Þær tugþúsundir ferða- og heimamanna sem rölta upp og niður Strikið og önnur svæði í miðborg Kaupmannahafnar í desembermánuði kannast vel við jólamarkaðina svonefndu sem þar eru árlega haldnir. Þekktastur þessara markaða er líklega sá sem haldinn er í Tívoli en skemmtigarðurinn dregur til sín mikinn fjölda fólks um jólaleytið. Pistlaskrifari kom við í Tívolí fyrir nokkrum dögum og þar var múgur og margmenni, þrátt fyrir kulda og dumbung. Fjölsóttasti markaðurinn, að Tívolí frátöldu, er við Höjbro Plads neðan við Amagertorv á Strikinu, rétt fyrir neðan vöruhúsið Illum.
Þessi markaður var í fyrsta skipti haldinn árið 2011 og líkt og margir aðrir í Danmörku er hann að þýskri fyrirmynd. Þar er boðið upp á þýskar pylsur, gluhwein (glögg) og fleira matarkyns. Auk þess ýmiskonar jólaskraut, flest að þýskum hætti eins og nafn markaðarins ber með sér: Þýski jólamarkaðurinn. Á Kóngsins Nýjatorgi er einnig fjölsóttur markaður, að stórum hluta með sama yfirbragði og áðurnefndur markaður á Höjbro Plads. Fleiri jólamarkaði á miðborgarsvæðinu mætti nefna, flestir þeirra smærri í sniðum en þeir sem áður voru nefndir.
Ferðafólk flykkist á markaðina
Um jólaleytið er margt ferðafólk í Kaupmannahöfn. Það flykkist á markaðina og þegar eitt dagblaðanna bað nokkra erlenda ferðamenn að nefna eitthvað skemmtilegt úr heimsókninni voru jólamarkaðirnir meðal þess sem allir nefndu. Á rölti sínu um einn þessara markaða fyrir nokkrum dögum heyrði pistlaskrifari, auk dönskunnar, að minnsta kosti sjö tungumál, þar á meðal íslensku: „Ég ætla að fá mér aðra currywurst!“.
Bæjarráðsfulltrúar ekki jafn ánægðir með markaðina
Þótt ferðamenn og heimafólk virðist upp til hópa mjög ánægt með jólamarkaðina í miðborginni verður ekki það sama sagt um meirihluta Bæjarráðs Kaupmannahafnar. Einn bæjarráðsfulltrúanna sagði að þegar ráðið hefði, fyrir nokkrum árum, veitt leyfi fyrir fleiri og stærri jólamörkuðum í miðborginni, hefði engan í ráðinu órað fyrir að markaðirnir yrðu einskonar eftiröpun á þýsku mörkuðunum. Bæjarráðsmönnum hefði þótt hugmyndin um jólamarkaði góð og talið að þar yrði danskt yfirbragð. Danskur varningur og danskur matur. Það hefði ekki gengið eftir. Bæjarráðsfulltrúinn sagði að sér hefði ekki litist á blikuna í fyrra þegar stærðar parísarhjól hefði skyndilega verið komið í gang á Gamlatorgi á miðju Strikinu. ,,Eins og maður væri kominn í sirkus eða skemmtigarð. Sem betur fer er þetta hjól ekki á torginu í ár.” Meirihluti Bæjarráðsins væri þeirrar skoðunar að slíkir markaðir væru betur komnir í íbúðahverfum utan miðborgarinnar. Á jólamörkuðum sé eðlilegt að leggja áherslu á danskar vörur og siði, eins og gert sé á fjölmörgum mörkuðum víða um Danmörku.
Undrandi á afstöðu Bæjarráðsins
Henrik Mortensen forstöðumaður jólamarkaðarins á Kóngsins Nýjatorgi er undrandi á yfirlýsingum bæjarráðsmanna. Segir að markaðirnir njóti mikilla vinsælda, það sýni aðsóknin. Ferðafólk og heimamenn lýsi mikilli ánægju með stemninguna og hafi ekki yfir neinu að kvarta. Markaðir eins og þessir eigi vitaskuld að vera í miðborginni, þar sem ferðafólkið heldur sig, ekki að ýta þeim út í íbúðahverfi þangað sem ferðamenn leggi ekki leið sína.
Hvað er danskt?
Það álit bæjarráðsmanna að áherslur á jólamörkuðum ættu að vera danskar gaf áðurnefndur forstöðumaður ekki mikið fyrir og spurði hvað væri danskt. Ekki væri það jólatréð (frá Þýskalandi) ekki Lúsíugangan sem væri frá Svíum komin og hinn vinsæli eftirréttur Ris a la mande væri innfluttur. ,,Grjónagrauturinn er reyndar danskur og eplaskífurnar sömuleiðis en þá er kannski það sérdanska upptalið.”
Henrik Mortensen forstöðumaður sagði að sér hefði ekki verið tilkynnt að ekki fengist leyfi fyrir mörkuðunum í óbreyttri mynd að ári liðnu en kvaðst óttast að Bæjarráðið stæði við yfirlýsingar sínar og myndi flæma jólamarkaðina burt úr miðborginni.