- Plain Vanilla var stofnað síðla árs 2010 af Þorsteini B. Friðrikssyni. Til að byrja með voru starfsmenn þess þrír. Fyrsti leikur fyrirtækisins var The Moogies, sem var stílaður inn á ung börn, og var gefinn út haustið 2011. Leikurinn fékk mjög góða dóma en gekk illa og skildi fyrirtækið eftir í mínus.
- Þorsteinn og félagar gáfust þó ekki upp og fóru að vinna að annarri hugmynd, spurningaleik í appi með miklu framboði af efnisflokkum og leiðum til að bjóða upp á samskipti milli þeirra sem spiluðu leikinn. Plain Vanilla menn voru stórhuga og Þorsteinn fór til San Francisco til að leita að fjármagni fyrir hugmyndina hjá stærstu sprotafjárfestingasjóðum leikjaiðnaðarins. Með hjálp frá Davíð Helgasyni forstjóra Unity Technologies og síðar hluthafa í Plain Vanilla, tókst honum að tryggja sér fyrsta umfang af fjárfestingarfé.
- Leikurinn fékk nafnið QuizUp og fór í loftið 7. nóvember 2013. Áður en hann kom út fjárfesti bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Sequoia Capital í Plain Vanilla fyrir 2 milljónir dala, eða um 240 milljónir íslenskra króna. Sequoia Capital sérhæfir sig í því að finna áhugaverð tæknifyrirtæki á frumstigi og var sjóðurinn einn af fyrstu fjárfestunum í Apple, Google, Oracle, Cisco, Dropbox, Instagram, PayPal, Yahoo, Linkedin, Youtube og Airbnb. Alls lögðu áhættufjárfestar 5,6 milljónir dala í Plain Vanilla áður en QuizUp kom út. Plain Vanilla var fyrsta íslenska fyrirtækið sem fékk fjármagn úr Sílíkondalnum.
- Vinsældir QuizUp urðu strax miklar. Á nokkrum dögum tókst leiknum að verða vinsælasta app í heimi og leikurinn var þýddur á fjölmörg tungumál. Notendur voru orðnir ein milljón eftir sex daga. Frá því að QuizUp var fyrst gefinn út hefur leiknum verið hlaðið niður um 80 milljón sinnum. Eitt þeirra vandamála sem Plain Vanilla stóð frammi fyrir með QuizUp var að notkunin helst ekki mikil hjá þorra notenda. Kjarninn sendi Þorsteini fyrirspurn um hver fjöldi daglegra eða mánaðarlegra notenda væri haustið 2014. Í svari hans kom fram að Plain Vanilla gæfi þær ekki út.
- Fyrirtækið óx hratt á þessum tíma og vorið 2014 voru starfsmenn þess þegar mest var tæplega 80. Plain Vanilla hafði þá flutt höfuðstöðvar sínar í mun stærra húsnæði á Laugavegi 77, allt starfsfólk var græjað upp með nýjum Apple-tækjum, fékk eins mikið af kókómjólk og það vildi og kort í líkamsrækt að eigin vali á kostnað Plain Vanilla. Mötuneyti fyrirtækisins var eitt það besta á landinu og allt umhverfi tók mið af því að um væri að ræða nýsköpunarfyrirtæki að bandarískri fyrirmynd.
- Skömmu eftir að QuizUp kom út reyndi bandaríska tölvuleikjafyrirtækið Zynga að kaupa Plain Vanilla á um 100 milljónir dala, tæplega tólf milljarða króna á þávirði. Tilboðinu var hafnað og þess í stað var sótt nýtt þriggja milljarða króna áhættufjármagn í viðbótarfjárfestingu frá hluthöfum, þar á meðal fjárfestingarsjóðanna Sequioa Capital og Tencent Holdings, tveggja risa í nýsköpunarheiminum. Þorsteinn seldi á sama tíma hluta af eign sinni í Plain Vanilla og fékk greidda stofnendaþóknun. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins um málið fékk hann um 583 milljónir króna í sinn hlut.
- Bersýnilegasti gallinn á viðskiptamódeli QuizUp var sá að tekjumódel var ekki til staðar þegar leikurinn fór í loftið. Þorsteinn benti á þessum tíma á að það væru helst íslenskir fjölmiðlar sem spurðu hvernig leikurinn ætti að skapa tekjur. Í Bandaríkjunum væru þær vangaveltur minni eða ekki til staðar. Þorsteinn vísaði þar til þeirrar stefnu sem var ríkjandi innan nýsköpunargeirans á þessum árum. Það var algengt viðhorf að uppbygging nýsköpunarfyrirtækja fælist á upphafsstigum fyrst og síðast í eins mikilli fjölgun notenda og hægt var. Þessi stefna var undir miklum áhrifum frá velgengni Facebook og náði ákveðnum hátindi um það leyti sem QuizUp kom út í lok árs 2013. Þetta viðhorf er ekki nærri jafn ríkjandi í nýsköpunargeiranum í dag.
- Það reyndist þrautinni þyngri að finna út hvernig QuizUp átti að græða peninga og síðla árs 2014 stóð fyrirtækið á tímamótum. Þá hafði verið tekin ákvörðun um að breyta umhverfi leiksins í átt að samskiptamiðli. Hugmyndin byggði á því að QuizUp gæti tengt saman fólk með sömu áhugamál, ekki eingöngu til að keppa í spurningaleikjum um áhugamál sín heldur einnig á dýpri grunni innan samskiptamiðils. Vonir stóðu til að nýtt umhverfi myndi skapa grundvöll til að hafa af leiknum tekjur. Breytt útgáfa QuizUp fór í loftið í maí 2015, eftir nokkrar tafir. Auk þess var búin til vara fyrir fyrirtæki, sem hét QuizUp at Work. Tólinu var ætlað að „fræða, þjálfa og skapa góðan starfsanda“ að því er sagði í fréttatilkynningu um QuizUp at Work. Báðar þessar tilraunir, að breyta QuizUp í samfélagsmiðil og QuizUp at Work, skiluðu ekki þeim árangri sem vonast var til. Tekjurnar létu enn standa á sér.
- Haustið 2015 var síðan tilkynnt um samkomulagið við NBC sjónvarpsstöðina um gerð spurningaþátta byggða á QuizUp. Allt var lagt undir. Samhliða átti sér stað mikil hagræðingarferli þar sem starfsmönnum var fækkað og áherslum breytt. Tölvuleikjaframleiðandinn Glu Mobile kom að rekstrinum í janúar 2016 með yfirtöku í náinni framtíð í huga. Í lok ágúst var hins vegar tilkynnt um að NBC hefði hætt við að framleiða þættina og að Plain Vanilla myndi hætta starfsemi. Öllu starfsfólki sem enn var hjá fyrirtækinu, alls 36 manns, var sagt upp. Hluti þess hélt þó áfram störfum við að vinda ofan af starfseminni og selja alla innanstokksmuni sem safnað hafði verið á skrifstofur fyrirtækisins.
- Í gær, 22. desember, var svo greint frá því að Plain Vanilla hefði náð samkomulagi við Glu Mobile um að selja QuizUp leikinn til þess. Heildarvirði samningsins er um 7,5 milljónir dala, um 850 milljónir króna, en kaupverðið er að hluta greitt með uppgjöri skulda milli fyrirtækjanna tveggja. Í kjölfarið mun Plain Vanilla á Íslandi alfarið hætta starfsemi. Í tilkynningu kom fram að salan muni gera Plain Vanilla kleif að standa skl á öllum skuldbindingum sínum við starfsmenn og lánardrottna. Hluthafar, sem tóku áhættu með fjárfestingu í fyrirtækinu, tapa hins vegar sínu. Eftir stendur að Plain Vanilla tókst að laða til Íslands fjármagn frá leiðandi nýsköpunarsjóðum sem höfðu aldrei áður horft til Íslands, að búa til vöru sem tugir milljóna manna um heim allan notuðu, tugir hugvitsstarfa urðu til og fjöldi Íslendinga fengu ómetanlega reynslu af tækni- og nýsköpunarheiminum. Sú reynsla mun hafa varanleg áhrif á íslensku nýsköpunarsenuna.
Auglýsing