Íslenska stríðshetjan Tony Jónsson

Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur kynnti sér ótrúlega sögu stríðshetjunnar Þorsteins Elton Jónssonar.

Kristinn Haukur Guðnason
Flugvélar
Auglýsing

Fáir Íslendingar hafa upplifað jafn mikinn hasar og Þorsteinn Elton Jónsson flugmaður. Í Bretlandi var hann kallaður Tony Jonsson þegar hann barðist með flughernum í seinni heimstyrjöldinni en hér á Íslandi var hann kallaður Steini flug. Á seinni árum tók hann þátt í neyðaraðstoð í Afríku á miklum ólgutímum við ákaflega krefjandi aðstæður. Ævintýri hans voru efniviður í tvær ævisögur en hér er brot af því helsta.

Með togara í stríðið

Þorsteinn Elton Jónsson var fæddur þann 19. október árið 1921 í Reykjavík. Hann var elsta barn af fjórum, hjónanna Snæbjörns Jónssonar og  Annie Florence Westcott Jónsson. Snæbjörn rak bókabúðina Snæbjörn Jónsson & Co. – The English Bookshop í Hafnarstræti. Hann var auk þess rithöfundur, bókaútgefandi, þýðandi og mjög fyrirferðarmikill í menningarlífi landsins og þjóðmálaumræðunni. Eins og nafn búðarinnar gaf til kynna þá hafði Snæbjörn sérstakt dálæti af enskum bókmenntum og hafði mikil tengsl við Bretland. 

Annie, sem starfaði sem húsmóðir, var einmitt ensk. Þorsteinn deildi ekki bókmenntaáhuga föður síns og var ekkert sérstaklega hneigður að bóknámi. Þetta kom best fram á unglingsaldri þegar hann hélt norður til Akureyrar í menntaskólann þar. Hann hafði frekar áhuga á myndlist, útivist og sérstaklega flugi. Sem barn hafði hann dreymt um að verða flugmaður og komast í Konunglega breska flugherinn, RAF. Á menntaskólaárunum, áður en stríðið skall á, virtist leið hans hins vegar liggja í arkítektúr. 

Auglýsing

En stríðið breytti öllu og vorið 1940 ákvað hann að hætta námi og gerast orrustuflugmaður. Hann talaði við bresku ræðismennina, bæði á Akureyri og Reykjavík, en fékk þau svör að hann væri ekki gjaldgengur í flugherinn vegna þess að hann væri Íslendingur og þar af leiðandi ekki aðili að stríðinu. Þorsteinn lét þó ekki deigan síga og fékk far með togaranum Óla Garða til Bretlands (flak hans situr nú í fjöru Fossvogsins). Þorsteinn kom til Englands, 18 ára, pappírslaus, með eitt sterlingspund í vasanum og þótt undarlegt megi virðast frekar slakur í tungumálinu. En faðir hans og móðurfjölskylda beittu sér fyrir því að hann fengi tilskilin leyfi og í kjölfarið hélt hann með lest norður til Padgate í herskóla breska flughersins.

Dansað í háloftunum

Í Padgate, í norðvesturhluta Englands, tók við hálfs árs almenn herþjálfun. Fjölmargir aðrir erlendir piltar voru í þjálfunarbúðunum en hann var eini Íslendingurinn. Um haustið 1940 fékk hann svo loks að læra til flugs. Hann lauk prófi sem orrustuflugmaður vorið 1941 og hóf þá samstundis herþjónustu. 

Tony Jónsson, flugkappi og stríðshetja.Hann var sendur norður til Skotlands í 17. herdeildina, sem staðsett var í bænum Elgin. Þorsteini fannst vistin í Skotlandi frekar tíðindalítil og leiðinleg. Fáar þýskar flugvélar voru á sveimi í námunda við Skotland og hann sá nokkuð eftir því að hafa misst af hinum goðsagnakennda sigri flughersins í orrustunni um Bretland hálfu ári áður. En eftir á að hyggja kom það sér vel að hafa það rólegt fyrstu mánuðina. 

Í Skotlandi flaug hann að mestu einmenningsvélum af gerðinni Hawker og þetta var góð æfing fyrir það sem var í vændum. Í lok árs 1941 var hann færður yfir í 111. herdeildina sem staðsett var í North Weald í námunda við Lundúni og þar tók alvara lífsins við. Markmið deildarinnar var að varpa sprengjum á herstöðvar, járnbrautarlestir, birgðastöðvar og önnur skotmörk í Frakklandi og Niðurlöndum og hann flaug þá Spitfire-vél, einni þekktustu orrustuflugvél sögunnar. Hann sá bæði um að varpa sprengjum og veita stærri sprengjuvélum vernd. Þorsteinn lenti í fyrsta skipti í beinni orrustu við þýskar vélar í októbermánuði árið 1941. Hann var í grennd við frönsku borgina Lille þegar nokkrar Messerschmidt vélar mættu á svæðið.

Ég var sannast að segja dauðhræddur, en svo mun vera um flesta flugmenn í fyrstu loftorrustunni. Ég man nú eiginlega lítið eftir, hvernig allt fór, allt gerðist með svo skjótum hætti. Ég varð viðskila við félaga mína og varð að bjarga mér upp á eigin spýtur og það tókst og ég komst heim.

Um þetta leyti fengu Íslendingar að vita af Þorsteini í blöðunum eftir að fréttatilkynning um hann var lesin í breska ríkisútvarpinuÞorsteinn var eini Íslendingurinn í breska flughernum en einn annar Íslendingur, Jón Kristófer Sigurðsson, þjónaði í landhernum um svipað leyti.

Grandaði 8 vélum

Ári seinna var herdeildin flutt til Norður-Afríku þar sem bandamenn unnu að því að hrekja Þjóðverja úr álfunni. Þar skaut Þorsteinn niður sínar fyrstu vélar. Þær voru af gerðinni Junker og hann sá aðra þeirra hrapa og brotlenda í fjallshlíð. Hann skaut niður alls 5 vélar svo sannað væri (annað vitni þurfti til), en sjálfur var hann nokkuð viss um að þær væru a.m.k. 8 talsins. Hann lenti margsinnis í kröppum dansi í ferðum sínum. 

Í eitt skipti bilaði annar hreyfillinn yfir Atlantshafinu, í annað skipti náði hann ekki að losa sprengju fyrr en á heimleiðinni yfir Ermasundið og þá munaði minnstu að hún hæfði breskt skip. Þá flaug hann í flasið á um 50 þýskum orrustuvélum eftir að hafa sprengt lestarteina í Frakklandi. Hann missti tvisvar vél sína. Í annað skipti eftir að stýrisbúnaðurinn brást og hann þurfti að „beila út“ eins og sagt var. Í hitt skiptið fékk hann skot úr loftvarnarbyssu í hjólbúnaðinn og þurfti hann þá að lenda vélinni á maganum eða „uppá pönnuköku“. 

Aðgerðirnar gengu þó heilt yfir litið vel en Þorsteinn sagði reyndar sjálfur að mótstaða þýsku vélanna hafi verið nokkuð lítil þar sem allir bestu flugkapparnir hafi verið á austurvígstöðvunum að kljást við Sovétmenn. Engu að síður þótti framganga hans til fyrirmyndar. Hann vann sig upp úr stöðu liðþjálfa í lautinant og var sæmdur orðu af Georgi VI konungi í upphafi árs 1943. Það sama ár var hann sendur í 65. herdeildina þar sem hann flaug amerískri Mustang sprengjuflugvél yfir Frakkland og Þýskaland uns stríðinu lauk.

Ísland og Kongó

Þorsteinn ferðaðist víða fyrir breska flugherinn, t.a.m. til Indlands og austur-Asíu. Þá tók hann atvinnumannsflugpróf í Englandi árið 1946 og flutti ári seinna heim til Íslands. Á þessum tíma var innanlandsflug að ryðja sér til rúms á Íslandi. Þorsteinn flaug Douglas vélum fyrir Flugfélag Íslands, bæði innanlands og til Grænlands (sem voru miklar hættuferðir). Þegar hann flutti hingað var hann nýgiftur enskri konu að nafni Marianne en þau skildu árið 1952. Það sama ár giftist hann flugfreyjunni Margréti Þorbjörgu Thors og áttu þau saman fjögur börn. Margrét var dóttir Ólafs Thors og var Þorsteinn því tengdasonur forsætisráðherrans um nokkurt skeið. Þorsteinn sinnti einnig ýmsum öðrum málum tengdum flugi á þessum árum. 

Hann var formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna og fyrsti formaður Flugbjörgunarsveitarinnar. En þrátt fyrir að Þorsteinn hafi komið sér vel fyrir á Íslandi þá toguðu ævintýrin ennþá í hann. Sumarið 1956 fluttu hjónin til borgarinnar Leópoldville (seinna Kinshasha) í afrísku nýlendunni Belgísku Kongó. Þorsteinn flaug þá fyrir belgíska flugfélagið Sabena og var um tíma einkaflugmaður Patrice Lumumba, fyrsta forsætisráðherra landsins. Afríkuríkin voru að fá sjálfstæði hvert á fætur öðru og þetta voru miklir ólgutímar í álfunni. Hjónin flúðu landið í flýti árið 1960 vegna yfirvofandi stjórnarbyltingar og ári seinna var Lumumba tekinn af lífi. Árið 1967 urðu mikil umskipti í lífi Þorsteins. Annars vegar skildu þau Margrét og hins vegar var honum vikið úr starfi hjá Flugfélagi Íslands. Þotuöld var þá að ganga í garð á Íslandi en Þorsteinn var mun hrifnari af því að fljúga litlum rellum. Hann þurfti því að finna ný ævintýri og aftur togaði Afríka í hann.

Neyðaraðstoð í Bíafra

Sumarið 1967 braust út borgarastyrjöld í Nígeríu á vesturströnd Afríku þegar íbúar í austurhluta landsins gerðu uppreisn gegn stjórninni og stofnuðu eigið ríki, Bíafra. Stjórnarherinn setti Bíafra í herkví með því takmarki að svelta íbúana í hel. Þá ákváðu nokkur kirkjusambönd á Vesturlöndum að koma á fót neyðaraðstoð fyrir Bíafra-menn. Samtökin settu upp búðir í nálægum löndum og flugu með vistir framhjá stjórnarhernum og inn á svæðið. Hér á Íslandi var félaginu Flughjálp hf komið á fót af norrænu kirkjusamtökunum Nordchurchaid og flugfélaginu Loftleiðum. Þorsteinn ákvað að taka þátt í þessu og hélt út árið 1968 til portúgölsku nýlendunnar Sao Tome, lítillar eyju í Gíneuflóa skammt frá Nígeríu. 

Fleiri Íslendingar tóku þátt í Bíafra-fluginu og svo fjöldi flugmanna og hjálparstarfsmanna frá Ameríku og Vestur-Evrópu. Það var flogið með ýmis matvæli (t.d. íslenska skreið), lyf, salt, olíu, söluvarning o.fl. til Bíafra og mjög veik börn flutt til baka til aðhlynningar í nágrannaríkjunum. Flugið var ákaflega hættulegt því að stjórnarherinn skaut á hjálparvélarnar og nokkrar fórust af þeim sökum. Því var nánast alltaf flogið ljóslaust um miðjar nætur en Bíafra menn kveiktu á ljósum flugbrautanna rétt fyrir lendingu. Íslenska sveitin ferjaði vistir til Uli, sem var ákaflega lítill og vanbúinn flugvöllur (ef flugvöll skyldi kalla). 

Þetta var bæði krefjandi og lýjandi verkefni þar em flogið var nánast hverja einustu nótt. Alls flaug Þorsteinn 413 sinnum til Bíafra frá 1968 til 1970. Á vellinum í Uli var skotið á vélar hjálparsveitanna og nokkrar eyðilögðust þar. Í seinasta fluginu þann 9. janúar árið 1970 lentu Íslendingarnir í árás stjórnarhersins. Sveitin átti að sækja um 50 innlyksa hjálparstarfsmenn en þegar komið var til Uli voru einungis hjálparvana Bíafrabúar á svæðinu, menn, konur og börn. Skothríð hófst og Íslendingarnir þurftu að fylla vélina af fólki í flýti og rjúka af stað. 10 manns urðu fyrir byssukúlum í hamagangnum og tveir af fjórum hreyflum vélarinnar eyðilöggðust. Þorsteinn lýsir þessu svo: „En nú byrjaði skothríðin aftur fyrir alvöru, og virtist kúlunum nú aðallega beint að stjórnklefanum, enda komu þær nokkrar inn til okkar, en oft munaði mjóu. T.d. var ég að leggja höndina á bensíngjöfina þegar partur af einu handfanginu hvarf og ég fékk smáflís í höndina. Önnur kúla kom í rúðuna rétt við höfuð Einars [Guðlaugssonar flugmanns], og svona mætti áfram telja.“

Þorsteinn reyndist yngri flugmönnunum vel í þessum ferðum og má telja öruggt að reynsla hans úr stríðinu hafi komið að góðum notum. Talið er að neyðaraðstoðin hafi bjargað um einni milljón mannslífa en um þrjár milljónir létust í hungursneiðinni miklu.

Lúxemborg og starfslok

Eftir Bíafra hélt Þorsteinn til Lúxemborgar, þá tæplega fimmtugur. Hann var þá nýgiftur þriðju konunni sinni, Katrínu Þórðardóttur, sem var hjálparstarfsmaður í Bíafra. Í Lúxemborg fékk hann stöðu flugstjóra hjá hinu nýstofnaða fragtflugfélagi Cargolux sem Loftleiðamenn voru aðilar að. Þar starfaði hann til ársins 1987 og flaug m.a. Boeing-747 þotum og var jafnframt formaður félags atvinnuflugmanna Lúxemborgar mestallan tímann. Ævintýrunum var hins vegar að mestu lokið, eða a.m.k. lífsháskanum. Eftir dvölina í Lúxemborg fluttu hjónin heim til Íslands og hafði Þorsteinn þá skilað inn samanlagt 36.000 flugtímum á 47 árum. Þorsteinn átti mög áhugamál svo sem útivist, golf, trilluútgerð, myndlist, fisk-og skotveiði. Þá átti hann alls sjö börn. Hann var mikill karl í krapinu og töffari en var varkár í því að tala um stríðsárin. Hann tók því af mikilli hógværð og viðurkenndi að hann hefði oft verið mjög hræddur.

 Hann fjallaði hins vegar ítarlega um stríðið í tveimur ævisögum sínum Dansað í háloftunum (1992) og Viðburðarrík flugmannsævi (1993) sem báðar voru þýddar yfir á enska tungu. Katrín lést árið 1994 og hann í lok árs 2001, áttræður að aldri.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None