Árið 1958 þegar Bandaríkjamenn útbjuggu stóra herstöð um 20 metrum undir yfirborði Grænlandsjökuls grunaði engan að tæpum sex áratugum síðar yrði þessi herstöð, eða leifarnar af henni, að alvarlegu ágreiningsefni. Svo alvarlegu að Grænlendingar hóta að taka málið upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ásakanirnar snúa að Bandaríkjamönnum og Dönum. Grænlendingar saka Dani sömuleiðis um að sýna íbúum Grænlands lítilsvirðingu og grænlenski utanríkisráðherrann segir algjört vantraust ríkja milli Grænlendinga og Dana. Danski forsætisráðherrann kannast ekki við þessa lýsingu.
Camp Century
Í september 1960 lagði 18 ára danskur skáti, Sören Gregersen upp í óvenjulega ferð ásamt bandarískum jafnaldra sínum, Kent Goering. Til Grænlands. Piltarnir, sem komu með flugi hvor frá sínu heimalandi, hittust í Thule herstöðinni á Norður-Grænlandi og héldu þaðan á snjósleða 225 kílómetra inn á jökulinn til staðar sem nefndur var Camp Century. Staðar sem hvorugur þeirra þekkti nokkuð til fyrr en nokkrum mánuðum áður en þeim bauðst að fara þangað til hálfs árs dvalar. Þegar þeir komu á staðinn var 25 stiga frost, þeir vissu svo sem að þeir væru ekki á leiðinni á sólarströnd, en kuldinn kom þeim eigi að síður á óvart. Þótt tvímenningarnir hefðu heyrt talað um hið svokallaða kalda stríð höfðu þeir ekki beinlínis sett það í samhengi við þessa Grænlandsferð og gerðu sér ekki grein fyrir að þeir væru um það bil að verða þátttakendur í einum kafla þess. Kafla sem áratugum síðar, og löngu eftir að kalda stríðinu lyki, yrði að alvarlegu ágreiningsefni Grænlendinga, Dana og Bandaríkjamanna.
Þeir gerðu sér hinsvegar grein fyrir að þetta Camp Century, þangað sem þeir voru nú komnir, væri ekki neitt venjulegt. Þegar þeir félagar gengu inn um hellismunnann, eins og Sören Gregersen komst síðar að orði, var þeim ekki ljóst hversu stórt þetta neðanjarðarbyrgi væri. Samtals þrír kílómetrar og göngin þrjátíu talsins á um það bil tuttugu metra dýpi undir jöklinum. Nánast eins og lítið þorp með tvö hundruð íbúa, bókasafn, bíóhús og verslun svo fátt eitt sé nefnt. Íbúðirnar voru samsettar úr einingum sem höfðu verið fluttar á staðinn og þar var allt til alls. Það sem vakti þó mesta athygli piltanna tveggja var orkuverið, sem reyndar var ekki alveg fullgert. Orkuverið var færanlegur kjarnaofn sem gæti framleitt alla þá orku sem íbúar í þessu jökulþorpi þyrftu á að halda og reyndar dugað margfalt fjölmennara samfélagi. Í löngu viðtali sem dagblaðið Politiken birti fyrir nokkrum dögum sagði Sören Gregersen að hann hefði aldrei upplifað annan eins lúxus og í þessu neðanjarðarþorpi. „Þótt hermönnunum hafi ugglaust fundist erfitt að dvelja þarna langtímum saman, fjarri ættingjum og vinum þótti okkur strákunum þetta bara spennandi,” sagði Sören Gregersen.
Stóra planið - Project Iceworm
Þótt þeim Sören Gregersen og Kent Goering hafi þótt mikið til um Camp Century var neðanjarðarherstöðin þó einungis einskonar tilraun eða undirbúningur fyrir það sem ætlunin var að gera á Grænlandi. Ætlun Bandaríkjamanna var að grafa fjölmörg göng, samtals 4000 kílómetra löng, undir Grænlandsjökli, þar sem hægt væri að koma fyrir allt að 600 kjarnorkuflugskeytum. Gert var ráð fyrir að allt að 11 þúsund hermenn yrðu að jafnaði staðsettir í þessari risastóru jökulveröld. Þessar hugmyndir, Project Iceworm, voru auðvitað algjört leyndarmál. Dvöl skátanna tveggja í Camp Century, sem fjölmiðlar víða um heim greindu ítarlega frá, átti hinsvegar að sýna umheiminum að engin leynd hvíldi yfir aðgerðum Bandaríkjamanna á Grænlandi. Fréttir þessar áttu að slá ryki í augu umheimsins, ekki síst Dana. Dönsk stjórnvöld höfðu opinberlega brugðist ókvæða við hugmyndum um að koma fyrir kjarnavopnum í Thule herstöðinni á Norður-Grænlandi, þótt þau hefðu síðar með óljósu orðalagi látið í það skína að þau myndu snúa blinda auganu að ef til slíks kæmi. En þá vaknar spurningin: voru einhverjar líkur taldar á að Danir gætu fallist á að 600 kjarnorkuflugskeytum yrði komið fyrir undir Grænlandsjökli? Á það reyndi aldrei því risaverkefnið Project Iceworm var lagt á hilluna. Fyrir því voru margar ástæður: Danir hefðu (að mati Bandaríkjamanna) aldrei samþykkt að kjarnorkuvopn yrðu geymd undir jöklinum, kostnaður við neðanjarðarherstöðina hefði orðið gríðarlegur og reynslan af Camp Century leiddi í ljós margháttaða erfiðleika, meðal annars mikla hreyfingu á jöklinum. Árið 1997 fengu hollenskir fræðimenn og danskur kollegi þeirra aðgang að leyniskjölum Bandaríkjahers og greindu fyrstir frá áætluninni Project Iceworm.
En hvað varð um Camp Century?
Þeirri spurningu er fljótsvarað. Herstöðinni var lokað 1. apríl 1966. Bandaríkjamenn fluttu tæki og tól á brott, en margt varð þó eftir. Ekki síst alls kyns úrgangur, þar á meðal næstum 10 þúsund tonn af hættulegum úrgangsefnum og 200 þúsund lítrar af díselolíu, sem Bandaríkjaher hefur kannski talið að jökullinn myndi geyma um ókomin ár og enginn myndi nokkru sinni vita um. Stundum er sagt að jökullinn skili alltaf á endanum öllu því sem hann gleypir og geymir og það er einmitt það sem nú er að gerast á Camp Century svæðinu á Grænlandsjökli. Virt bandarískt vísindatímarit birti sl. sumar niðurstöður rannsókna og mælinga sem sýna að á næstu árum og áratugum muni eitraður og geislavirkur úrgangur frá herstöðinni koma upp á yfirborð jökulsins, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Grænlendingar krefjast aðgerða
Á fyrsta starfsdegi danska þingsins, Folketinget, í haust sakaði Aleqa Hammond þingmaður Grænlands dönsku ríkisstjórnina um sinnuleysi og sagði brýnt að stjórnin tæki málið þegar í stað upp við bandarísk stjórnvöld og krefðist þess að Bandaríkjamenn hefðust strax handa við að fjarlægja úrganginn sem þeir hefðu skilið eftir þegar Camp Century var lokað. Hún benti einnig á að það væru fleiri staðir á Grænlandi sem skoða þyrfti í þessu samhengi. Margir þingmenn tóku í sama streng og Kristian Jensen, þáverandi utanríkisráðherra lýsti yfir að hann myndi athuga málið (se paa det). Þetta þótti Alequ Hammond þingmanni klént svar og undir það tóku fleiri þingmenn. Vittus Qujaukitsoq sem fer með utanríkismál í grænlensku stjórninni hefur margoft sakað dönsku ríkisstjórnina um sinnuleysi varðandi málefni Grænlands.
Hóta að taka málið upp hjá Sameinuðu þjóðunum
Fyrir nokkrum dögum birti dagblaðið Politiken langt viðtal við áðurnefndan Vittus Qujaukitsoq. Hann fór þar hörðum orðum um dönsku stjórnina, og bandarísk stjórnvöld, og sagði að ef ekkert gerðist von bráðar varðandi hreinsunarstarf á Camp Century svæðinu yrðu Grænlendingar að taka málið upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkjaher á mikilla hagsmuna að gæta á Grænlandi og vill að líkindum í lengstu lög forðast að lenda upp á kant við íbúa landsins.
Æ fleiri Grænlendingar vilja slíta tengslin við Danmörku
En grænlenski ráðherrann sagði fleira í áðurnefndu viðtali sem vakti mikla athygli í Danmörku. Einkum þau ummæli ráðherrans að Grænlendingar væru langþreyttir á samskiptum sínum við Dani og þær grænlensku raddir sem krefðust sjálfstæðis gerðust nú æ fleiri og háværari. Allt tal danskra stjórnmálamanna um að Grænland gæti ekki án Danmerkur verið litist af dönskum hagsmunum. Þegar ummæli grænlenska ráðherrans voru borin undir Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana vildi hann fátt segja annað en að samskipti Danmerkur og Grænlands væru bæði mikil og góð. Anders Samuelsen utanríkisráðherra sagðist ekki kannast við þessar lýsingar grænlenska ráðherrans.
Stjórnvöld á Grænlandi settu fyrir tveimur mánuðum á laggirnar nefnd sem á að vega og meta kosti þess og galla að Grænland verði sjálfstætt ríki sem ráði alfarið sínum málum sjálft. Nefndinni hafa ekki verið sett tímamörk en miðað er við að hún skili niðurstöðum sínum eins fljótt og tök eru á.