins fyrir kosningar, en umræður snérust um útfærslur ekki síst.
Meðal annars var rætt um að setja hluta af aflahlutdeild hvers árs á markað og voru hugmyndir um 3 til 5 prósent af heildinni ræddar og með endurráðstöfunartíma frá 20 til 33 árum. Þá var einnig rætt um veiðigjöld og hvernig mætti leggja þau á og hverju þau gætu skilað í ríkissjóð, án þess að kippa stoðunum undan byggð á þeim stöðum í landinu þar sem sjávarútvegur er hryggjarstykkið í atvinnulífinu.
Líkt og var með landbúnaðarmálin - þar sem rætt var meðal annars um mikilvægi þess að koma á virkri samkeppni, í samræmi við samkeppnislög - þá var umræða um þessi mál ekki lokið með neinni skýrri niðurstöðu, en meiningarmunurinn var augljós.
Forystufólk flokkanna mat það svo að ekki yrði lengra komist, þar sem mikill og almennur áherslumunur milli flokkanna kallaði á mikla málamiðlunarvinnu. Viðmælendur Kjarnans hrósuðu Pírötum fyrir góða verkstjórn, og svo virtist sem þeirra helst vopn - þvert á það sem margir héldu fyrir kosningar - kæmi þarna í ljós; hæfileikinn til að miðla málum og horfa á álitamálin út frá bestu lausn í hvert og eitt skipti.
Hvað gerist næst?
Forysta Framsóknarflokksins hefur beðið á hliðarlínunni undanfarnar sex vikur og sé mið tekið af því hvernig atkvæðin skiptust í kosningunum, og hvernig röðin hefur verið í stjórnarmyndunartilraunum til þessa, þá gæti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, freistað þess að nýta nú tækifærið og reyna að mynda ríkisstjórn. Þar kemur helst samstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins til greina, eins og stjórnarmyndunarviðræðurnar hafa þróast. Innri átök í Framsóknarflokknum á 100 ára afmælisári flokksins hafa sjaldan verið meiri og hefur flokkurinn varla komist neitt að valdaþráðunum í viðræðunum til þessa.
Í viðtali við RÚV í gær sagði Sigurður Ingi að mikilvægast væri að ljúka vinnunni í þinginu og klára fjárlögin, en eins og staða mála væri þá yrði tíminn milli jóla og nýárs mögulega nýttur til að stilla saman strengi. Vafalítið reyna flokkarnir þó áfram til þrautar að ná saman ríkisstjórn, en erfitt að sjá hvernig mynstrið verður eftir það sem á undan er gengið.