Ungt fólk skilaði sér síst á kjörstað í þingkosningunum sem fram fóru 29. október síðastliðinn. Minnst var kosningaþátttakan í aldurshópnum 20-24 ára þar sem 65,7 prósent þeirra sem voru á kjörskrá skiluðu sér í kjörklefann. Mest var þátttakan hjá aldurshópnum 65-69 ára þar sem 90,2 prósent greiddu atkvæði. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Hagstofa Íslands hefur birt.
Alls greiddu 79,2 prósent kjósenda atkvæði í kosningunum. Mjög mismunandi er eftir aldri hvort að kjósendur ákváðu að nýta kosningarétt sinn eða ekki. Þannig mættu einungis 67,7 prósent kjósenda á aldrinum 18-29 ára á kjörstað, 74,2 prósent þeirra kjósenda sem voru á fertugsaldri en 84,8 prósent kjósenda sem voru yfir fertugt. Kosningaþátttaka var langmest hjá Íslendingum yfir fimmtugt og var í kringum 90 prósent hjá þeim sem eru á aldrinum 60-75 ára.
Af þessum tölum er ljóst að eldri Íslendingar eru að hafa hlutfallslega mun meiri áhrif á mótun íslensks stjórnmálalandslags en þeir yngri.
Eldri kjósa Sjálfstæðisflokk, yngri Pírata
Niðurstöður kosninganna 29. október voru töluvert á skjön við það sem flestar skoðanakannanir höfðu sagt til um. Helsta skekkjan var fólgin í því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk meira fylgi en búist var við en Píratar, sem höfðu mælst með mjög hátt fylgi um margra mánaða skeið í aðdraganda kosninga, mun minna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 29 prósent greiddra atkvæða en Píratar 14,5 prósent.
Þróunin var öfug hjá Pírötum og Bjartri framtíð, þótt hún væri mun meira áberandi hjá Pírötum. Þeir voru með 33 prósent fylgi í yngsta aldurshópnum og 26 prósent í þeim næstyngsta, 30 til 49 ára. Meðal 50 til 67 ára var fylgið komið niður í níu prósent og er svo sjö prósent meðal 68 ára og eldri.
Betri kosningaþátttaka eldri Íslendinga hefur því leitt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fékk meira upp úr kjörkössunum en búist hafði verið við, en Píratar mun minna.
Betri þátttaka á landsbyggðinni
Kosningaþátttaka var líka meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Hún var mest í Norðvesturkjördæmi þar sem 81,2 prósent kjósenda greiddi atkvæði en minnst í Reykjavíkurkjördæmi norður, eða 77,9 prósent. Í einstökum sveitarfélögum var kosninga- þátttakan hæst í Eyja- og Miklaholtshreppi (90,2 prósent) en lægst í Sandgerði (73,2 prósent). Kosningaþátttaka á höfuðborgarsvæðinu öllu var 78,9 prósent á móti 79,7 prósent á landsbyggðinni. Konur skiluðu sér frekar á kjörstað en karlar.
Í áðurnefndri könnun MMR kom einnig fram að mikill munur væri á því hvaða flokka kjósendur væru líklegir til að kjósa eftir því hvort þeir byggju á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta átti einkum við hjá Framsóknarflokknum og Viðreisn. Framsóknarflokkurinn mældist þannig með 24 prósent fylgi á landsbyggðinni en aðeins 5 prósent á höfuðborgarsvæðinu daginn fyrir kosningar. Hjá Viðreisn var þessu öfugt farið, flokkurinn var með 12 prósent fylgi á höfuðborgarsvæðinu en aðeins þrjú prósent á landsbyggðinni.