Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra Danmerkur segir að Danir verði að stórauka framlög til varnarmála á næstu árum. Vaxandi hernaðarumsvif Rússa séu veruleg ógnun og ástandið nú líkist æ meira kaldastríðsárunum, að mati ráðherrans.
Claus Hjort Frederiksen tók við embætti varnarmálaráðherra Danmerkur fyrir einum og hálfum mánuði. Þá gerði Lars Løkke Rasmussen miklar breytingar á stjórn sinni í kjölfar þess að Frjálsræðisbandalagið (Liberal Alliance) og Íhaldsflokkurinn (Det Konservative Folkeparti) gengu til liðs við stjórn Venstre. Claus Hjort var áður fjármálaráðherra og einn reyndasti núverandi þingmaður Dana, hann er einn nánasti samstarfsmaður Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra. Þungaviktarmaður semsé og þegar hann talar leggur fólk við hlustir. Sem fyrrverandi fjármálaráðherra þekkir hann vel til málefna hersins en fjárveitingar til hermála eru á könnu þingsins, Folketinget.
Margra alda saga
Formlegur stofndagur danska hersins er 17. nóvember 1614, en saga hersins er langtum eldri. Á tíma einveldisins frá 1660 – 1849 voru allir valdataumar í hendi konungs og Danmörk var lengst af einveldistímanum stórt og víðfemt ríki (Noregur, Grænland, Ísland, Færeyjar, Slésvík – Holtsetaland ásamt nýlendum í Afríku, Asíu og Karíbahafinu) og því í æðimörg horn að líta. Nákvæmar upplýsingar um mannafla hersins á þessum tíma eru mjög á reiki en ljóst að rekstur hersins, með öllu tilheyrandi, útheimti mikla fjármuni. Svo mikla að fjárhagur danska ríkisins var á tíðum mjög bágborinn.
Eftir einveldið
Danska einveldinu lauk 1849 og síðan þá hafa allar ákvarðanir varðandi fjárveitingar og grundvallarstarfsemi hersins verið í höndum þingsins. Í upphafi var helsta verkefni hersins að verja yfirráðin yfir Slésvík (þriggja ára stríðið 1848-51) og í kjölfarið fylgdi svo stríðið 1864 þar sem Danir misstu bæði Slésvík og Holtsetaland. Að mati sagn- og hernaðarfræðinga síðari tíma var stríðið 1864 fyrirfram tapað, danski herinn átti einfaldlega við ofurefli að etja.
Harðar deilur og heimsstyrjöldin síðari
Eftir niðurlagið 1864 urðu harðar deilur í danska þinginu. Hluti þingmanna vildi að Danmörk legði niður herinn og landið yrði hlutlaust. Aðrir vildu að hlutverk hersins yrði að verja hlutleysi Danmerkur, varnir landsins skyldu fyrst og fremst miðast við Sjáland. Ekkert varð úr þeirri hugmynd að leggja niður herinn og á næstu áratugum, fram yfir fyrri heimsstyrjöld efldist herinn mjög. Á millistríðsárunum drógust fjárveitingar til hersins saman. Þegar Þjóðverjar réðust inn í Danmörku 1940 og hertóku landið var fátt um varnir, herinn fámennur miðað við þýska heraflann og auk þess illa vopnum búinn. Uppgjöf var því eina leiðin og þótt margir Danir væru ósáttir við þá ákvörðun á sínum tíma var, og er, flestum ljóst að miðað við aðstæður héldu danskir stjórnmálamenn, ásamt kónginum, skynsamlega á spilunum.
Eftirstríðsárin og kalda stríðið
Eftir lok síðari heimsstyrjaldar 1945 varð grundvallarbreyting á afstöðu danskra stjórnmálamanna. Allar hugmyndir um hlutleysi voru lagðar á hilluna. Danmörk tók þátt í stofnun Sameinuðu þjóðanna 24. október 1945 og fjórum árum síðar, 1949, þegar Atlantshafsbandalagið varð til var Danmörk meðal aðildarríkjanna. Tilgangurinn með stofnun NATO var að verjast, og mynda mótvægi gegn, Sovétríkjunum og bandamönnum þeirra. Á árum Kalda stríðsins, eins og tímabilið 1947 -1991 er nefnt, átti sér stað mikil hernaðaruppbygging, bæði meðal NATO ríkjanna og austurblokkarinnar svonefndu, með Sovétríkin í fararbroddi. Danski herinn fékk mikla aðstoð frá Bandaríkjamönnum, bæði fjárhagslega og í formi vopna og herbúnaðar hvers konar. Fjárveitingar til hersins jukust og danskir hermenn tóku meðal annars þátt í margháttuðum aðgerðum á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Hrun Sovétríkjanna
Endalok Sovétríkjanna í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar höfðu miklar og margháttaðar breytingar í för með sér. Ógnin sem hafði verið talin stafa af Sovétríkjunum og bandamönnum þeirra var ekki lengur til staðar. Hlutverk herja NATO breyttist mikið og friðargæsla og margs konar eftirlit varð fyrirferðarmeira en það hafði áður verið. Margar spurningar um hlutverk fjölmennra herja, þar á meðal Danmerkur, vöknuðu og mörgum þótti beinlínis ónauðsynlegt að verja jafn miklum fjármunum til hermála og áður hafði þótt sjálfsagt. Til þess að gera langa sögu stutta hafa fjárveitingar til danska hersins dregist jafnt og þétt saman á undanförnum árum. Herinn sem skiptist í landher, sjóher og flugher telur nú um það bil fimmtán þúsund manns og hermenn eru umtalsvert færri en fyrir áratug síðan. Niðurskurðurinn hefur haft í för með sér að tækjakostur hersins hefur ekki verið endurnýjaður og viðhald setið á hakanum. Yfirstjórn hersins hefur talað fyrir daufum eyrum ráðamanna, þar á meðal fjármálaráðherrans fyrrverandi sem nú er sestur í stól varnarmálaráðherrans.
Lafhræddur við bröltið í Rússum
Fyrir nokkrum dögum birti dagblaðið Berlingske langt viðtal við Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra. Það er fyrsta viðtal sem ráðherrann hefur veitt eftir að hann fluttist úr fjármálaráðuneytinu í núverandi embætti. Claus Hjort er vanur að tala tæpitungulaust og það á sannarlega við um áðurnefnt viðtal í Berlingske. Ráðherrann segist einfaldlega vera lafhræddur við bröltið í Rússum, enginn viti hug Pútíns í neinum málum. ,,Maður hélt í einfeldni sinni að heimurinn væri miklu öruggari en áður var og ekki þyrfti að hafa áhyggjur af Rússum. Nú sér maður að þetta er ekki svona, Pútín er ekki nein friðardúfa” sagði Claus Hjort. Hann sagði að sú staðreynd að Rússar væru að koma fyrir eldflaugabúnaði í Kaliningrad væri ógnvekjandi. Þetta og margt margt fleira sagði ráðherrann sýna fram á nauðsyn þess að stórefla danska herinn. Hann nefndi líka stórkarlalegar yfirlýsingar Donalds Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna eftir nokkra daga. Trump hefur sett spurningarmerki um skyldur Bandaríkjanna við þau NATO ríki sem ekki uppfylli loforð og samkomulag um fjárveitingar til varnarmála, Danmörk er í þeim hópi.
Verða að gefa í
Danski varnarmálaráðherrann sagðist, í viðtalinu við Berlingske, yfirleitt ekki vera talsmaður aukinna útgjalda ríkisins. ,,En hér verðum við að gefa duglega í” sagði ráðherrann. Þegar blaðamaður spurði hvort þetta væri ekki bara venjulegur ,,lobbýismi” hjá ráðherra sem vildi meiri peninga til síns ráðuneytis harðneitaði Claus Hjort því og sagði að hann væri einfaldlega að lýsa ástandinu. ,,Bröltið í Rússum vekur ugg og við getum ekki snúið blinda auganu að, við verðum að bregðast við og það strax.”