Tölvuleikjaiðnaðurinn er sá skemmtanaiðnaður sem er í hvað hröðustum vexti. Hvað varðar tekjur er hann kominn fram úr kvikmynda-, bóka- og tónlistariðnaðinum og í dag er aðeins sjónvarpsiðnaðurinn stærri. Hluti af þeirri skýringu er hversu aðgengilegir tölvuleikir eru orðnir.
Í upphafi voru þeir bundnir við spilakassa. Svo komu leikjatölvur tengdar við sjónvarp, borðtölvur og handtölvur. Loks símar og spjaldtölvur. Leikirnir eru eins mismunandi og þeir eru margir. Allt frá dúkkúlísu hönnunarleikjum til epískra geimstríða og allir ættu að gera fundið eitthvað við sitt hæfi. Hér eru 10 af allra bestu og áhrifamestu tölvuleikjunum í gegnum tíðina.
10. Civilization
Kanadamaðurinn Sid Meier er þekktur fyrir uppbyggingar-og herkænskuleiki. Þekktasti leikur hans er Civilization sem kom fyrst út árið 1991 fyrir PC tölvur. Í leiknum byggir maður upp siðmenningu og reynir að gera hana að heimsveldi, annað hvort með hernaði eða tækni, efnahags-og menningarframförum. Í hverri umferð byggir maður upp borgir, vegi og herdeildir, setur fé í tækninýjungar, leggur á skatt, ákveður stjórnskipun o.sv.frv. Leikurinn byrjar í fornöld og það er hægt að spila á raunverulegu landakorti eða tilbúnu. Siðmenningum er þó blandað saman í einn graut og sagnfræðilegt gildi leiksins er því ekki mikið. Bandaríkjamenn geta skipst á tækninýjungum við Rómverja og Gandhi getur sent á mann kjarnorkusprengju. Leikirnir þykja ennþá meðal bestu herkænsku og uppbyggingarleikja sem til eru. Nýjasti leikurinn, Civilization VI, kom út árið 2016.
9. Grand Theft Auto
Fyrsti leikurinn í Grand Theft Auto (GTA) seríunni kom út árið 1997 og gæti virst frumstæður í yngri aðdáenda seríunnar. Hann var tvívíður með sjónarhorni séð ofan frá og svo hraður að erfitt var að keyra ekki á. Þriðji leikurinn frá 2001, og sá fyrsti á Playstation 2 leikjatölvunni, var hins vegar sá sem gerði seríuna svo vinsæla. Ástæðan fyrir því var þrívíddin sem hentar mun betur fyrir þann heim sem skapaður er í GTA. Í leiknum stjórnar maður undirheimamanni sem klæst við aðra slíka og lögregluna. Í leiknum getur maður valið milli verkefna til að taka að sér (sem innihalda yfirleitt bílaeltingarleiki) en þau eru ekki helsta aðdráttarafl hans. Leikurinn er í raun opinn, þ.e. leikmenn geta gert það sem þeir vilja. Þetta frelsi hefur fengið mikið lof en einnig töluverða gagnrýni. Gagnrýnin beinist einkum að upphafingu ofbeldis og það að leikmenn geti fróað einhverjum annarlegum hvötum í leiknum. Sumir sem spila leikinn hafa þó mest gaman að því að rúnta um með útvarpið (sem er lygilega gott) í gangi. GTA serían hefur slegið mörg sölumet í gegnum tíðina. Seinasti leikurinn Grand Theft Auto V kom út árið 2013 en næsti kemur sennilega ekki fyrr en árið 2018.
8. Full Throttle
Um miðjan tíunda áratuginn voru svokallaðir smelluleikir (click-and-play) ákaflega vinsælir. Í þessum leikjum reyna leikmenn að finna vísbendingar og leysa ákveðna þraut. LucasArts, leikjafyrirtæki kvikmyndaleikstjórans og framleiðandans George Lucas, var leiðandi í þessum smelluleikjum og framleiddi þekkta leiki á borð við Monkey Island (1990), Sam & Max Hit the Road (1993), Day of the Tentacle (1993) og Full Throttle (1995). Full Throttle var sæmilega vinsæll á sínum tíma en varð fljótt költari, sérstaklega vegna húmorsins og tónlistarinnar. Þá er einnig tal yfir allan leikinn sem gerir hann nokkuð sérstakan. Sagan er líka mjög skemmtileg. Árið er 2040 og Ben, sem er leiðtogi vélhjólagengis, er sakaður um morð. Hann þarf að komast af því hvers vegna og því minnir leikurinn töluvert á film-noir kvikmyndir fimmta áratugarins. Ekkert framhald var gert af Full Throttle en endurgerð leiksins er væntanleg á þessu ári.
7. FIFA
FIFA International Soccer frá EA Sports kom út árið 1993 á nokkrum leikjatölvum og olli strax straumhvörfum. Tveimur árum seinna kom önnur útgáfan og síðan þá hefur FIFA komið út á hverju ári. Helsti keppinautur EA Sports á knattspyrnuleikjamarkaðinum voru Konami með seríuna International Superstar Soccer (ISS) sem breytt var í Pro Evolution Soccer (PES) árið 2001. Á fyrstu árum aldrarinnar virtist PES ætla að hafa yfirhöndina í kapphlaupinu þar sem talið var að leikjavél þeirra væri einfaldlega mun betri og raunverulegri en leikjavél FIFA. PES liðu hins vegar fyrir það að hafa ekki leyfi á liða-og leikmannanöfnum og þurftu því að nota skálduð nöfn. Framleiðendur FIFA hafa hins vegar alltaf gert út á stjörnurnar og það er ávallt spennandi að sjá hvaða leikmaður lendir á kápu leiksins. Einnig hefur leiknum verið hælt fyrir góða tónlist. Í kringum 2007 byrjaði FIFA serían að síga aftur fram úr PES og eru nú komnir langt fram úr. Báðar seríurnar hafa selst mjög vel en í heildina hafa selst um tvöfalt fleiri eintök af FIFA en ISS/PES.
6. Mortal Kombat
Bardagaleikurinn Mortal Kombat kom fyrst út á spilakassa árið 1992. Fram að þeim tíma höfðu Street Fighter verið langvinsælustu bardagaleikirnir en Mortal Kombat veittu þeim verðuga keppni. Mortal Kombat voru mun ofbeldisfyllri leikir og urðu alræmdir fyrir náðarhöggin í lok hvers bardaga. Með hverjum leiknum sem kom út var reynt að gera þau sem yfirgengilegust. Þetta fór illa í ýmsa ráðamenn sem reyndu að koma á harðari löggjöf gegn ofbeldisleikjum og aðgengi barna að þeim. En þetta gerði ekkert nema að auka á umtalið og vinsældirnar. SEGA auglýstu það sérstaklega að þeirra leikur innihéldi rautt blóð á meðan Super Nintendo útgáfan væri blóðlaus. Fjöldi persóna úr leiknum urðu frægar, s.s. Raiden, Baraka og Sub Zero sem og drekalógóið sem allir unnendur tölvuleikja þekkja. Þá komu út teiknimyndasögur, sjónvarpsþættir og tvær kvikmyndir byggðar á leikjunum. Leikirnir hafa komið út allar götur síðan, sá síðasti Mortal Kombat X árið 2015. Það er ljóst að ofbeldi borgar sig í heimi tölvuleikjanna.
5. Guitar Hero
Tónlistarleikir urðu vinsælir á Playstation 2 leikjatölvunni um miðjan seinasta áratug. Árið 2004 kom söngleikurinn Singstar út og ári seinna Guitar Hero. Vinsældir Guitar Hero voru að miklu leyti tilkomnar vegna sérstakrar fjarstýringar sem var eftirlíking af alvöru gítar. Í stað strengja voru þó takkar og flipi til að spila lögin. Því var ekki nauðsynlegt að kunna á gítar eða þekkja nótur til að spila leikinn. Skollið var á eins konar ryþma-og dansleikjaæði og fjöldi nýrra leikja komu út, þar á meðal fleiri Guitar Hero leikir. Árið 2007 skildu hönnuðir seríunnar, Harmonix, við hana og komu Rock Band á fót þar sem hægt var að spila á fleiri hljóðfæri samtímis. Þessar tvær seríur voru í harðri samkeppni næstu fimm árin. Sumir leikjanna voru almennir en aðrir stílaðir inn á ákveðin bönd t.d. Guitar Hero: Metallica (2009) og The Beatles: Rock Band (2009). Leikirnir hafa haft mjög jákvæð áhrif á tónlistarheiminn að mörgu leyti. Til dæmis kynna þeir eldri tónlist fyrir yngri hóp og minna þekktar hljómsveitir hafa náð að koma sér á framfæri.
4. Doom
Það má segja að leikurinn Wolfenstein 3D (1992) hafi rutt veginn fyrir fyrstu-persónu-skotleiki en Doom gerði þá vinsæla. Doom kom út árið 1993, frá sama framleiðanda og Wolfenstein en var augljóslega mun vandaðari vara. Leikurinn var hraður og minnti því helst á spilakassaleik. Umhverfið, sem er nokkurs konar blanda af annarri plánetu og helvíti, var einnig umtalsvert flottara en gráu múrveggirnir í Wolfenstein. Leikurinn seldist í massavís og hrinti af stað bylgju fyrstu-persónu-skotleikja sem um tíma voru einfaldlega kallaðir „Doom-leikir“. Því má segja að Doom hafi breytt tölvuleikjaheiminum varanlega. En leikurinn var einnig gagnrýndur fyrir gengdarlaust ofbeldi og satanisma. Sagt var að leikir á borð við Doom væru hvati fyrir ungmenni til að fremja voðaverk á borð við Columbine fjöldamorðið. Vinsældirnar og áhrifin leyna sér þó ekki. Doom varð fyrirmyndin að skáldsögum, teiknimyndasögum, borðspili og kvikmynd. Þá hafa þrír framhaldsleikir verið framleiddir, sá nýjasti hét einfaldlega Doom frá árinu 2016.
3. Wii Sports
Árið 2006 var hrist upp í leikjaheiminum með tilkomu Nintendo Wii vélarinnar. Í stað þess að keppa við tæknilega yfirburði Sony (Playstation) og Microsoft (XboX), þá hönnuðu Nintendo fjarstýringu með hreyfiskynjara sem opnaði leikjaheiminn fyrir algerlega nýjum hópi, þ.e. fólki sem spilar ekki tölvuleiki. Með tölvunni fylgdi Wii Sports, íþróttaleikur sem sýndi hvað best notkun fjarstýringarinnar. Í leiknum er hægt að spila 5 tegundir íþrótta, þ.e. keilu, tennis, golf, hnefaleika og hafnabolta. Allt íþróttir sem leikmaðurinn þarf að sveifla fjarstýringunni á einhvern hátt. Leikurinn er einfaldur og ákaflega aðgengilegur sem skýrir vinsældir hans. Wii Sports seldist í 83 milljónum eintaka sem gerir hann að þriðja söluhæsta leik allra tíma og margir keyptu tölvuna sjálfa einungis vegna hans. Leiknum hefur verið hrósað fyrir að efla hreyfingu hjá ungmennum og hann hefur verið notaður í sjúkraþjálfun og endurhæfingu. En hann hefur einnig valdið slysum og eymslum leikmanna, t.d. í liðamótum. Árið 2009 kom út Wii Sports Resort með mun fleiri íþróttagreinum, svo sem skylmingum, bogfimi og róðri.
2. Super Mario Bros
Ítalski píuplagningarmaðurinn Mario og bróðir hans Luigi höfðu áður birst á skjánum í vinsælum spilakassaleikjum frá Nintendo á borð við Donkey Kong (1981) og Mario Bros (1983). Super Mario Bros frá 1985 og NES komu þó eins og sprengja inn á leikjamarkaðinn og sumir segja að það hafi bjargað tölvuleikjunum á mjög erfiðum tímum. Super Mario Bros er litríkur pallaleikur (platformer) þar sem bræðurnir hoppa á sveppi, skjaldbökur og fleira til að bjarga prinsessu. Tónlistin vakti líka mikla athygli og er tvímælalaust sú þekktasta úr nokkrum tölvuleik. Super Mario leikirnir hafa verið flaggskip Nintendo á öllum þeirra tölvum síðan og Mario orðinn að heimsþekktu vörumerki. Meðal þekktustu leikjanna má nefna Super Mario Bros 3 (1988), fyrsta þrívíddarleikinn Super Mario 64 (1996) og Super Mario Maker (2015) sem margir segja að sé það eina góða við hina misheppnuðu WiiU tölvu. Á þessu ári mun koma út Super Mario Odyssey fyrir væntanlega Nintendo Switch tölvu.
1. Championship Manager
Árið 1992 gáfu bræðurnir Paul og Oliver Collyer út fyrsta Championship Manager leikinn á Amiga og Atari tölvum. Leikurinn var knattspyrnuhermir þar sem leikmaðurinn hafði enga stjórn á leiknum sjálfum aðra en þá að kaupa og velja leikmenn og stilla upp leikkerfum. Hann er því að miklu leyti handahófskenndur. Nýjar og stærri útgáfur komu út fyrir hvert tímabil eftir það þar sem ýmsum fídusum og deildum var bætt við. Vinsældirnar náðu hámarki í kringum aldamótin 2000 og notendur voru farnir að tala um sig sem fíkla sem lokuðu sig af dögunum saman. Árið 2003 var ný leikjavél tekin í notkun sem var meingölluð og olli miklu fjaðrafoki innan aðdáendahópsins. Það sama ár skildu Collyer bræður við seríuna og komu á fót annarri, Football Manager. Championship Manager dalaði hægt og bítandi uns serían lagðist af árið 2010 en Football Manager lifir ennþá góðu lífi. Þó er til samfélag á netinu sem heldur við og uppfærir Manager vélina frá 2002 sem þeir telja enn vera þá allra bestu.